Hafdís Gunnarsdóttir fæddist á Hólmavík 15. janúar 1965. Hún lést 12. nóvember 2024 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Hafdís ólst upp á Broddadalsá í Kollafirði á Ströndum.
Foreldrar hennar voru Gunnar Daníel Sæmundsson, f. 18. september 1929, d. 15. desember 2017, og Kristjana Jóna Brynjólfsdóttir f. 3. maí 1930, d. 1. september 2018, bændur á Broddadalsá.
Systkini Hafdísar eru: Brynja f. 15. janúar 1953, Sæmundur f. 11. janúar 1961, Þráinn f. 12. janúar 1964, d. 7. mars 1964, og Brynjólfur f. 27. september 1966.
Hafdís giftist í júní 1990 Magnúsi Helga Sigurðssyni, f. 27. október 1956. Þau stunduðu búskap á Felli í Kollafirði til ársins 2003. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Þór vélahönnuður, f. 29. janúar 1987, maki hans er Sigrún Edda Halldórsdóttir kennari, f. 8. desember 1985. Barn Sigurðar og Sigrúnar er Kári Halldór, f. 30. mars 2016. 2) Agnes Rut þjónn, f. 13. nóvember 1988, maki hennar er Rúnar Sæmundsson sjómaður, f. 14. maí 1979. 3) Guðbjörg Júlía lífeindafræðingur, f. 4. apríl 1994, maki hennar er Sindri Snær Grétarsson tölvunarfræðingur, f. 8. apríl 1994.
Seinni maður Hafdísar var Hjörtur Númason vélstjóri, f. 3. júní 1958. Hafdís bjó með Hirti á Hólmavík til æviloka. Í barnaskóla gekk Hafdís í farskóla og Broddanesskóla í Kollafirði, þaðan fór hún í Hólabrekkuskóla í Reykjavík og síðar Menntaskólann á Laugarvatni. Sem ung kona vann Hafdís við hefðbundin búskaparstörf á sínu æskuheimili og í sláturhúsinu á Óspakseyri í Bitrufirði á Ströndum. Hafdís vann einn vetur á saumastofunni Gefjun í Reykjavík.
Á fullorðinsárum vann Hafdís í sláturhúsinu á Hólmavík ásamt því að sinna húsmóður- og búskaparstörfum á Felli. Eftir að hún flutti til Hólmavíkur vann hún sem gæðastjóri í rækjuvinnslu Hólmadrangs og undir lokin við H&H þjónustu, fyrirtæki sem þau Hjörtur stofnuðu.
Útför Hafdísar fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 23. nóvember 2024, klukkan 14.
Elsku systir er fallin frá eftir hetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm krabbamein.
Hafdís er næstyngst af okkur fjórum systkinum, við ólumst upp á Broddadalsá þar sem við áttum yndislega æsku. Í sveitinni var alltaf hægt að hafa nóg fyrir stafni, hvort sem það var við leik eða störf.
Við gerðum bú, lékum okkur í fjörunni og klettunum og á veturna renndum við okkur niður bæjarhólinn.
Það var okkar fasta sumarverkefni þegar við höfðum aldur til að setja út kýrnar á morgnana og reka í haga út með fjörunni og sækja þær að kvöldi.
Hafdís gekk í öll verk í sveitinni, hvort sem það var að sinna búfénaði, vinna á vélum eða annað.
Sveitabúskapur var henni í blóð borinn enda gerðist hún bóndi á Felli ásamt eiginmanni sínum Magnúsi Sigurðssyni árið 1983.
Þau byggðu upp öflugt bú og eignuðust þrjú börn en leiðir þeirra skildi 2003 og Hafdís flutti til Hólmavíkur ásamt börnunum. Fljótlega hóf hún sambúð með Hirti Númasyni að Brunngötu 1.
Hafdís og Hjörtur voru afar samrýmd, unnu á sama vinnustað og áttu sér einstakt athvarf í Selárdal þar sem þau dvöldu nánast í öllum frístundum og alltaf eitthvað að framkvæma saman.
Hún vildi efla sitt samfélag og stóð meðal annars fyrir því að komið var upp ærslabelg á leiksvæðinu og frisbígolfvelli ásamt fleiru.
Hafdís vílaði ekkert fyrir sér í framkvæmdum. Hún smíðaði glugga í sitt hús og fyrir tengdamóður sína og flísalagði baðherbergi.
Þegar ég, húsasmiðurinn, fór í að stækka húsið okkar spurði Hafdís mig hvort ég ætlaði ekki að smíða gluggana og hurðirnar sjálfur.
