Ársæll Másson fæddist í Reykjavík 20. janúar 1955. Hann lést á líknardeild Landspítalans 3. nóvember 2024.

Foreldrar Ársæls voru Már Ársælsson, f. 6. apríl 1929, d. 11. ágúst 2013, og Lilja Kristjánsdóttir, f. 12. febrúar 1929, d. 27. ágúst 2019. Systkini Ársæls eru: Áskell, f. 21. nóvember 1953, Karólína Margrét, f. 17. mars 1956, d. 13. janúar 2024, Þórdís, f. 30. júlí 1958, og Ottó, f. 13. janúar 1965.

Árið 1979 kvæntist Ársæll Guðlaugu Guðrúnu Teitsdóttur, f. 29. júní 1952. Þau skildu. Börn þeirra eru:

Lóa Björk Jóelsdóttir, f. 11. ágúst 1972, maki: Helgi Kristinn Halldórsson, f. 1. apríl 1975. Börn þeirra eru: Jóel Kristinn, f. 8. maí 2002, Fannar Ingi, f. 27. október 2004, og María Tinna, f. 15. janúar 2011.

Lilja, f. 24. júní 1979, maki: Jón Freyr Benediktsson, f. 6. mars 1978. Börn þeirra eru Benedikta Valgerður, f. 9. janúar 2006, og Mikael Karl, f. 1. apríl 2013.

Teitur, f. 28. febrúar 1983, maki: Ana Arevalo Pacheco, f. 6. maí 1985. Sonur þeirra er Sebastian Orri Teitsson Arevalo, f. 20. október 2020.

Benedikta, fædd 13. mars 1990. Maki hennar er Jonathan Robert Baker, f. 13. mars 1986.

Ársæll hóf sambúð með Margréti Pálsdóttur árið 2008. Dætur hennar eru:

Björg Pétursdóttir, f. 20. mars 1978. Dóttir hennar er Margrét Fjóla Erlingsdóttir, f. 18. febrúar 2012.

Þórdís Pétursdóttir, f. 20. maí 1992, maki: Arnar Magnús Róbertsson, f. 22. janúar 1990. Dóttir þeirra er María Líf, f. 24. júlí 2023.

Ársæll varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1974. Árið 1978 tók hann B.Ed.-próf frá Kennaraháskóla Íslands og BS-próf í stærðfræði frá Háskóla Íslands 1982. Hann var stundakennari við Þinghólsskóla í Kópavogi veturinn 1978-79 og við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1980-81. Jafnframt starfaði hann nokkur sumur sem uppeldisfulltrúi við Unglingaheimili ríkisins.

Ársæll hóf kennslu við Menntaskólann við Sund árið 1983 og starfaði þar til ársins 1999. Þá færði hann sig yfir í Kvennaskólann í Reykjavík og kenndi þar til ársins 2023.

Ársæll varð snemma góður gítarleikari og lærði meðal annars við Tónlistarskóla FÍH. Hann varð fyrsti gítarleikari Stórsveitar Reykjavíkur þegar hún var stofnuð, árið 1992, og lék á fyrstu plötu sveitarinnar árið 1995. Ársæll var tónlistargagnrýnandi DV frá 1993 til ársins 2000.

Útför Ársæls verður gerð frá Háteigskirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á slóðinni: http://mbl.is/go/v5q7c

Elsku Sæli okkar.

Við munum daginn sem þú komst fyrst inn í líf okkar, eins og hann hafi verið í gær. Mamma fékk símtal og um leið og hún svaraði lýstist andlit hennar upp. Hún sagði okkur að yndislegur maður sem hún kynntist í menntaskóla hefði verið að bjóða henni út að borða. Við hvöttum hana að sjálfsögðu til að skella sér og þá var sagan skrifuð. Síðan þá lýstir þú upp lífið hennar mömmu – og líf okkar í leiðinni. Það geislaði af mömmu alla daga eftir að þú komst og heillaðir hana upp úr skónum.

Gleði þín smitaði mikið út frá sér og það var ekki annað hægt en að svífa brosandi út þegar við höfðum verið í mat, já eða kaffi, hjá ykkur mömmu. Það sem stóð upp úr í matarboðunum var rauðkálið góða sem enginn gerði eins og þú. Við systur höfðum hvorugar borðað rauðkál fyrr en við fengum að smakka þitt. Það varð stór hluti af matarboðunum, rauðkálið og góða rauðvínið sem þú hafðir alltaf valið vel fyrir hvert og eitt skipti.

