Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Starf og þjónusta þjóðkirkjunnar er hluti af mikilvægum innviðum samfélagsins,“ segir sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna í Hreppum og nýr prófastur í Suðurprófastsdæmi. „Í ýmsum erfiðum málum sem upp hafa komið á síðustu misserum er leitað til þjóna kirkjunnar um liðsinni og þykir sjálfsagt. Því er mikilvægt að stutt sé vel við starfið með áherslubreytingum svo hægt sé að styðja vel þau sem þurfa með sálgæslu og stuðningi. Þá er ónefnt almennt safnaðarstarf og ýmsar athafnir; starf hvers dags í kirkjum landsins.“
Sr. Óskar var um síðustu helgi af sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur biskupi settur í embætti prófasts. Í starfinu felst að hafa í umboði biskups tilsjón með kristnihaldi, það er á svæðinu frá Selvogi og austur á Hornafjörð. Þarna á milli er 51 sókn en kirkjurnar nokkru fleiri. Þúsundir eiga aðild að söfnuðunum.
Kjarni í samfélaginu
„Starf kirkjunnar úti á landi er víða mjög öflugt. Margir taka þátt í kórstarfi eða öðru sem tilheyrir kirkjunni, eru í nefndum, sjálfboðaliðastarfi og svo framvegis. Þetta er allt mjög dýrmætt og er á sumum stöðum algjör kjarni í samfélaginu. Og að sjá til þess að þetta allt gangi upp er meðal annars hlutverk prófasts. Í upphöfnum stíl er gjarnan sagt að hann sé augu og eyru biskups í héraði,“ segir sr. Óskar sem hefur verið prestur í Hruna í áratug. Áður þjónaði hann í Ólafsvík, á Akureyri og Selfossi.
Fjölmörg verkefni bíða hins nýja prófasts á Suðurlandi. Fram undan er til dæmis að setja nýja presta í embætti, sr. Kristján Arason sem þjóna mun á Breiðabólstað í Fljótshlíð og Jóhönnu Magnúsdóttur sem verður prestur í Vík í Mýrdal. Ýmsar aðrar hreyfingar hafa verið á mannskap í þjónustunni á akrinum.
Aðrar kröfur ungra presta
„Í talsverðum mæli hefur ungt fólk verið að taka við prestsþjónustu að undanförnu. Það hefur eðlilega aðrar kröfur um starfsumhverfi en þau sem eldri eru, til dæmis er varðar vinnutíma, aðstöðu og fleira slíkt. Þessu þarf kirkjan öll að bregðast við og prestar þurfa að geta fært sig milli þjónustusvæða og létt undir með starfssystkinum sínum. Kirkjan þarf alltaf að geta mætt fólki í aðstæðum sínum,“ segir sr. Óskar prófastur.