Jóhann Jónsson fæddist 1. júní 1952 á Siglufirði. Hann lést á HSN Siglufirði 10. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Jón Sveinsson Kristinsson gullsmiður á Siglufirði, f. 31. desember 1924, d. 5. apríl 1955, og Guðmunda Kristín Sigríður Júlíusdóttir verslunarmaður, f. 12. mars 1922, d. 7. september 1995. Systkini Jóhanns eru Júlíus, f. 3. febrúar 1951, og Jónína, f. 12. nóvember 1955. Sammæðra: Hafdís K. Ólafsson, f. 13. mars 1942, d. 17. ágúst 2008.
Jóhann lauk grunnskóla 1969 á Siglufirði, Iðnskóla Siglufjarðar 1971, 4. stigi í Vélskóla Íslands 1978, sveinsprófi í vélvirkjun á vélaverkstæði Þormóðs ramma hf. 1980 og smáskipaprófi á Siglufirði 1991. Hann var 1./yfirvélstjóri hjá Þormóði ramma hf. á Stálvík SI 1 1976-79 og hjá Siglfirðingi hf. á Siglfirðingi SI 150 1980-90. Hann rak eigin smábátaútgerð sem sumarstarf frá 1981 og sem aðalstarf frá 1990 og gerði hann út trilluna Jón Kristin SI 52.
Eiginkona: Kolbrún Ingibjörg Símonardóttir, f. 21. desember 1945 í Stórholti í Fljótum, Holtshreppi í Skagafirði, atvinnurekandi. Barn þeirra: Jóhann Ingi, f. 2. október 1987, eiginkona Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir. Dætur þeirra: Freyja Vök, f. 5. febrúar 2017, og Sólveig Birna, f. 23. janúar 2021.
Börn Kolbrúnar af fyrra hjónabandi: 1) Björn Stefán Ólafsson, f. 25. ágúst 1964, d. 25. desember 1978. 2) Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 18. febrúar 1966, eiginmaður Aðalsteinn Þorláksson, þeirra börn: Þorlákur Már, f. 6. maí 1999, sambýliskona Shyrine Breuer, Guðrún María, f. 19. október 2004. Barnsfaðir Valgeir Halldórsson, þeirra dætur: Kolbrún Erna, f. 3. febrúar 1986, sambýlismaður Kevin McCormack, þeirra sonur Tómas Ingi, Stefanía Kristín, f. 4. júlí 1992, sambýlismaður Elmar Snær Hilmarsson, þeirra dóttir Aníta Björg.
3) Hólmfríður Ólafsdóttir, f. 29. desember 1969, eiginmaður Guðmundur Elíasson. Fyrrverandi eiginmaður Árni Þór Þorbjörnsson, börn: Þorbjörn Óli, f. 2. desember 1992, sambýliskona Marta Maineri. Hákon Orri, f. 15. febrúar 1998, sambýliskona Ása María Ásgeirsdóttir. Sigrún Vala, f. 22. maí 1999. 4) Hrafnhildur Ólafsdóttir, f. 5. maí 1976, eiginmaður Jón Karl Halldórsson, fóstursonur Gabríel Engill Kristjánsson, f. 13. október 2007. 5) Ólafur Símon Ólafsson, f. 1. september 1980, eiginkona Guðrún Helga Kjartansdóttir. Barnsmóðir Íris Kristinsdóttir, börn: Emilía Þóra, f. 24. febrúar 2006. Ólafur Styrmir, f. 15. apríl 2008. Barnsmóðir Íris Anna Skúladóttir, dóttir Unnur Karen, f. 7. október 2012.
Barnsmóðir Jóhanns: Erla Ósk Lárusdóttir, f. 19. október 1949. Sonur þeirra: Hörður, f. 19. júlí 1976, eiginkona Gyða Guðjónsdóttir, dóttir Bjarney Ósk, f. 21. október 2004.
Útför Jóhanns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 23. nóvember 2024, klukkan 13.
Elsku pabbi.
Takk. Takk fyrir að móta mig að þeim manni sem ég er í dag. Þegar ég rifja upp uppeldisárin þá er nærvera þín stór hluti af þeim tíma. Þér tókst alltaf að vekja áhuga manns á hinu og þessu og nenntir að taka þátt í leik með mér og félögum mínum. Þá mætti nefna þegar þú kenndir okkur félögunum að byggja snjóhús eins og eskimóarnir, sem entist okkur félögunum í leik í margar vikur!
Þú gafst þér nefnilega alltaf tíma, tíma til að spjalla, bralla og pæla í hlutunum með manni. Þú gast þér tíma til uppeldisins, sem var ekki sjálfgefið hjá feðrum á þessum tíma.
Þú kenndir mér svo margt. Kartöfluræktin. Ég, þú mamma og Svavar frændi að stinga upp í gömlu kartöflugörðunum. Uppbyggingin á sumarbústaðnum, þar fékk maður að vera með að brasa og áttum við góðar stundir saman. Held að engir bústaðir hafi jafn mikið af nöglum í burðarvirkinu eins og okkar, enda átti þetta að þola norðanstorminn!
Sjórinn, ég gleymi því aldrei þegar ég fór með þér fyrst á sjó. Þá kynntist ég fyrst Jóa Jóns. Þetta var bara einhver kristöllun, báturinn, maðurinn og hafið. Þú lifðir fyrir sjómennskuna og ég komst að því eftir eitt sumar á bátnum með þér, eftir allan fiskinn, stórsjóinn og gubbið í mér, að sjómennskan var ekki fyrir mig.