Einn dagur sem við tengjum alltaf við þig er gamlárskvöld. Það ríkti tilhlökkun allt kvöldið. Við klæddum okkur upp á og um leið og við gengum inn tók á móti okkur fallega skreytt og hlýlegt heimili og ilmur af ljúffengum mat. Þar stóðst þú í smóking, með svuntuna góðu, martini í hendi og bros út að eyrum, tilbúinn að taka á móti nýju ári með okkur. Við tóku hefðbundin hátíðarhöld en þú settir eitthvert sérstakt „touch“ á kvöldið. Flugeldar og dansandi korktappar verða ekki þeir sömu í ár.

Við erum endalaust þakklátar fyrir að þú skulir hafa komið inn í líf okkar, með tónlistina, húmorinn og yndislegu matarboðin.

Þínar stjúpdætur og afastelpa,

Þórdís, Björg og
Margrét Fjóla.

Ég kynntist Ársæli Mássyni, eða Sæla, haustið 1977 þegar ég hóf nám við Kennaraháskóla Íslands en hann var þá á lokaári námsins. Sæli var virkur í félagsstörfum nemenda, glöggur, úrræðagóður og hvers manns hugljúfi. Ekki spillti að yfirleitt var gítarinn nálægur og í lok funda var iðulega spilað og sungið. Sæli var ótrúlega flinkur gítarleikari og óspar á að miðla gítargöldrum sínum til okkar, minni spámannanna.

Sumarið 1981 kynntumst ég og verðandi eiginkona mín, Karólína Margrét Másdóttir, og það var heldur betur ánægjulegt þegar í ljós kom að hún reyndist vera systir Sæla. Þau systkinin voru afar náin og þrátt fyrir að við Kæja byggjum og störfuðum austur á Eiðum og síðar á Akureyri var sambandið við Sæla alla tíð mikið og gott.

Í fjölmörgum heimsóknum okkar Kæju á höfuðborgarsvæðið var undantekningarlítið gist hjá Sæla og Gullu og seinna meir Sæla og Grétu, eftir að þeirra sambúð hófst, og ávallt miklir fagnaðarfundir.

Já, Sæli var afburðagítarleikari og fjölhæfur, ekki vafðist fyrir honum að spila lög Bítlanna, Rolling Stones, Kinks, Shadows eða hljómsveita þeirra tíma. Seinna fór hann í Tónlistarskóla FÍH með áherslu á gítarleik og djasshljómfræði. Í framhaldinu varð hann gítarleikari Stórsveitar Reykjavíkur.

Sæli lék í fjölmörgum hljómsveitum og var yfirleitt virkur í nokkrum þeirra samtímis. Þar má nefna Bítilbræður, Bambinós, Misgengið, Föruneyti Gísla Helgasonar og Dr. Blood Group. Þá var hann fastur meðleikari hjá Múltíkúltíkórnum, fjölþjóðlegum sönghópi kvenna sem Gréta stofnaði og stjórnar.

Í stórafmælum og á ættarmótum kom það jafnan í hlut Sæla að æfa upp tónlistaratriði eða heilu hljómsveitirnar sem samanstóðu af ættingjum og vinum. Alla þátttakendur lét hann hafa ítarlegar leiðbeiningar, texta og hljóma til að tryggja hnökralausan flutning.

Við Kæja fórum margar eftirminnilegar utanlandsferðir með Sæla og Grétu. Sumarið 2019 fórum við minnisstæða ferð til Albaníu og Kósovó og 2022 var komið að Grænlandsferð. Bítilbræður voru fengnir til að leika þar á hátíðardagskrá en á síðustu stundu forfölluðust tveir bræðranna þannig að fylla þurfti í skörðin. Sæli spurði hvort ég væri til í að koma og spila með þeim og slógumst við Kæja í hópinn. Óhætt er að segja að Grænlandsferðin öll varð ógleymanlegt ævintýri. Síðasta ferð okkar Sæla var pílagrímsferð á Bítlaslóðir í Liverpool fyrir réttu einu ári.

Kæja hafði glímt við krabbamein um nokkurn tíma og því miður tapaðist sú barátta í janúar síðastliðnum. Sæli kom norður til að vera hjá systur sinni og okkur til halds og trausts á lokasprettinum, sem var ómetanlegt. Segja má að í gegnum tíðina hafi Sæli ávallt verið mér sem besti bróðir.

Ekki grunaði mann að í vændum væri sama barátta hjá honum sjálfum. Sæli greindist með ólæknandi krabbamein í júní síðastliðnum, sem því miður hefur nú farið með sigur af hólmi. Það liðu því aðeins tíu mánuðir á milli þeirra systkinanna.

Ég votta Grétu, afkomendum Sæla og aðstandendum innilega samúð, einstakur maður er genginn.

Stefán Jóhannsson.

