Guðlaugur Bjarnason fæddist 5. september 1949 í Reykjavík. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Hjúkrunarheimilinu Silfurtúni í Búðardal 2. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru Bjarni Sigurðsson, f. 27. júlí 1911, d. 12. janúar 1995, og Svanhvít Svala Kristbjörnsdóttir, f. 3. janúar 1918, d. 24. desember 1998.

Systkini hans eru Guðbjörg, f. 1938, d. 2019; Sigurður Runólfur, f. 1941, d. 1959; Sigurjón Skúli, f. 1943, d. 2012; Guðrún Brynhildur, f. 1945, búsett í Bandaríkjunum; Karólína Guðmunda, f. 1956, búsett í Reykjavík; Sigrún, f. 1960, búsett í Bandaríkjunum.

Eftirlifandi eiginkona er Guðlaug Harðardóttir, f. 14. janúar 1951, en þau giftu sig þann 5. desember 1970.

Börn þeirra eru: 1) Vilhjálmur Hörður, f. 19. september 1970. Kvæntur Hönnu Sigríði Stefánsdóttur, f. 4. febrúar 1970. Börn þeirra eru: a) Skarphéðinn Haraldur, f. 1990. b) Stefán Jakob, f. 1991, maki Arndís Anna Jakobsdóttir, saman eiga þau þrjú börn. c) Guðlaugur Týr, f. 1996, og á hann einn son. d) Stefanía Anna, f. 1999, maki Ólafur Geir Árnason, saman eiga þau þrjú börn. e) Svanhvít Svala, fædd andvana 2005. f) Vilhjálmur Þór, f. 2005.

2) Sigurður Bjarni, f. 28. september 1974. Kvæntur Brynhildi Hrund Jónsdóttur f. 14. desember 1975. Börn þeirra eru: a) Guðrún Þórdís, f. 1991, og á hún tvö börn. b) Guðrún Katrín, fædd andvana 1996. c) Bjarni, f. 1999. d) Kolbrún Hulda, f. 2000, maki Olaf Forberg, saman eiga þau eitt barn. e) Sóldís Jóna, f. 2005.

3) Kristinn Runólfur, f. 14. september 1987. Kvæntur Emilíu Lilju R. Gilbertsdóttur, f. 25. apríl 1982. Börn þeirra eru: a) Þórey Hekla, f. 2000, maki Harpa Dögg Halldórsdóttir. b) Hrafnar Jökull, f. 2008. c) Kári Freyr, f. 2011.

Guðlaugur útskrifaðist sem vélstjóri frá Vélskóla Íslands, en einnig sótti hann nám við Stýrimannaskólann og lauk þar prófi í skipstjórn. Guðlaugur starfaði lengst af sem vélstjóri til sjós en eftir að í land var komið starfaði hann við verslunarstörf. Guðlaugur lét ekki þar við sitja heldur skellti hann sér aftur á skólabekk á gamals aldri og lauk sveinprófi frá Borgarholtsskóla í vélvirkjun. Eftir að hafa lokið því námi starfaði hann sem vélvirki á meðan heilsan leyfði. Nokkrum árum áður en Guðlaugur lést greindist hann með sjúkdóminn Lewy body og bjó þess vegna síðasta hálfa árið á Hjúkrunarheimilinu Silfurtúni í Búðardal.

Útför fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13.

Hann pabbi var einstakur faðir, vinur og eiginmaður. Hann var helsti stuðningsmaður okkar bræðra og má eiginlega segja að hann sé minn stærsti áhrifavaldur í lífinu. Ekki kannski í þeirri meiningu að ég hafi fetað í hans spor, heldur með því að hafa alltaf haft óbilandi trú á mér og stutt mig í blíðu og stríðu.

Það voru engar hugmyndir of stórar eða smáar fyrir pabba, hann hafði margoft látið á sínar hugmyndir reyna með misjöfnum árangri en stóð alltaf upp keikur. Pabbi hafði þann eiginleika að vera æðrulaus og hélt áfram, leitaði leiða og gat horft fram á veginn.