Á milli snjóhúsabygginga, sjóferða, bústaðferða, kartöflugarðyrkju o.fl. gafstu þér líka tíma í að kenna mér og félögunum að tefla og nenntir líka að spila við okkur borðspil þegar það var svo vitlaust veður að ekki var í boði að henda liðinu út að leika. Þar fyrir utan voru ófáar ferðir á Hraunamölina til að ná bleikju úr sjó, eða þá í Brúnastaðaána og Fljótaána. Enda léstu ekki nægja veiðina á sjónum heldur varstu einnig öflugur í stangveiðinni. Það var ógleymanlegt að fá nýveidda bleikju með nýuppteknum kartöflum í bústaðnum sem við höfðum smíðað saman og þá hafði þessu öllu verið ekið eftir veginum að bústaðnum með mölinni sem hafði verið handmokuð í slóðann. Kannski man ég þetta svona vel því að þú sagðir sjálfur hversu frábært þetta var á sínum tíma!
Ég flyt að heiman eftir 10. bekk og fullyrði að án þinnar leiðsagnar væri ég ekki á þeim stað þar sem ég er í dag. Þú sýndir ávallt áhuga á því sem maður tók sér fyrir hendur og studdir mann alla leið. Útskriftarferðin sem ég, þú og mamma áttum saman úti var ógleymanleg og merki þess að þið sýnduð því áhuga sem maður tók að sér.
Eftir að stelpurnar komu í heiminn var svo gaman að sjá þig umgangast þær á sama máta og ég mundi eftir að þú hafðir gert við mig. Áhuginn, viljinn til að taka þátt í leik og tengjast stelpunum. Stelpurnar elskuðu að koma til ykkar og vera með ykkur og svo náðum við tveimur góðum ferðalögum saman fyrir norðan, á Norðausturland og til Hríseyjar. Þeim ferðum gleymi ég aldrei.
Ég gæti haldið lengi áfram að lofa þig pabbi minn en nú þarf ég að enda þetta.
Aftur, takk, eins og þú sagðir sjálfur fyrir svo stuttu, takk fyrir allt saman.
Jóhann Ingi Jóhannsson
Ég var 10 ára þegar við hittumst fyrst og þú leyfðir mér að kynnast þér á mínum hraða. Ég vissi að þú gætir ekki verið alslæmur enda bróðir Hafdísar og Jónínu, tveggja af uppáhaldsvinkonum mömmu. Þú talaðir líka alltaf svo vel um pabba og gast sagt okkur sögur frá því að þið voruð saman til sjós. Þú og mamma voruð samhent frá fyrsta degi og lífið var oft fjörugt á Fossveginum. Þú kenndir mér að tefla, spilaðir mikið við okkur Óla bróður og það var ekkert gefið eftir þó við værum krakkar, þú talaðir alltaf við okkur eins og við værum litlir fullorðnir einstaklingar.
Allar veiðiferðirnar, endalaus berjamór, kartöflurækt, fyrir utan sumarbústaðinn sem þið mamma byggðuð saman og öll verkin sem maður lærði að gera rétt og vel þar, það einkenndi uppeldið. Ég lærði að bíða ekki eftir að einhver annar gerði hlutina fyrir mig, ég lærði að rökræða, standa fast á rétti mínum en fyrst og fremst að tækla verkefnin með gleði og húmor. Ég var 20 ára þegar ég kom heim, búin að dvelja eitt ár í Bandaríkjunum, Ég fattaði við heimkomuna að ég liti á þig sem pabba minn, ekki bara vin minn. Ég var 30 ára og komin til Danmerkur í nám, mömmu langaði óskaplega mikið að fá þig með sér í heimsókn til mín en ábyrgðin á lífinu heima á Sigló var alltaf í fyrsta sæti. Ég notaði þín eigin rök úr uppeldinu og náði ásamt mömmu að frá þig til að koma allavega til Kaupmannahafnar. Það var gaman hjá okkur í þessari ferð, enda þú endalaust fróðleiksfús og áhugasamur og drakkst í þig allt eins og lítill krakki. Ég var 40 ára og komin með stærsta verkefni lífs míns í fangið, nýbúin ásamt Jóni mínum að taka lítinn prins í fóstur. Afi Jói náði strax í gegn enda skildi hann þennan hvatvísa, forvitna litla strák frá fyrsta degi. Þeir gátu talað endalaust um fiska, veiði, skordýr og bara allt. Það var heldur enginn annar sem nennti að velta steinum og leita að skordýrum eða skoða ofan í holræsi á Kanarí og finna krybburnar sem voru að gera þá vitlausa með hljóðunum í sér. Gabríel leit mikið upp til afa Jóa og fór að æfa badminton næstum í þeim eina tilgangi að verða nógu góður til að sigra hann. Því hjá afa var auðvitað ekkert gefið eftir í leik og ekkert hægt að stóla á að vinna af einhverri meðaumkun þó maður væri bara 10 ára.
Ég fer hratt að nálgast 50 árin og á síðustu árum hef ég fundið að þú treystir mér meir og meir fyrir allskonar fullorðinshlutum. Það var stór stund þegar þú að verða 70 ára baðst mig um að aðstoða þig við umsóknir um lífeyrisgreiðslur og að læra á netbanka-app. Mér fannst ég loksins hafa útskrifast úr uppeldisskólanum og mín viðurkenning væri að hjálpa þér að skilja og finna út úr þessum hlutum. Mér fannst bæði sárt og fallegt að þú kvaddir okkur á feðradaginn, þakklát fyrir að vera dóttir þessa pabba sem ég fékk að eiga í 38 ár, ég hélt í höndina þína á lokastundinni og fann að þú varst sáttur við lífið og tilbúinn að sigla inn í eilífðina. Takk, elsku Jói pabbi, fyrir allt.
Þín dóttir,
Hrafnhildur.