Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans eru því núna 8,5%. „Verðbólgan er nánast í frjálsu falli og Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir mun minni verðbólgu á næstunni en áður var talið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans eru því núna 8,5%.

„Verðbólgan er nánast í frjálsu falli og Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir mun minni verðbólgu á næstunni en áður var talið. Ef við höldum áfram á réttri leið er vaxtalækkunin í dag aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal á nýju ári. Það skiptir okkur öll miklu máli,“ skrifar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þetta er annað skiptið í röð sem nefndin lækkar vexti bankans, en í október voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig. Var það í fyrsta skiptið í næstum fjögur ár sem Seðlabankinn lækkaði vexti.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, er hæstánægður með lækkunina.

„Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir og núna er stýrilækkunarferlið hafið af fullum krafti eins og okkar spálíkan, sem við vorum að vinna með samhliða kjarasamningum, gerði ráð fyrir,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Peningastefnunefnd gerir ekki ráð fyrir að stjórnarslit og alþingiskosningarnar muni hafa mikil skammtímaáhrif á peningastefnuna í landinu, að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. „Það sem skiptir máli er að fjárlögin voru samþykkt, ekki með miklum breytingum, og svo verðum við bara að sjá hvað gerist þegar það kemur ný stjórn,“ sagði hann á kynningarfundi í gær.

Stýrivextir
lækkaðir

Tvær stýrivaxtalækkanir á innan við tveimur mánuðum.

Verðbólga hjaðnað og mældist 5,1% í október.

Stjórnarslit og kosningar ættu ekki að hafa mikil skammtímaáhrif á peningastefnu.