Hópurinn í góðu yfirlæti á Gíbraltar.
Hópurinn í góðu yfirlæti á Gíbraltar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Okkur leið aldrei eins og að við værum aðkomumenn; allir tóku okkur opnum örmum.

Það er ákveðinn skellur fyrir blaðamann þegar viðmælandinn opnar samtalið með eftirfarandi hætti: „Þessi ferð var svo stórkostleg að ekki er hægt að lýsa henni með orðum!“ Einmitt það. Hvað eigum við þá að gera, birta bara myndir? Sagt er að þær segi svo sem meira en þúsund orð. Ljósmyndararnir vinir mínir eru duglegir að minna mig á það.

En fyrst ég er á annað borð kominn á fund Arnbjörns Arasonar, sem alltaf er kallaður Addi, skulum við láta á þetta reyna og í ljós kemur að ekki þarf að draga orðin upp úr honum, frá ýmsu er að segja varðandi mótorhjólaferð sem hófst á Íslandi í september síðastliðnum og lauk á Spáni tæpum mánuði síðar, eftir viðkomu í sjö öðrum löndum. Hjólað var á sex hjólum en þátttakendur í það heila 11 og þetta var ekki aðeins til gamans gert, heldur safnaði hópurinn í leiðinni samtals 2,6 milljónum króna fyrir Reykjadal í Mosfellsbæ, sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni.

Við erum að tala um Widows Sons, sem eru alþjóðleg mótorhjólagóðgerðarsamtök frímúrarabræðra sem einbeita sér að fjáröflun fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu og þar eru börn í forgangi. Widows Sons-samtökin voru stofnuð í Illinois í Bandaríkjunum árið 1998 en hér á Íslandi árið 2021. Addi, sem er formaður Íslandssdeildarinnar, kveðst vera í góðu sambandi við félaga sína ytra og heyri svo gott sem daglega í formanninum í Bandaríkjunum sem kom hingað til lands þegar Íslandsdeildin var sett á laggirnar.

Vel tekið og auðvelt að hjóla

Addi segir tvennt hafa staðið upp úr eftir ferðina. Annars vegar hversu vel hópnum var alls staðar tekið og hins vegar hversu auðvelt var alls staðar að hjóla. „Vegirnir voru eins og borðstofuborð, sama hvar við vorum, á þjóðvegum eða fáfarnari vegum. Það er til eftirbreytni. Síðan var viðmót fólksins sem við hittum alls staðar frábært, það vildi allt fyrir okkur gera,“ segir hann.

Það er ekki sjálfgefið enda fyrirfinnst fólk sem er smeykt við mótorhjólamenn í fullum herklæðum. Tengir þá jafnvel við eitthvað misjafnt. Þá sjaldan það gerðist breyttist afstaðan um leið og Widows Sons gerðu grein fyrir erindi sínu og tilgangi ferðarinnar.

Addi nefnir sem dæmi hjón sem hópurinn rakst á fyrir utan hótel sitt í Frakklandi. „Ég sýndi þeim texta, með aðstoð Google translate, sem útskýrði hvað við værum að gera. Eftir það litu þau hvort á annað og karlinn dró upp 10 evra seðil. „Ég veit að þetta er ekki mikið, en vonandi hjálpar það til,“ sagði hann. Þetta viðmót var dæmigert fyrir fólkið sem við hittum á leiðinni,“ segir Addi. „Okkur leið aldrei eins og að við værum aðkomumenn; allir tóku okkur opnum örmum.“

