Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Bæði þingmenn úr flokki repúblikana og demókrata lýstu ánægju sinni með það að Bandaríkjaforseti hefði heimilað Úkraínumönnum að nota langdrægar eldflaugar á hernaðarleg skotmörk í Rússlandi. Það hefði átt að leyfa það fyrr, að þeirra sögn, og enginn þingmaður gagnrýndi ákvörðunina,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið, en hann sat fund með þingnefnd á Bandaríkjaþingi fyrr í vikunni þar sem fjallað var um málefni Úkraínu.
„Mér var boðið að sitja fund Helsinki Commission vegna formennsku minnar í öryggis- og stjórnmálanefnd ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Helsinki-nefndin á Bandaríkjaþingi er skipuð 18 þingmönnum, bæði úr öldungadeildinni og fulltrúadeildinni. Framkvæmdavaldið á síðan þrjú sæti í nefndinni. Nefndin var sett á laggirnar árið 1976 til að fylgja því eftir að stofnskrá ÖSE, sem samþykkt var í Helsinki í Finnlandi árið 1975, væri framfylgt,“ segir Birgir.
Hann segir að tilefni fundarins hafi verið að þann 19. nóvember sl. voru þúsund dagar liðnir frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Hann segir að utanríkisráðherra Úkraínu hafi komið fyrir nefndina og Volodimír Selenskí forseti ávarpað fundinn í gegnum fjarfundabúnað.
„Utanríkisráðherrann sagði að Rússar hefðu engan áhuga á friði. Úkraína myndi aldrei láta land af hendi í samningum. Pútín væri ekki treystandi,“ segir Birgir og tekur fram að báðir hafi þeir þakkað Bandaríkjunum fyrir ómetanlegan stuðning.
„Bandarísku þingmennirnir voru ómyrkir í máli í garð Rússa. Joe Wilson formaður nefndarinnar sem jafnframt er formaður bandarísku sendinefndarinnar hjá ÖSE, og Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, sögðu Pútín stríðsglæpamann sem sækja ætti til saka. Stuðningsríki Rússa í stríðinu væru öxulveldi hins illa. Auk þess kom það fram á fundinum að ef Úkraína myndi falla myndu fleiri ríki fylgja í kjölfarið. Það mætti aldrei gerast,“ segir Birgir og bendir á að Joe Wilson sé í Repúblikanaflokknum en Nancy Pelosi sé demókrati.
„Selenskí endaði ávarp sitt á því að segja að glottið á Pútín yrði að hverfa að eilífu. Úkraína myndi aldrei gefast upp,“ segir Birgir.