Höfundurinn „Persónusköpun í bókinni er á heildina upp á tíu,“ skrifar rýnir um bók Halldórs Mikilvægt rusl sem fjallar m.a. um ruslakarla.
Höfundurinn „Persónusköpun í bókinni er á heildina upp á tíu,“ skrifar rýnir um bók Halldórs Mikilvægt rusl sem fjallar m.a. um ruslakarla. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Mikilvægt rusl ★★★★½ Eftir Halldór Armand. Flatkakan útgáfa, 2024. Innbundin, 246 bls.

Bækur

Snædís

Björnsdóttir

Mikilvægt rusl nefnist nýjasta skáldsaga Halldórs Armands Ásgeirssonar og hefur þennan líka skemmtilega titil sem hægt er að spá og spekúlera í. Hvað er mikilvægt rusl annað en verðmæti? Ef rusl er mikilvægt, er það þá ennþá rusl? Orðið er refhvörf og í því kjarnast tveir þættir sem segja má að endurspegli söguna í heild sinni: frásagnargleði og dansandi leikur með tungumálið.

Dansandi, segi ég, og bókin hefst einmitt á hálfgerðri danssenu: „Þegar hann var kominn að öskubílnum, sem beið hans rymjandi úti á miðri götunni, sneri Gómur tunnunum fagmannlega í hring með snarpri úlnliðshreyfingu eins og hann væri að dansa við þær og festi þær í lyftuna. […] Við fætur hans lyftist öskutunnan eins og ballerína frá jörðinni og tæmdist kröftuglega inn í sinnepsgulan trukkinn“ (4).

Mikilvægt rusl segir frá öskukallinum Gómi Barðdal sem dag einn finnur afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsivillu í Þingholtunum. Reyndar er það ekki á hvaða degi sem er, heldur 6. október 2008, deginum sem Geir H. Haarde forsætisráðherra bað Guð um að blessa íslensku þjóðina í beinni útsendingu í sjónvarpinu í tilefni bankahrunsins. Á meðan íslenska þjóðin fer á límingum yfir þjóðfélagsástandinu kemst einungis eitt að í huga Góms: Hver á þetta nef og hvernig endaði það í ruslinu?

Mikilvægt rusl er fimmta skáldsaga Halldórs Armands sem með bókum sínum hefur vakið athygli fyrir skarpar lýsingar á samtímanum, beittan húmor og samfélagsádeilu í bland við heimspekilegar vangaveltur um tilgang og eðli hlutanna. Mikilvægt rusl hefur öll þessi helstu höfundareinkenni Halldórs en er mögulega vandaðasta verk hans til þessa.

Laxdæla í nútímabúningi

Bókin skartar skrautlegu persónugalleríi og fær Gómur alls kyns misundarlegar týpur til þess að hjálpa sér að leysa úr gátunni um nefið góða. Helsti vitorðsmaður hans er Geir Norðann, frændi hans sem er bæði mislukkað og sárþjáð ljóðskáld, og saman mynda þeir kostulegt tvíeyki í anda spæjarasögunnar. Þá koma einnig við sögu talandi páfagaukurinn Hanna (skírð í höfuðið á heimspekingnum Hönnuh Arendt), félagslega einangraði ungi „incelinn“ Týr Hannes, ráðagóði bílasalinn Kata, hörkutólið Didda öskukelling og lúgustelpan Zipo sem vinnur á Aktu Taktu og er forritunarsnillingur í leyni. Þetta litríka og furðulega samsetta teymi kemst síðan saman á snoðir um samsæri sem teygir sig allt frá ruslinu upp í efstu lög samfélagsins.

Gómur Barðdal, aðalsöguhetja okkar, er mikill vitringur og má nánast ekki opna munninn án þess að láta út úr sér einhver (misvel heppnuð) spakmæli. Hann myndar eins og áður segir skemmtilega samstæðu með frænda sínum Geir Norðann sem er öllu alvarlegri og dramatískari. Í sögunni er spilað á þessa fínu línu á milli gríns og alvöru þó að það halli reyndar meira á grínhliðina og fíflalætin séu aldrei langt undan. Það er kannski að þessu leyti sem bókin minnti mig á skáldsögu Milans Kundera Hátíð merkingarleysunnar (2013) en um hana hefur verið sagt að hún varpi ljósi á alvarleg málefni án þess að segja eitt einasta orð af alvöru. Það er á vissan hátt þetta sem Mikilvægt rusl reynir að gera og tekst líka ágætlega.

Við kynnumst líka útrásarvíkingunum Bolla Einarssyni, Kjartani Tý Ólafssyni og Gyðu Guðrúnu Hannesardóttur sem eiga í flóknum ástarþríhyrningi. Hér vísar sagan í eitt þekktasta þríeyki íslenskrar bókmenntasögu, nefnilega þau Bolla, Kjartan og Guðrúnu úr Laxdæla sögu. Hún er því nútímaleg endurritun á klassískri ástarsögu þeirra og tekst á við sömu þemu, það er frændsemi, öfund, eignir og hefnd. Höfundur vinnur vel úr þessum efniviði, raunar á mjög skemmtilegan hátt.