Önnur saga er frá ítölsku veitingahúsi og hóteli í Þýskalandi, þar sem hópurinn fékk að gista eina nóttina. Að málsverði loknum vildi vertinn endilega leysa fólk út með staupi af þjóðardrykknum Grappa, sem gjarnan er gripið til á Ítalíu til að stemma magann af eftir málsverð. „Svo fór hann að spyrja okkur nánar út í ferðalagið og því lauk með því að hann fór afsíðis og kom til baka með forláta flösku af Grappa reserva og gaf okkur hana. „En þið megið ekki drekka hana sjálf, hún á að fara á uppboð,“ sagði hann. Við gegndum því að sjálfsögðu og fyrir hana fékkst fínt verð á uppboðinu, 50 þúsund krónur,“ segir Addi og bætir við að vertinn hafi verið með tárin í augunum. „Svo knúsuðumst við með virktum.“

Öll hjólin eru merkt frímúrarareglunni og Addi segir hópinn hafa hitt bræður hér og þar á leiðinni. Á einum stað gaf kona sig fram við þau og upplýsti að faðir sinn hefði verið frímúrari. „Það er yndislegt að sjá ykkur!“

Á Gíbraltar stukku síðan tveir menn út á veginn og gáfu hópnum merki um að nema staðar. „Þeir voru ekki bara frímúrarar, heldur var annar þeirra varaforseti Widows Sons á Gíbraltar. Það er mjög gaman að hitta þá.“

Viðbrögðin voru ekki síðri hér heima en hópurinn leyfði fólki að fylgjast vel með sér á samfélagsmiðlum meðan á ferðalaginu stóð. „Það var ótrúlega ánægjulegt og hvatti okkur til dáða,“ segir Addi.

Ætlaði að hjóla einn

Hugmyndina að ferðinni átti einn þeirra frímúrarabræðra, Reynir Kristjánsson. Hann býr hér heima en dvelst hluta ársins í húsi sem hann á á Spáni. Pælingin var að hjóla hurð í hurð, það er hefja ferðina við heimili hans á Íslandi en ljúka henni við húsið á Spáni. „Reynir ætlaði fyrst að gera þetta einn en konan hans, Helga Kristín Hauksdóttir, tók það ekki í mál og vildi sjálf koma með. Það varð svo til þess að þeim datt í hug að bjóða fleirum með sér og það mál var borið upp á súpufundi í Fenri, mótorhjólaklúbbi frímúrara. Reynir dró markið strax við sex hjól, það væri passlegur fjöldi upp á gistingu og annað.“

Til að gera langa sögu stutta þá fylltist um leið í ferðina. Konan hans Adda, Soffía Húnfjörð, skráði þau. „Ég var frammi að elda súpuna og missti af þessu en var bara tilkynnt: „Addi, þú ert að fara í rúmlega þriggja vikna hjólaferð um Evrópu í haust!“

Hann skellir upp úr.

Fyrir utan þau sem þegar hafa verið nefnd voru í ferðinni Árni Sörensen, Guðný Snorradóttir, Matthías Daði Sigurðsson, Ragnheiður Lilja Georgsdóttir, Karl Ove Lennarts Jansson, Auðunn Ásberg Gunnarsson og Sólbjörg Linda Reynisdóttir. Kristín Eva J. Sigurðardóttir kom til móts við hópinn undir lok ferðar.

Konurnar sátu aftan á hjólum karla sinna og skemmtu sér víst engu minna, að sögn Adda. „Í okkar kreðsum eru þær kallaðar hnakkaskraut og eftir fimmtugt þurrskreytingar,“ upplýsir hann sposkur.

– Á ég að skrifa það?

„Já, blessaður vertu. Þær kalla sig þetta sjálfar og hlæja að þessu. Þetta er bara létt grín. Annars þakka ég Guði fyrir að konurnar komu með; það var þvílík andleg upplyfting að hafa þær þarna, þær vöknuðu hlæjandi og sofnuðu hlæjandi.“

Kalla sig Hneturnar

Karlarnir í ferðinni hafa allir þekkst lengi, enda hjólað mikið saman og hist á vettvangi reglunnar, en konurnar ekki eins vel. „Þær smullu strax saman og það var eins og að þær hefðu þekkst alla tíð. Þær kalla sig Hneturnar.“

– Hneturnar?

