Sigur Daði Jónsson fagnar öðru af tveimur mörkum sínum í sigri KA á Fjölni í gærkvöldi. Með sigrinum fór KA upp fyrir Fjölni.
Sigur Daði Jónsson fagnar öðru af tveimur mörkum sínum í sigri KA á Fjölni í gærkvöldi. Með sigrinum fór KA upp fyrir Fjölni. — Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Toppliðin héldu sínu striki þegar 11. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik lauk með fimm leikjum í gærkvöldi. Íslandsmeistarar FH heimsóttu nýliða ÍR í Skógarselið í Breiðholti og unnu risasigur, 41:24

Handboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Toppliðin héldu sínu striki þegar 11. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik lauk með fimm leikjum í gærkvöldi.

Íslandsmeistarar FH heimsóttu nýliða ÍR í Skógarselið í Breiðholti og unnu risasigur, 41:24. Þar með heldur FH toppsætinu en liðið er með 17 stig líkt og Afturelding sæti neðar. ÍR er áfram á botninum með fimm stig.

Birgir Már Birgisson var markahæstur í leiknum með sjö mörk fyrir FH. Jóhannes Berg Andrason bætti við sex mörkum og átta stoðsendingum. Leonharð Þorgeir Harðarson, Garðar Ingi Sindrason og Jón Bjarni Ólafsson skoruðu þá allir fimm mörk.

Daníel Freyr Andrésson fór mikinn í marki FH-inga og varði 16 skot, sem þýddi 42 prósent markvörslu.

Hjá ÍR var Jökull Blöndal Björnsson markahæstur með fimm mörk. Bernard Kristján Darkoh og Egill Skorri Vigfússon bættu við fjórum mörkum hvor. Ólafur Rafn Gíslason varði þá 13 skot í markinu.

Afturelding heldur sínu striki

Afturelding fékk Gróttu í heimsókn að Varmá í Mosfellsbæ og hafði betur, 32:28. Afturelding er því enn í öðru sæti en Grótta er í áttunda sæti með níu stig.

Blær Hinriksson var markahæstur í leiknum með níu mörk fyrir Aftureldingu. Gaf hann auk þess fjórar stoðsendingar. Einar Baldvin Baldvinsson varði þá 11 skot í markinu.

Gunnar Hrafn Pálsson skoraði sjö mörk fyrir Gróttu og Hannes Pétur Hauksson varði 12 skot í markinu. Var Hannes Pétur með 37,5 prósent markvörslu.

Sterkur sigur Vals á Haukum

Valur gerði afskaplega góða ferð í Hafnarfjörðinn og lagði Hauka að velli, 33:29. Valur fór með sigrinum upp í þriðja sæti og er þar skammt frá efstu tveimur liðunum með 16 stig. Haukar eru í fimmta sæti með 12 stig.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Agnar Smári Jónsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Val og Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í markinu, þar af eitt víti.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Birkir Snær Steinsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Hauka og voru markahæstir í leiknum.

HK upp úr fallsæti

HK vann þá stórsigur á ÍBV, 32:24, í Kórnum. Sigurinn var afar dýrmætur fyrir HK enda fór liðið upp úr fallsæti. Er HK nú í tíunda sæti með sjö stig. ÍBV siglir lygnan sjó í sjötta sæti með 11 stig.

Ágúst Guðmundsson og Andri Þór Helgason voru markahæstir hjá HK með sjö mörk hvor.

Jovan Kukobat varði 13 skot í marki HK-inga og var með 37 prósent markvörslu.

Markahæstir hjá ÍBV voru Andri Erlingsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson með sex mörk hvor.

KA vann fallbaráttuslag

KA hafði loks betur gegn nýliðum Fjölnis í fallbaráttuslag á Akureyri. Með sigrinum fór KA upp fyrir Fjölni og er nú með sjö stig í níunda sæti. Fjölnir er sæti neðar með sex stig.

Ott Varik var markahæstur hjá KA með sjö mörk. Einar Rafn Eiðsson bætti við sex mörkum. Nicolai Horntvedt fór á kostum í marki KA og varði 20 skot. Var hann með tæplega 49 prósent markvörslu.

Björgvin Páll Rúnarsson var markahæstur hjá Fjölni, einnig með sjö mörk. Sigurður Ingiberg Ólafsson lék afar vel í markinu, varði 15 skot og var með 37,5 prósent markvörslu.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson