Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Í kosningum þar sem kjósendur velja á milli framboðslista er hverjum kjósanda heimilt að breyta röð frambjóðenda á þeim lista sem hann kýs, en hann má ekki hrófla við öðrum framboðslistum.
Frá þessu greinir í 85. grein kosningalaga, en þar er mælt fyrir um hvernig greiða skuli atkvæði við listakosningar.
Í 1. málsgrein laganna segir að kjósandi greiði atkvæði á þann hátt að hann marki með skriffæri sem kjörstjórn leggur til X í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.
Vilji kjósandi breyta nafnaröð á þeim lista er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
Vilji kjósandi hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
„Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð,“ segir í lagagreininni.
Þá ber kjósanda að gera engin merki á kjörseðilinn umfram það að skrifa X fyrir framan þann framboðslista sem hann kýs. Honum ber að brjóta kjörseðilinn saman og setja hann síðan í atkvæðakassann á kjörstaðnum, að fulltrúum kjörstjórnar viðstöddum. Á kjósandinn að gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.
Kosningalögin veita kjósanda rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Skal aðstoð veitt af þeim úr kjörstjórn sem kjósandi tilnefnir, eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað. Því aðeins skal veita aðstoð, að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Aðstoðarmanni kjósanda er skylt að fara að fyrirmælum hans og er bundinn þagnarskyldu um það sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum.
Þá er aðstoðarmanni kjósanda óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.