Pabbi var alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur bræður, mér er minnisstæður ómældur tími sem ég smápjakkur hékk í skálmunum á honum og Herði bróður þegar verið var að skipta um bílvélar, laga sendibílinn og smíða eitthvað úr járni. Seinna þegar ég stálpaðist kom röðin að mér að aðstoða mig í allskonar bílaviðgerðum, og stendur þar upp úr þegar við lágum á bílaplaninu í Jörfabakkanum með rafsuðu tengda í framlengingarsnúru inn í þvottahús hjá mömmu að sjóða stífuupphengjur í einn af jeppunum sem ég átti. Þetta er eitthvað svo lýsandi fyrir hann, þetta var ekkert endilega eitthvað sem honum fannst skemmtilegt en þetta voru bara verkefni sem þurfti að gera.

En pabbi var líka einstaklega fær í að leiðbeina manni og kenna manni réttu handtökin, ég gleymi því aldrei þegar ég hafði sprengt afturdekkið á BMX-inu mínu trekk í trekk og gamli alltaf að taka dekkið að bæta það, þar til hann fékk nóg og kenndi mér réttu handtökin. Þó svo að ég hafi vissulega lært að bæta dekkjaslöngur á reiðhjólinu mínu þá held ég að stóri lærdómurinn hafi verið sá að ég fór varlegar og reyndi að passa upp á að sprengja ekki dekk í kjölfarið. Þannig kenndi hann ungum strák að maður fær ekki alltaf allt upp í hendurnar og verður að hafa fyrir hlutunum sjálfur.

Pabbi var trúr fólkinu sínu, og það var alltaf númer eitt. Hann og mamma voru gott teymi í að halda heimili og við ólumst upp við ástríki, maður sá að þau voru ástfangin og hamingjusöm saman. Sem kenndi mér það að sama hvaða verkefni lífið hendir í okkur þá eigum við alltaf meiri möguleika í sameiningu frekar en sundrung. Það var alltaf hlýtt að koma til mömmu og pabba, það voru alltaf hlý faðmlög og stingandi koss á kinn frá þeim skeggjaða. Það var alltaf svo mikill áhugi hjá pabba á því hvað drifi á dagana hjá okkur hvort sem það snerist um vinnu, lífið eða bara hvað sem er.

Pabbi lifði fyrir barnabörnin sín, naut þeirra og fíflaðist með þeim. Mér verður hlýtt að hugsa til innilegs sambands hans við strákana mína.

Ég gæti skrifað endalaust um hvað pabbi var frábær, en umfram allt var hann pabbi minn, ég leit upp til hans og í mínum augum gat hann allt. Hann var vissulega breyskur en hann lét sjaldan á sér bilbug finna. Ég kveð pabba fyrst og fremst þakklátur fyrir allar stundirnar saman, fyrir allan lærdóminn sem hann kenndi og fyrir kærleikann sem umvafði mann í návist hans.

Kristinn Runólfur
Guðlaugsson.

Elsku besti pabbi og besti vinur minn, það að þú sért farinn frá okkur er eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað, það verður svo skrítið að geta ekki hringt í þig oftar þar sem við vorum alltaf í frekar miklu sambandi, ef ekki í síma þá var það í gegnum tölvuna að skoða saman einhverjar síður með báta og verkfæri, alltaf að spá einhvað, svo voru það öll verkefnin sem við gerðum saman, settum upp handrið í Leirubakkanum, smíðuðum saman fjárvagn, gjafagrindur og stækkun á fjósi svo eitthvað sé upptalið, svo komstu og hjálpaðir mér við að stækka herbergi og klæða húsið, svo voru það öll ferðalögin sem við fórum í saman, fórum tveir saman til London 1999, frábær ferð, svo nokkrar sumarbústaðaferðir og húsbílaferðir svo síðast til Tene í janúar 2023, frábær ferð með ykkur mömmu. Elsku pabbi, ég kveð þig núna, sjáumst í næsta lífi. Elska þig.

Þinn

Hörður.

Elsku Gulli.

Orðin úrræðagóður, hjálpsamur, góðhjartaður, fyndinn, ískarl og nammigrís eru allt orð sem ég myndi velja til að lýsa þér. Þú varst alltaf svo duglegur hvort sem það var í vinnu eða heima og allt sem þú tókst að þér gerðir þú vel. Maður gat alltaf leitað til þín og þú vildir öllum vel. Síðasta ár var þér erfitt en maður gat alltaf kallað fram bros hjá þér þegar maður fór með þér í ísbíltúra og bryggjurúnta og hefði ég viljað hafa þá miklu fleiri en þetta voru samt frábærar minningar sem við bjuggum til saman með Sigga og barnabörnunum þínum.

Hvíldu í friði.

Kveðja,

Brynhildur.