„Nei, ég fæ Gluggagerðina til að smíða,“ svaraði ég. „Ég hef nóg annað að gera.“ Það kom svipur á mína systur.
Fyrir átta árum fáum við fréttir sem ekki eru góðar. Hafdís greinist með krabbamein. Við tóku lyfjameðferðir. Hún keyrði suður til Reykjavíkur við allar aðstæður, í meðferð sem tók verulega á en gaf henni eðlilegt líf inn á milli, en alltaf blossaði krabbinn upp aftur.
Eftirminnilegt er það sem Hafdís skrifaði á Facebook um þessar ferðir þar sem hún lýsti svo vel gróðri, landslagi, veðri og öðru sem fyrir augu bar.
Hafdís bar sín veikindi í hljóði og vildi ekki mikið ræða þessi mál út á við.
Við Hafdís áttum reyndar mörg samtöl, við deildum reynslu okkar af aukaverkunum af lyfjameðferðum.
Við systkinin og afkomendur áttum yndislega helgi á Hólmavík í sumar sem Hafdís skipulagði og stóð fyrir. Veðurguðirnir voru svo sannarlega með okkur þá helgi. Við heimsóttum æskustöðvarnar, grilluðum góðan mat og nutum þessarar samverustundar. Það varð ljóst í vor að lyfjameðferð gagnaði ekki lengur. Veikindin fóru að hafa veruleg áhrif og útlitið var ekki bjart. Að fá svona dóm hlýtur að hafa verið mikið áfall eftir alla þessa baráttu. Það var verulega átakanlegt að horfa upp á svona hrausta og öfluga konu hraka svona sem endaði með því að hún lést aðfaranótt 12. þessa mánaðar.
Elsku Hjörtur, Siggi, Agnes, Guðbjörg og fjölskyldur, ég votta ykkur innilega samúð. Ykkar missir er mikill.
Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.
Sæmundur Gunnarsson.
Hafdís okkar var einstök baráttukona. Hún hafði svo mikla útgeislun og hreif alla með sér. Alveg sama hvað hún var að bardúsa, prjóna, sauma, elda ljúffengan mat eða rækta falleg blóm og tré í hlýlega gróðurhúsinu sínu, sem Hjörtur hennar smíðaði handa henni. Allt fórst það henni jafnvel úr hendi. Hún smíðaði glugga og málaði heilu húsin eins og fagmaður. Það var svo gaman að fylgjast með þeim Hirti og Hafdísi, alltaf saman og svo skotin hvort í öðru. Í Selárdalnum voru þau alltaf eitthvað að brasa. Dytta að húsum og gera fallegt í kringum sig. Einhverju sinni komum við í heimsókn í dalinn. Þá voru þau búin að slá grasið í kringum Gilsstaðabæinn. Hún í svörtum hvítbotna gúmmískóm, búin að gyrða ullarsokkana utan yfir buxurnar, með sláttuorf að vopni og grasgræn upp að hnjám. Svo sæl og hamingjusöm, enda vön bústörfum frá fyrri tíð. Hún elsku Hafdís var okkur systkinum Hjartar bróður ávallt mikil stoð og stytta. Núna í september sl. komum við öll saman á Hólmavík í afmæli Óla bróður. Það var mikil gæfa að ná að hittast og gleðjast saman. Það var að sjálfsögðu Hafdís okkar sem kom þessum hittingi af stað, þegar hún fór að segja mér frá skemmtilega ættarmótinu hjá hennar fólki í sumar. Svona var allt í kringum Hafdísi, kraftur, seigla og réttsýni. Við eigum eftir að hittast aftur í sumarlandinu í fallega og kraftmikla dalnum okkar. Hvíl í friði, elsku besta Hafdís mín.
Jónína Númadóttir.
