Hali í Suðursveit Klettadrangurinn Bergur féll nýverið, en hann setti mikinn svip á Breiðabólsstaðarklettana við Hala í Suðursveit.
Hali í Suðursveit Klettadrangurinn Bergur féll nýverið, en hann setti mikinn svip á Breiðabólsstaðarklettana við Hala í Suðursveit. — Ljósmynd/Einar Björn Einarsson
„Þetta var nú bara um miðjan dag þrettánda nóvember sem fólk hér á bæjunum tók eftir því að Bergur var horfinn úr fjallinu,“ segir Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit, í samtali við mbl.is um…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Þetta var nú bara um miðjan dag þrettánda nóvember sem fólk hér á bæjunum tók eftir því að Bergur var horfinn úr fjallinu,“ segir Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit, í samtali við mbl.is um klettadranginn Berg í Breiðabólsstaðarklettum sem um eilífð hefur vakað yfir íbúum og gestum á Hala, fæðingarstað Þórbergs rithöfundar Þórðarsonar.

Bergur féll, að öllum líkindum, í aftakaveðri sem gerði þar eystra aðfaranótt 13. nóvember eftir varðstöðu um þúsundir ára og er sjónarsviptir að, enda veittu íbúar brotthvarfi hans þegar athygli. Þess má geta hér til fróðleiks að Þórbergur Þórðarson lést 12. nóvember 1974 svo nærri lætur að Bergur hafi yfirgefið sviðið hálfri öld á eftir rithöfundinum frá Hala, nánast upp á dag.

Mikill sjónarsviptir

„Hann var búinn að standa þarna í örugglega þúsundir ára og bar alltaf við himin héðan frá bæjunum séð svo það er mikill sjónarsviptir að honum,“ segir Þorbjörg enn fremur og bætir því við að líklegast sé að Bergur hafi hrunið aðfaranótt miðvikudagsins í síðustu viku, þá hafi verið mjög hvasst en raunar hafi verið þoka dagana á undan svo ekki sé hægt að segja með fullri vissu til um tímasetninguna.

„Það var hvasst þessa nótt og sviptivindar, en það hefur nú oft verið áður á Hala, hann hefur bara verið orðinn fótafúinn,“ segir forstöðumaðurinn. Bergur hafi verið herðabreiður en mjókkað niður og staðið á eins konar stalli á fjallinu ofan við Hala. Kveður hún ferðamenn hafa veitt klettinum sérstaka athygli og einir þrír fararstjórar haft orð á brotthvarfi hans þá viku sem liðin er. Nánar á mbl.is.