Mögulega hefði þó verið hægt að gera eitthvað meira úr sögupersónu Guðrúnar sem birtist einungis í mýflugumynd í sögunni í samanburði við frændurna Bolla og Kjartan – ég beið alla söguna eftir því að heyra hina fleygu línu „Þeim var ég verst er ég unni mest“ en hún kom aldrei – en kannski er það bara í anda Íslendingasagnanna að kvenhetjan sé svolítið fjarræn og dularfull.

Persónusköpun í bókinni er á heildina upp á tíu og þó að sögupersónurnar séu ansi margar skilur hver og ein eitthvað eftir sig. Ég verð líka að nefna skondin nöfnin sem margar persónurnar bera og eru nákvæmlega nógu fáránleg til þess að kynda undir gáskafullri stemningunni í bókinni.

Allt á haus – er ég að verða vitlaus?

Rusl er vægast sagt forvitnilegur efniviður fyrir skáldsögu. Og, eins og Mikilvægt rusl sýnir fram á, greinilega góður efniviður – í það minnsta þegar vel úr honum er unnið eins og gert er hér.

Það er nefnilega ekki bara hefðbundið rusl sem kemur við sögu heldur alls kyns annar úrgangur. Þar á meðal margs konar táknrænt rusl og sömuleiðis mannlegur, líkamlegur úrgangur. Á köflum leiðist sagan út í hálfgerðan grínfarsa og í henni eru ófáir aula- og kúkabrandarar. Jafnvel heldur margir fyrir minn smekk.

Það sýnir sig að ruslið hangir saman við flest annað og er því áhugaverð linsa til að beina að þjóðfélaginu. Í því leynast bæði huldar gersemar og sannindi. Ruslið speglar manninn, eins og sagan bendir á, og kannski erum við einmitt alveg jafn mikið það sem við hendum – úrgangurinn sem við framleiðum og látum frá okkur – eins og við erum það sem við borðum og neytum. Sagan er eins konar karnival: Hér er hlutverkum snúið á haus og hið lægsta notað til þess að spegla hið hæsta. Þetta er vel heppnað og er sögufléttan snjöll. Þá eru í sögunni margir spennandi hnútar og þræðir sem gaman er að rýna í og velta fyrir sér. Mikilvægt rusl er því bæði sprenghlægileg og vitur skáldsaga sem ánægjulegt er að lesa.

Inn í söguna er skeytt ýmsum vísum sem flestar eru nú hálfgerður leirburður og á það að sjálfsögðu vel við. Vísurnar eru margar og hefðu sumar mátt missa sín þó að oftast séu þær viðeigandi í frásögninni. Þær vekja sömuleiðis hlátur og kjarna á margan hátt prakkaraskapinn og frásagnargalsann í sögunni.

Flatkakan gefur út

Bókin er gefin út af Flatkökunni útgáfu sem ég veit ekki betur en að sé stofnuð og rekin af höfundi sjálfum. Tryggvi Þór Hilmarsson sá um hönnun og umbrot og setja snotrar teikningar eftir Pétur H. Helgason svip sinn á bókina. Þá hefur ýmislegt umstang höfundar í kringum útgáfuna vakið athygli og á heimasíðu hans má til að mynda kaupa persónulegt eintak með handskrifuðu bréfi frá honum eða þá bóka heimsókn frá honum í lesklúbb, svokallaða Kvöldstund með höfundi. Á samfélagsmiðlum er síðan hægt að taka þátt í gjafaleik þar sem möguleiki er á að vinna, auk eintaks af bókinni, handskrifaðar blaðsíður úr dagbók höfundar. Það er alltaf gaman að því þegar lagður er slíkur metnaður í bókaútgáfu og á Halldór eiginlega sérstakt lof skilið fyrir hugmyndaríka markaðssetningu. Á heildina litið er útgáfan vönduð og falleg með skemmtilegu handbragði höfundar.

Í sögunni tönnlast þjáða ljóðskáldið Geir Norðann í sífellu á því að skrif hans „tali beint inn í samtímann“. Þetta er auðvitað vel þekktur frasi úr bókmenntaumræðunni og hefur kannski að vissu leyti glatað merkingu sinni eins og Mikilvægt rusl dregur fram með því að gera að skopi. Hvaða bókmenntatexti talar annars ekki inn í samtíma sinn? Fjalla ekki allar sögur jafn mikið um sjálfar sig og samtíma sinn og þær fjalla um nokkuð annað?

Ég ætla hins vegar að grípa orð sögupersónunnar Geirs Norðanns á lofti og slá því föstu að Mikilvægt rusl bregði forvitnilegu ljósi á samtíma sinn. Til þess að komast að því hvað það raunverulega þýðir verðið þið svo bara að lesa bókina.