Elsku Hafdís okkar. Annað eins hörkutól og þig verður erfitt að finna. Hvernig þú tókst á við erfið veikindi af æðruleysi og dugnaði er aðdáunarvert. Þú varst dugleg, vandvirk og sinntir bæði vinnu og áhugamálum þínum af krafti og samviskusemi. Hlýjan sem þú barst með þér og einlægi áhuginn sem þú sýndir því sem maður var að brasa er okkur minnisstæður. Þú varst ráðagóð ef eitthvað bjátaði á og sást alltaf frekar lausnir en vandamál. Við verðum ævinlega þakklátar fyrir tímann sem við unnum saman í rækjuvinnslu Hólmadrangs en þar kenndir þú flestu ungu fólki á Hólmavík að taka sín fyrstu skref í vinnu. Það er ótrúlegt hvað þú tókst prakkarastrikum ungmennanna með miklu jafnaðargeði, kenndir okkur ósérhlífni, dugnað og þolinmæði. Ég (Björk) man svo vel eftir öllum stundunum okkar í vinnunni, þegar við stilltum útvörpin okkar saman og hlustuðum á gömul íslensk lög og sungum. Margar af mínum skemmtilegustu minningum eru frá þessum tíma enda gátum við alltaf grínast og hlegið, sérstaklega þegar eitthvað fór úrskeiðis.
Á göngutúrum um Hólmavík var alltaf gaman að stoppa í litla húsinu ykkar Hjartar á Hafnarbraut og sjá hvað þið voruð að gera það fínt og snyrtilegt en það einkenndi þig að þú vildir hafa bæinn snyrtilegan og lagðir svo sannarlega þitt af mörkum til þess. Þú varst líka svo flink í höndunum og munum við passa vel upp á fallegu gallana sem þú prjónaðir fyrir tvíburana þegar þau voru nýfædd en gallarnir eru algjört listaverk og þykir okkur svo ótrúlega vænt um þá.
Barátta þín við krabbameinið stóð í mörg ár en alltaf hélstu áfram að vinna eins og heilsan leyfði. Þú sagðir einu sinni að þér þætti betra að vera innan um fólk og gera gagn til að dreifa huganum en nú er störukeppninni lokið, eins og þú orðaðir það.
Við sem eftir sitjum sjáum eftir heilsteyptri og réttsýnni konu sem vildi öllum, og sér í lagi samfélaginu sínu, allt það besta.
Elsku Hjörtur og fjölskyldur ykkar beggja, megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Það er sárt að sakna.
Við viljum kveðja þig, elsku Hafdís okkar, með þessum orðum:
Ef dimmir í lífi mínu um hríð
eru bros þín og hlýja svo blíð.
Og hvert sem þú ferð
og hvar sem ég verð
þarf fólk eins og þig
fyrir fólk eins og mig.
(Rúnar Júl.)
Bryndís og Björk.
Elsku hjartans vinkona.
Nú er komið að kveðjustund. Allt of snemma.
Við höfum verið vinkonur síðan við vorum litlar stelpur í barnaskóla. Margar eru minningarnar og allar skemmtilegar. Prakkarastrikin í Broddanesskóla þar sem okkur fannst allt skemmtilegra en að sitja og læra. Við hefðum nú seint fengið verðlaun fyrir góða hegðun. Sláturhúsvinnan á Eyri á haustin þar sem matar- og kaffitímar voru notaðir til að undirbúa einhvern hrekk. Að ógleymdum öllum ferðunum á sveitaböllin á sumrin og fannst okkur nú ekki mikið mál að fara yfir tvö eða þrjú sýslumörk til að komast á ball, svo mikil var skemmtanagleðin.
Við bjuggum í sitthvorum landshlutanum. Hittumst því ekki eins oft og við hefðum viljað en þá var bara spjallað í síma. Gátum alltaf spjallað um allt milli himins og jarðar. Um börnin okkar, framtíðarplön og margt fleira. Þú hafðir skoðanir á málefnum líðandi stundar og vildir lifa í sátt og samlyndi við alla. Hafðir mikla samkennd og tókst málstað þeirra sem hallaði á. Sást alltaf það góða í öllum. Við vorum ekki alltaf sammála og höfðum ólíka sýn á hlutina. En það hafði ekki áhrif á vináttuna.
Þú varst með einstaka nærveru, smitandi hlátur, mikla útgeislun og komst hlutum í verk. Það var ekki margt sem óx þér í augum. Þótti gaman að vinna og varst alltaf eitthvað að brasa. Þið Hjörtur voruð svo góð saman. Svo samstíga í öllu sem þið voruð að gera, svo ástfangin og heppin að hafa hitt hvort annað.
En því miður hafðir þú ekki betur í baráttunni við þennan erfiða sjúkdóm. Á ég erfitt með að sætta mig við að geta ekki hitt þig eða hringt og spjallað. Þetta skarð verður erfitt að fylla.
Takk fyrir allt, elsku vinkona.
Hjörtur, Siggi, Agnes, Guðbjörg, Kári, systkini og fjölskyldur.
Mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Þín vinkona
Elsa Hrönn.