Alþjóðlegu kvikmyndakeppninni í Cork lauk nýverið og hlaut kvikmyndin Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson svokölluð Outlook-verðlaun sem veitt eru af dómnefnd háskólanema. Í tilkynningu frá aðstandendum myndarinnar kemur fram að þetta séu elleftu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaunin sem Ljósbrot hlýtur en jafnframt kvikmyndaverðlaun númer hundrað og fimmtíu sem myndir eftir Rúnar hljóta.
„Ljósbrot miðlar einstaklega sannfærandi sögu sem dregur fram blæbrigði sorgar og kærleika, og fangaði augu okkar, huga og hjörtu,“ er haft eftir dómnefndinni. Þá er haft eftir Rúnari: „Kvikmyndir eru teymisvinna og hef ég verið lánsamur í gegnum tíðina að vinna með frábæru fólki. Ég er stoltur af þeim og því sem við höfum áorkað saman.“ Myndin er framleidd af Heather Millard og með aðalhlutverk fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.