„Það er okkur hjá Barnaheillum sönn ánægja að veita Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð og ömmu Andreu viðurkenningu Barnaheilla árið 2024 fyrir ómetanleg störf í þágu barna,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Barnaheilla.
Viðurkenningin er veitt 20. nóvember ár hvert, á afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þetta var í 23. skiptið sem Barnaheill veittu viðurkenningu. Í ár fengu í fyrsta skipti tveir hópar viðurkenningu. Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð vinnur að forvarnarstarfi með unglingum þar sem sjónum er beint að viðhorfum og atferli sem stuðla að heilbrigðum lífsstíl og virkni í samfélaginu. Andrea Þórunn Björnsdóttir frá Akranesi, sem gengur undir nafninu amma Andrea, hefur í fjölda ára staðið fyrir söfnunum til að styðja við fjölskyldur sem eiga um sárt að binda vegna veikinda eða annarra áfalla. Í umsögn Barnaheilla segir að bæði verkefnin séu fyrirmyndarsamfélagsverkefni. doraosk@mbl.is