Það var mikill fengur fyrir okkur systkinin þegar Gréta systir kynnti Sæla fyrir okkur. Ljúfur og rólegur maður var einmitt það sem passaði vel í okkar hóp, svona jarðtenging fyrir okkur fiðrildin.

Börnin okkar löðuðust að honum og alltaf gaf hann sér tíma fyrir þau. Það var gott að leita til hans með ýmis verkefni, hvort sem það var að aðstoða með stærðfræði, leika undir hjá okkur systkinum eða taka þátt í öðrum hugmyndum okkar, oftast með stuttum fyrirvara. Sæli lét það ekki slá sig út af laginu og tók þátt á sinn einstaka hátt.

Hann átti stóran þátt í því að við stofnuðum Bakkalábandið okkar góða. Við höfðum verið að syngja og spila saman lengi en þegar hann bættist í hópinn kom enn fallegri hljómur og hægt var að taka gítarsóló og alles.

Það var gaman að heimsækja Grétu og Sæla sem tóku alltaf vel á móti okkur og fjölskyldum okkar. Kaffið góða, spjall og oft gítarspil einkenndi samverustundirnar. Það var einstakt að finna hlýjuna og hjálpsemina frá Sæla þegar ósköpin dundu yfir heimabæ okkar fyrir rúmu ári. Þá var gott að eiga bakland í Brautarlandinu og verðum við ævinlega þakklát fyrir það.

Við vottum fjölskyldu Sæla innilega samúð og biðjum Guð að blessa þau.

Hvíl í friði, kæri mágur.

Kristín, Páll, Pétur, Sólný og Svanhvít Pálsbörn.

Í dag kveðjum við kæran vin og bekkjarbróður, Ársæl Másson eða Sæla eins og hann var ávallt kallaður í okkar hópi.

Við vorum 15 strákar saman í 5. og 6.-Q í MR, lítill og samheldinn bekkur sem útskrifaðist vorið 1974. Það mynduðust góð tengsl á milli okkar í þessum fámenna bekk. Sæli fór fyrir hópnum, hann var bekkjarráðsmaður og seinna árið gegndi hann starfi Inspectors Platearum. Í þessu sem öðru var allt gert af hógværð og yfirvegun og alltaf stutt í kímnigáfuna hjá honum. Hann var vinmargur og mjög vel liðinn hvar sem hann kom. Tónlist var honum í blóð borin og naut hann þess að hlusta á góða tónlist af ýmsu tagi. Gítarinn var aldrei langt undan, enda var hann afbragðs gítarleikari, jafnvígur á popp, rokk og djass. Hann var mjög virkur og spilaði með mörgum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Nú síðast í vor, þegar árgangurinn hittist á Hótel Borg til að fagna 50 ára stúdentsafmæli sínu, spilaði Sæli ásamt hljómsveit fyrir dansi.

Eftir stúdentspróf lá leiðin í Kennaraháskóla Íslands þaðan sem hann lauk kennaraprófi. Hann starfaði síðan sem framhaldsskólakennari í stærðfræði við mjög góðan orðstír, nú síðast við Kvennaskólann í Reykjavík.

Við bekkjarfélagar Sæla þökkum honum samfylgdina og fyrir að hafa leitt hópinn í öll þessi ár. Þá vottum við aðstandendum hans innilega samúð okkar. Megi minningin um góðan dreng lifa.

Fyrir hönd bekkjarfélaganna í MR,

Gísli Fannberg og
Halldór Eiríksson.

Látinn er Ársæll Másson, stærðfræðikennari og tónlistarmaður. Við félagarnir kynntumst Sæla fyrir hartnær 40 árum, og allar götur síðan höfum við hist reglulega undir því yfirskini að borða saman: Hangið sauðarlæri á þorranum, saltfisk að vorlagi, ketsúpu af lyngheiðarlambi á haustdögum og skötu á Þorláksmessu. Eins og gefur að skilja höfum við stundum þurft að hafa við höndina eitthvað sem hnígur til að renna þessu niður með. Ekkert af þessu getur þó hafa talist aðaltilgangur – heldur að taka lagið, stilla saman strengi í víðtækasta skilningi, spjalla og njóta félagsskaparins, anda að sér sveitalofti og skötuilmi í skúrum borgarinnar. Margar urðu þessar samkomur sögulegar, en um það verður haft hljótt hér og nú.

