Ari Tryggvason
Ari Tryggvason
Aðvaranir hunsaðar, Hannibal-tilskipunin virkjuð? Nokkrum árum áður voru vopnlausir mótmælendur örkumlaðir. Er eitthvert lokamarkmið með hernaðinum?

Ari Tryggvason

Þann 8. október var Morgunblaðið með fréttaskýringu í tilefni þess að ár var þá liðið frá 7. október. Hér ætla ég að fjalla um hlið þessa máls sem ég hef ekki séð í íslenskum fjölmiðlum. Titill greinarinnar er sá sami og bók norsku læknanna Mads Gilberts og Eriks Fosse. Sá fyrrnefndi hefur komið nokkrum sinnum til landsins til fyrirlestrahalds.

Þessi augu eru hins vegar utan Gasa, eftirlitsaugu kvenhermanna Ísraelsmegin sem einblína á skjái tengda eftirlitsmyndavélum. Þær eru taldar hafa betri athyglisgáfu en karlarnir.

Um miðjan júlí birtist grein eftir mig hér í blaðinu, „7. október og Ísrael“, þar sem ég fjallaði lítillega um hið öfluga eftirlit Ísraelsmegin landamæranna, bæði mannlegt og snjallvætt.

Engin viðbrögð

Einhverjar þessara kvenna sáu tortryggilegar mannaferðir Gasamegin, þegar nokkrum mánuðum fyrir innrásina. Ekkert mark var tekið á aðvörunum þeirra. Þær voru búnar talstöðvum og símum svo þær gætu tilkynnt strax um eitthvað grunsamlegt. Talsmaður hers Ísraels (IDF) sagði Hamas ekki búa yfir þeirri getu sem ógnað gæti Ísrael. Daginn fyrir árásina eða föstudaginn 6. október var allt með kyrrum kjörum, sem kvenhermönnunum þótti grunsamlegt, engin viðbrögð.

Þessir eftirlitshermenn voru vopnlausir þar sem þeir eru ekki bardagahermenn. Mönnunin var tæp þennan laugardag. Um kl. 06.30 fóru loftvarnarflautur í gang. Að minnsta kosti níu eftirlitsherstöðvar urðu fyrir árásum. Fimmtíu hermenn ásamt fimmtán eftirlitshermönnum voru drepnir. Auk þess voru sjö teknir í gíslingu yfir til Gasa.

Um þetta hefur Anat Peled, fréttamaður hjá The Wall Street Journal, fjallað. Auk þess er hægt að nálgast viðtal við hana hvað þetta varðar á YouTube og pbs.org. Í einni fréttaskýringunni sem ég vísaði til hér í upphafi segir m.a.: „Ísrael brást þegar við hryðjuverkinu og réðst gegn Hamas.“ Þetta er ekki alls kostar rétt því minnst sex klukkustundir liðu þar til her Ísraels brást við. Stór hluti hersins hafði verið fluttur af svæðinu norður. Þegar Ísraelsher mætti á staðinn var engu eirt. Verksummerki benda til þess að eyðileggingin hafi verið umfram getu hermanna Hamas.

Hannibal-tilskipunin

Nokkur dagblöð í Ísrael ásamt Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafa bent á að í kjölfar árásanna hafi IDF fyrirskipað að hin svokallaða

Hannibal-tilskipun yrði virkjuð. Í henni felst að koma eigi í veg fyrir, með öllum tiltækum ráðum, brottnám hermanna og borgara Ísraels. Þann 15. desember, rúmum tveimur mánuðum eftir innrásina, voru þrír gíslar Hamas skotnir af Ísraelsher. Bæði Vísir og Morgunblaðið sögðu frá þessu daginn eftir en mikil mótmæli brutust út í Ísrael í kjölfarið. Gíslar Hamas veifuðu hvítum fána. Talsmenn IDF sögðu að um mistök hefði verið að ræða. Var mögulega Hannibal-tilskipuninni um að kenna?

Furðu vekur „tómlætið“ gagnvart aðvörunum kvennanna við eftirlitsskjáina. Sérstaklega sláandi er samanburðurinn við viðbrögðin gagnvart mótmælunum „Endurkomugöngunni miklu“ (The Great March of Return) á Gasa. Á níu mánuðum frá því hún hófst, 30. mars 2018, höfðu yfir 80% hinna 6.106 særðu mótmælenda verið skotin í fótleggi, t.d. hné og ökkla, fyrir utan þá sem voru drepnir. Þetta var niðurstaða rannsókna SÞ. Ásetningurinn var að örkumla mótmælendur, setja heila kynslóð á hækjur.

Að horfa fram hjá heræfingum innan Gasa, láta sér þær í léttu rúmi liggja en skjóta hins vegar á vopnlausa mótmælendur handan girðingar nokkrum árum áður og örkumla þúsundir; 7. október átti að gerast. Efrat Fenigson, fyrrverandi leyniþjónustumaður hjá IDF, er á þeirri skoðun. Hún telur útilokað að Ísrael hafi ekki vitað hvað í vændum var.

Amalek og „að fullu“ þrisvar sinnum

Við vitum ekki hvert markmiðið er með þessum hræðilega hernaði gegn Palestínu og reyndar Líbanon líka. Sumir segja að Ísrael hafi ekkert markmið. Nýlega rak Netanjahú varnarmálaráðherrann Yoav Gallant sem gagnrýndi m.a. „markmiðin“. Gallant virðist hafa verið nægilega herskár, miðað við orðaval hans gagnvart íbúum Gasa sem reyndar Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur vísað í. Meðal hörðustu síonista er draumur um eitthvað sem kallast getur Stór-Ísrael. Netanjahú hampaði landakorti, „hin nýju Mið-Austurlönd“, á allsherjarþingi SÞ hinn 22. september, um tveimur vikum fyrir innrásina frá Gasa. Engin Palestína er á því korti. Nokkrum vikum eftir innrásina vísaði forsætisráðherrann í Amalek. Í fyrri Samúelsbók 15. kafla segir: „Nú skaltu fara og sigra Amalek. Helgaðu þá banni og allt sem þeim tilheyrir. Hlífðu engum. Dreptu karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, kameldýr og asna.“

Bandaríkin gætu stöðvað þessar hörmungar, þau gera það ekki. Til marks um það er rétt að vitna í fréttir sjónvarps 2. október. Þar segir Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, að þau, Bandaríkin, styðji Ísrael „að fullu“ og endurtekur tvisvar.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Ari Tryggvason