Ylrækt Mikil hækkun raforkuverðs blasir við garðyrkjubændum.
Ylrækt Mikil hækkun raforkuverðs blasir við garðyrkjubændum. — Morgunblaðið/Hari
Fyrirsjáanleg er 25% hækkun raforkuverðs um áramót til garðyrkjubænda mun leiða til 5 til 6% hækkunar á afurðaverði sem mun síðan skila sér út í verðlag. Samningi HS Orku til hóps garðyrkjubænda var sagt upp sl

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrirsjáanleg er 25% hækkun raforkuverðs um áramót til garðyrkjubænda mun leiða til 5 til 6% hækkunar á afurðaverði sem mun síðan skila sér út í verðlag. Samningi HS Orku til hóps garðyrkjubænda var sagt upp sl. sumar og rennur hann út um áramót. Fyrirliggjandi eru tilboð um nýja samninga og hið skásta þeirra hljóðar upp á fjórðungs hækkun raforku. Þetta segir Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að 11 fyrirtæki í garðyrkju noti um 80% þeirrar orku sem seld er fyrirtækjum í greininni, en þau voru með téðan samning við HS Orku.

„Orkusölum er heimilt að selja raforku hæstbjóðanda og það eru engir varnaglar í kerfinu sem segja að orkusölum beri að selja orku til almennings, umfram stóriðju eða orkufrekan iðnað,“ segir Axel.

Hann segir ásókn í orku gríðarmikla, ekki síst vegna orkuskipta og stór erlend fyrirtæki sýni Íslandi mikinn áhuga vegna þeirrar grænu orku sem hér er framleidd.

„Eftirspurnin leiðir til þess að orkuverðið er að rjúka upp,“ segir hann og nefnir að sú staða mála snerti allan almenning og fyrirtæki í landinu.

Um ástæðu uppsagnar HS Orku á sölusamningi við garðyrkjubændur segir hann þá að Landsvirkjun hafi sagt upp sölusamningi við HS Orku sem var í raun milliliður í viðskiptunum, þar sem öll orka færi á uppboðsmarkað og seld hæstbjóðanda.

„Frá því í júlí þegar uppboðsmarkaðurinn fór af stað hefur orðið yfir 20% hækkun á markaði. Það er enginn varnagli sem stoppar þessar hækkanir og engar virkjanir væntanlegar næstu árin. HS Orka bindur vonir við djúpborun hjá sér og gæti komið með einhverja orku inn á markaðinn á næstu tveimur árum. Búrfellslundur gæti komið inn á næstu þremur árum og Hvammsvirkjun mögulega á fjórum árum,“ segir Axel og nefnir að fyrirsjáanleg hækkun á orkuverði sé bara byrjunin.

„Það er engin ný raforka að koma inn á markaðinn. Vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar er í sögulegu lágmarki og fyrirtækið hefur skyldum að gegna við stóriðjuna þar sem í gildi eru langtíma sölusamningar við hana. Okkur sem erum á almenna markaðinum bjóðast bara samningar til eins árs og segja orkusalarnir að staðan verði gjörbreytt eftir eitt ár,“ segir hann og spáir því að þegar sá tími kemur muni raforkan hækka aftur í verði og jafnvel um önnur 25%.

Axel segir enga leið til þess að fyrirtæki í ylrækt geti hagrætt í sínum rekstri, þannig að hækkun orkuverðs leiti ekki út í verðlagið. Þau hafi hingað til gatað haldið aftur af sér í verðhækkunum, en nú sé það ekki gerlegt.