Í upphafi þessa ævintýrs hafði Sæli þegar lært að stilla sína lífshörpu, og áreiðanlega líka fundið þann eina, hreina tón, sem sagt er frá í bókum, dimman og djúpan. Gjafmildi hans og örlæti á sjálfan sig hafa orðið notadrjúg fyrir okkur hina, og óskeikull var hann að finna samnefnara í tónlistarveröld okkar félaga, gagnólíkra, litríkra og nokkuð stærilátra, milljón prósent manna að eigin áliti. Þessar náðargjafir hljómsveitarstjórans og úthugsaður útreikningur á eðli og áhuga félaganna hafa allan þennan tíma gegnt lykilhlutverki í að halda saman félagsskapnum, og tryggt það að allir hafi fengið að láta ljós sitt skína í söng og spili – og virkri hlustun á alla snilldina. Sjálfur gætti hann þess vandlega að standa fremur til hlés og skyggja í engu á það sem fram fór.

Verkleg birtingarmynd þessa alls er nú til í mörgum bindum, útprentuðum eða tölvutækum. Fyrir sérhverja samkomu okkar félaga – og stundum var hópurinn stærri – fann Sæli til það sem spila skyldi, útsetningar, lög og texta. Gjarnan var eitt meginþema ráðandi hverju sinni – við nefnum bara Rolling Stones, Bítlana, Kinks og Bob Dylan – en tónlistargáfan réð við svo margt að hann munaði ekki um að taka öll þau hliðarspor sem óskað var eftir. Ekki síst til að koma til móts við sérvisku og hugdettur félaganna, setja sig rækilega inn í þeirra söng- og spilaspor og finna öllum hæfilegt og hugstætt hlutverk, jafnvel ýta undir draumkenndar væntingar og þrár sinna minnstu bræðra, þótt syngju hver með sínu nefi. Ættjarðarlög, Fjárlögin, smalasöngvar, karlakóralög, einsöngslög og síðast en ekki síst Maggi Eiríks voru meðal viðfangsefna sem iðulega var gripið til í þeim heimsins glaumi sem trúað var hverju sinni.

Sumum okkar hefur Sæli verið meiri velgjörðamaður en hér var rakið. Og þótt hér hafi verið reynt að láta heita eitthvað okkar sameiginlegu og hjartkæru minningu um fallinn félaga verða ótal viðvik og atburðir meðal þess ósagða og ósegjanlega, sem hreiðrað hefur um sig í brjóstum okkar, þegar foringinn er fallinn.

Við félagarnir sendum Margréti og öllum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðju.

Bjarni Þorkelsson,
Guðjón M. Bjarnason, Gestur R. Bárðarson, Þórólfur Guðnason,
Héðinn Pétursson,
Erlingur Páll Ingvarsson, Óli Sverrir Sigurjónsson, Páll Ólafsson
og Teitur Bergþórsson.

Sæla kynntist ég fyrst 1978 er ég ásamt fjölskyldu minni flutti til Íslands frá Danmörku. Sæli var þá tekinn saman við Gullu, vinkonu okkar frá Laugarvatni. Á þeim tíma kappkostuðu menn að gera sér glaðan dag og nánast alltaf í okkar sameiginlega gleðskap var Sæli með gítarinn. Ekki þurfti að brýna hann til dáða og þá strax var ljóst hvílíkur yfirburðaspilari hann var. Öll músík lék í höndunum á honum þótt upphaflega hafi hann helst hallað sér að rokki og þá einkum Rolling Stones en var líka duglegur að spila baráttusöngva. Síðar meir hallaði hann sér meira að djasstónlist og spilaði m.a. í Stórsveit Reykjavíkur um tíma.

Allt frá fyrstu tíð tókst með okkur Sæla mikill vinskapur. Hann var endalaust að kenna mér ný lög með alls kyns gítargripum og get ég með sanni sagt að af fáum hef ég lært meira í músík en honum. Við spiluðum saman í mörgum hljómsveitum sem veitti mér mikla ánægju og að ég held honum líka. Upphaflega reyndi hann að koma inn hjá mér ágæti Rolling Stones en ég á móti reyndi að halda fram ágæti Bítlanna. Báðum tókst nokkuð vel til því ég fór að meta Rollingana æ meir og hann að meta Bítlana.

Sæli var mikill vinstrimaður í pólitík á sínum yngri árum og lét til sín taka í framvarðasveit Fylkingarinnar. Seinni árin bar nú minna á pólitík hjá mínum manni þótt alltaf væri hann jafnréttissinni og uppfullur af réttlæti. Þótt Sæli hafi ekki verið maður margra orða þá var hægt að ná honum á flug í umræðum um ýmis pólitísk mál og ekki síður um músík og músíkanta.

Það hryggir mig óendanlega mikið að geta ekki lengur átt með honum góðar stundir við spilamennsku og spjall. Ég sé hann fyrir mér með sitt fallega bros spilandi gömul popplög með Animals, Kinks, Rolling Stones og Bítlunum.

Við Sara vottum Margréti, börnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Þórólfur Guðnason.