Borgarfjörður Gamla húsatorfan á Hvanneyri er að byrja að skrýðast hátíðarbúningi, enda aðeins rétt rúm vika þar til aðventan gengur í garð.
Borgarfjörður Gamla húsatorfan á Hvanneyri er að byrja að skrýðast hátíðarbúningi, enda aðeins rétt rúm vika þar til aðventan gengur í garð. — Ljósmynd/Ágúst Elí Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landbúnaðarsafn Íslands þjófstartaði sýningunni Saga laxveiða um liðna helgi með því að bjóða til sagnakvölds í safninu, nánar til getið í hlöðu Halldórsfjóss á Hvanneyri, en sýningin verður formlega opnuð á næsta ári

Úr bæjarlífinu

Birna G. Konráðsdóttir

Borgarfirði

Landbúnaðarsafn Íslands þjófstartaði sýningunni Saga laxveiða um liðna helgi með því að bjóða til sagnakvölds í safninu, nánar til getið í hlöðu Halldórsfjóss á Hvanneyri, en sýningin verður formlega opnuð á næsta ári. Sögumenn kvöldsins voru þeir Axel Freyr Eiríksson, Ferjukoti, Sveinbjörn Eyjólfsson, Hvannatúni og Jóhann Sigurðarson leikari. Allir áttu þessir kappar það sameiginlegt að hafa gaman af laxveiðum og stundað þær. Sögurnar voru eins margvíslegar og þær voru margar. Var gerður gríðarlega góður rómur að og sagnamennirnir fóru á kostum, áheyrendum til ómældrar ánægju.

Það er afar viðeigandi að sýning um sögu laxveiða verði opnuð í Borgarfjarðarhéraði þar sem um 25% af stangaveiddum löxum landsins koma á land. Þess utan nær veiðireynslan í héraðinu yfir vel á annað hundrað ár, þótt margt hafi breyst síðan bændur voru að veiða lax með því að hlaða upp fyrirstöðu í ánum og veiða hann með því móti.

Árleg jólagleði verður á Hvanneyri síðustu helgina í nóvember, í aðdraganda aðventu og jóla. Gamla Hvanneyrartorfan er þegar farin að sýna á sér hátíðarsvipinn og Hvanneyringar bjóða gesti hjartanlega velkomna til að njóta með þeim.

Gleðin hefst föstudagskvöldið 29. nóvember kl. 20 á margfrægu jólabingói Kvenfélagsins 19. júní þar sem vinningar verða veglegir að vanda. Daginn eftir verður blásið til fagnaðar við gömlu húsin á Hvanneyri, sem stendur frá klukkan 13-17, þar sem notaleg stemning verður fyrir alla fjölskylduna. Meðal annars verður opið hús hjá slökkviliði Borgarbyggðar, boðið upp á vörur beint frá býli, hægt verður að kaupa sér jólatré sem ræktuð eru í héraðinu og kaffisala verður á vegum kvenfélagsins. Ekki er ósennilegt að þessir rauðklæddu, sem oftast fara á kreik á þessum árstíma, kíki í heimsókn og kæti börn og fullorðna.

Í tengslum við dag íslenskrar tungu hefur skapast sú hefð að nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar fari og lesi fyrir eldri fyrir borgara í Brún í Bæjarsveit.

Skólinn rekur þrjár starfsstöðvar og það hafa verið nemendur í 7. bekk allra deilda sem lesa því þennan sama dag hefst vinna fyrir stóru upplestrarkeppnina í þeim árgangi. Núna eru ekki 7. bekkir á öllum starfsstöðvum svo nemendur úr elstu bekkjum þeirra fóru einnig og lásu. Þetta er alltaf mjög hátíðleg og skemmtileg samverustund og eldra fólkið fagnar börnunum innilega. Gaman hefur verið að fylgjast með því hve forvitin þau eru um hvaðan börnin koma og vilja vita hverjir foreldrar eða afi og amma eru.

Jafnframt hefur hefð verið fyrir því að Hvanneyrardeild skólans fari í leikskólann á Hvanneyri og Landbúnaðarháskóla Íslands og syngi fyrir börn og fullorðna, einnig í tengslum við dag íslenskra tungu. Þetta árið sungu þau Kærleikurinn og tíminn eftir KK.

Barnakór hefur verið stofnaður við Stafholtskirkju í Borgarfirði. Auglýst var eftir börnum á aldrinum 6-12 ára og mættu 19 börn á fyrstu æfinguna, en stefnt er að því að kórinn syngi við athöfn á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember.

Að sögn Steinunnar Þorvaldsdóttur, sem stýrir kórnum, er áhuginn mjög mikill og sönggleðin í samræmi við það. Hún telur að það sé góður grundvöllur fyrir kórastarfi í Stafholtssókn og víðar í héraðinu í öllum aldurshópum og vonar að unnt verði að halda þessu starfi við og þannig stuðla að jákvæðu söngstarfi áfram.

Guðrún Gunnarsdóttir söngkona syngur inn jólin með Freyjukórnum fyrir Borgfirðinga og aðra gesti fimmtudaginn 5. desember næstkomandi kl. 20 í Reykholtskirkju. Stjórnandi kórsins er Hólmfríður Friðjónsdóttir og Viðar Guðmundsson leikur með. Miðaverði er stillt í hóf og posi verður á staðnum en frítt fyrir 12 ára og yngri. Reykholtskirkja er mjög gott tónleikahús og dömurnar í kórnum vænta þess að sem flestir sjái sér fært að koma og njóta með þeim og hlýða á hina ljúfu jólatónlist sem flutt verður.

Reykdælir og íbúar á stór-Kleppjárnsreykjasvæði Borgarfjarðar hafa verið að berjast fyrir því að sundlaugin í hverfinu verði opin almenningi í vetur. Núna er komið leyfi til að hafa sundlaugina opna eitt kvöld í mánuði og var fyrsta opnunin föstudaginn 15. nóvember en opið verður frá kl. 18-21:30. Er vonandi að þeir sem saknað hafa þess mest að komast ekki í sund skelli sér nú í laugina svo þessi starfsemi haldist áfram.

Opnunin er ekki síst hugsað til þess að ungmenni á öllum aldri geti komið saman utan skólatíma. Ef áhugi reynist nægur gæti orðið rekstrargrundvöllur fyrir því að hafa sundlaugina opna fleiri kvöld.

Jólatónleikar Hljómlistarfélags Borgarfjarðar verða í Hjálmakletti í Borgarnesi sunnudaginn 8. desember nk. en þetta er í áttunda sinn sem þeir eru haldnir. Að þessu sinni verða tvennir tónleikar. Þeir fyrri hefjast kl. 17 og hinir síðari kl. 20. Sem fyrr leikur hljómsveit og syngur ásamt góðum gestum, en aðalgestur tónleikanna verður Stefán Hilmarsson sem meðal annars hefur sungið í hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns.

Listamaður Borgarbyggðar, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, verður einnig á meðal söngvara ásamt Þóru Sif Svansdóttur, Eiríki Jónssyni, Guðbrandi Erni Úlfarssyni, Núnu Atladóttur, Sveini Arnari Davíðssyni og barnakór. Hljómsveitina skipa Gunnar Reynir Þorsteinsson, Friðrik Sturluson, Pétur Valgarð Pétursson og Helgi Georgsson. Miðasala fer fram í Brúartorgi í Borgarnesi.

Höf.: Birna G. Konráðsdóttir