„Já, en það er reyndar byggt á misskilningi. Einhver lagði til að þær yrðu kallaðar Hetjurnar en það misheyrðist og úr varð Hneturnar.“

Hann hlær.

Addi segir stemninguna í hópnum ekki hafa verið neinu líka, sem stafaði ekki síst af meðbyrnum sem ferðalangarnir fengu, hér heima sem ytra. „Kommentin sem komu inn voru mörg hver þeirrar gerðar að maður fékk tár í augun.“

Menn fóru sér að engu óðslega í ferðinni og alls staðar var numið staðar, þar sem eitthvað merkilegt eða fallegt var að sjá. Ekki þurfti að stressa sig á náttstað enda var bara fyrsta hótelið bókað fyrirfram, eftir það sættu menn lagi. „Það gekk allt upp,“ segir Addi en gist var á 22 mismunandi hótelum í ferðinni og 132 herbergi leigð í það heila.

Hjólað var gegnum Danmörku, Þýskaland, Holland, Belgíu, Frakkland, Portúgal og Gíbraltar, áður en endað var á Spáni. Spurður um landfræðilega hápunkta á leiðinni andvarpar Addi. „Úff, það er engin leið að gera upp á milli þessara landa og staða sem við komum á. Þau eru hvert öðru fegurri, þessi lönd. Ég tala nú ekki um þegar maður er á hjóli; ég hefði ekki nennt að fara þetta á bíl. Maður tekur allt miklu betur inn á hjóli, náttúruna, landslagið og þar fram eftir götunum. Maður finnur lyktina. Með góðri samvisku má segja að hver einasta leið hafi verið: Vá!“

Ferðalagið gekk svo að segja áfallalaust fyrir sig. Þó kláraðist bremsuvökvi á hjólinu hans Adda, auk þess sem dekkin brunnu upp. Það gerðist í Portúgal og útlit var fyrir að hópurinn myndi tefjast um nokkra daga fyrir vikið. Hjólbarðaverslunin sem Addi kom í kvaðst ekki eiga téða stærð af dekkjum og hann yrði að bíða eftir þeim í einhverja daga. Eftir að hafa klórað sér aðeins í höfðinu datt Adda í hug að segja mönnum frá því hver tilgangurinn með ferðinni væri og aftur kom Google translate í góðar þarfir. Og viti menn, þá breyttist viðhorfið og menn „fundu“ skyndilega sýningardekk sem smellpösuðu undir hjólið – og hópurinn gat spólað af stað.

Fyrir áhugafólk um tölur þá voru alls hjólaðir 6.300 km á hjólunum sex í ferðinni sem gera samtals 37.800 km. Hver og einn sat á hjólinu í um það bil 157 klukkustundir og hálfri betur. Hvað haldið þið að hafa farið af bensíni? Jú, 2.160 lítrar.

Afhendingin var demanturinn

Addi ber lof á Reyni fyrir að hafa lagt mikla vinnu í að plana ferðina, leiðin hafi verið hreint dásamleg og þau komið á marga staðið sem þau höfðu aldrei komið á áður. Á sumum stöðum tóku Íslendingar á móti þeim, klappandi og með bros á vör.

Hann segir ekkert sem hann hefur upplifað um dagana slá þessu ævintýri við. „Þetta var algjör dásemd og án efa besta ferð sem ég hef farið í.“

Ein tilfinning toppaði þó ferðalagið. „Það var laugardagurinn sem við afhentum Reykjadal styrkinn. Það var eiginlega demanturinn í þessu öllu. Þakklætið var svo mikið.“

Í ljós kemur að hjólin urðu eftir í geymslu á Spáni enda hyggur sami hópur á aðra ferð strax í vor og þá er hugmyndin að fara austurleiðina. „Það verður aðeins styttri ferð, líklega tvær vikur,“ segir Addi, „og við erum strax farin að hlakka til.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson