Hreinn Bergsveinsson fæddist 6. júlí 1934. Hann lést 17. október 2024.
Útför hans fór fram 30. október 2024.
Elsku hjartans afi minn, nú ertu kominn í sumarlandið góða. Það verður skrítið að koma til ykkar ömmu, fá ekki afaknús og heyra þig segja „ertu komin elsku Bryndísin mín“ og lauma lófa mínum í þinn.
Melgerðið var alltaf mitt annað heimili og fannst mér hvergi betra að vera en hjá ykkur, hlýjan, kærleikurinn og ástin umvafði mig.
Ég var ekki sátt fimm ára stelpa þegar foreldrar mínir ákváðu að flytja með mig til Danmerkur enda fékk ég að ferðast ein yfir hafið til að koma í heimsókn til ykkar ömmu. Þú hafðir alltaf áhuga á öllu því sem við vorum að gera í lífinu, spurðir okkur spjörunum úr og sagðir okkur endalausar sögur af ykkur ömmu, af ykkar ferðalögum um allan heim.
Alltaf senduð þið okkur póstkort af þeim stað þar sem þið voruð að ferðast, oftar en ekki bárust póstkortin til okkar löngu eftir að þið komuð heim, en það skipti sko engu máli.
Þú varst svo stoltur af okkur öllum og þér fannst svo gaman að fylgjast með langafabarninu þínu Núma. Ég man eitt sinn þegar Númi var að keppa í fótbolta á móti þínu liði, Breiðabliki, og ég bauð ykkur ömmu að koma að horfa.
Tryggð þín við Breiðablik var svo mikil að þú gast ekki hugsað þér að halda með liðinu hans Núma og var dásamlegt að fylgjast með þér hvetja liðið þitt áfram. Afi, þetta voru strákar í 4. flokki að keppa! Þú varst samt stoltur af Núma að hafa unnið Breiðblik en bölvaðir því samt líka. Alltaf sá maður ykkur ömmu saman á öllum leikjum Breiðabliks, hvort sem það voru stelpurnar eða strákarnir, með teppi og heitt kakó í brúsa.
Þið amma voruð alltaf svo samstiga í öllu; stunda leikfimi, pútta, tippa á laugardögum og já fá ykkur sætabrauð með vinum.
Þið eruð og verðið alltaf fyrirmyndir mínar í lífinu, svo hamingjusöm, ljúf og skotin í hvort öðru. Ég vil vera eins og þið.
Mikið er ég þakklát fyrir að hafa fengið að vera afastelpan þín.
Sakna þín og elska alltaf, elsku afi.
Þín
Bryndís.
Afi Hreinn.
Þá er komið að leiðarlokum hjá afa mínum Hreini, sólinni og áttavitanum. Það er svo skrýtið þetta líf sem bara allt í einu byrjar og er allt í einu búið. Ég fæddist og hann var bara afi minn. Virkilega gott hlutskipti ef þú spyrð mig. Afi var alltaf með mér í liði, sem ég á seinni árum hef uppgötvað að er eitt það allra mikilvægasta; að einhver haldi með manni.
„Og allt í einu ertu þá komin inn í þennan heim, elsku sál og allt á undraverðan hátt, breytist eins og alheimurinn fái annan séns til að byrja upp á nýtt.“
(Hljómsveitin Eva)
Afi Hreinn átti sér margar hliðar. Mín allra uppáhalds var þegar hann notaði orðin sín, bæði í töluðu og skrifuðu máli, til að miðla visku sinni. Afi og ég skrifuðumst stundum á, sérstaklega þegar við vorum að upplifa eitthvað annað en hversdagsleikann. Allra besta heilræði sem ég hef fengið barst mér í slíkum samskiptum við afa þegar ég var í Suður-Ameríku árið 2012:
Við sem fæðumst sólarmegin í lífinu, höldum okkur sólarmegin, þótt snjói og rigni, þá gefur sólin samt næga orku til að brosa framan í heiminn og lifa lífinu lifandi. Þessi heilræði hef ég haft að leiðarljósi síðan þá.
Önnur uppáhalds var samband hans og ömmu, hvernig þau voru sem heild, perluvinir og alltaf saman í liði. Amma var afi og afi var amma. Best. Pant verða eins og þið.
„Hægð og ró og flókaskór, börnin okkar orðin stór en við hér þökkum fyrir allt sem er og svo hendum við í annan olsen.“
(Hljómsveitin Eva)
Þriðja uppáhalds var æðruleysi afa gagnvart veikindum sínum. Hann var sáttur við sitt hlutskipti í lífinu og tókst á við síðasta verkefnið sitt af reisn sem kenndi mér að ef þú ferð í gegnum lífið af heilindum með einlægni og áræði muntu ganga sáttur frá borði. Og kveðja með brosi.
„Sorg og tár og hönd og húð, sannleikur og sjúkrarúm og síðan kveðjustund og óskin um að við hittumst aftur hinum megin.“
(Hljómsveitin Eva)
Takk og takk og takk. Tak for nu og takk fyrir að halda með mér, alltaf. Ég lofa að halda mér sólarmegin.
„Jæja nú fer þetta alveg að klárast, ég sé líf mitt liðast fyrir augum mér, þetta var eitthvað, og heiður að hanga með þér, en nú er beðið eftr mér.“
(Hljómsveitin Eva)
Ást,
Diljá.