Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.s
Nokkurt hökt hefur að undanförnu verið í framleiðslu bænda á eggjum, sem í síðustu viku voru uppseld í nokkrum af verslunum Bónuss. Slíkt þótti ótækt svo skömmu fyrir jól þegar bakstur er á mörgum heimilum svo að úr verða gæðastundir fjölskyldna.
„Við sáum að staðan var ekki nógu góð. Þrjár búðir hjá okkur áttu ekki egg og jólabaksturinn var í hættu. Við gripum því til okkar ráða,“ sagði Björgvin Víkingsson framkvæmdastjóri Bónuss. „Við hringdum á nokkra staði til að fá líflínu svo að þetta kæmi ekki fyrir aftur og náðum í matvælafyrirtæki sem átti svolítinn lager af eggjum, innfluttum frá Danmörku, sem við gátum fengið og farið með í verslanir okkar. Alls voru þetta 7.000-8.000 eggjabakkar og samkvæmt nýjustu tölum eru 5.000 af þeim nú seldir.“
Björgvin telur að eggjaframleiðslan á Íslandi sé nú komin aftur í jafnvægi og viðskiptavinir geti því nú aftur gengið að þessari mikilvægu vöru vísri. „Jólaverslunin eykst með hverjum deginum og síðustu daga hefur sala á hveiti, sykri og öðru slíku sem þarf í bakstur komið sterkt inn. Þann 20. desember eykst svo salan enn meira þegar fólk fer að kaupa í hátíðarmatinn,“ segir framkvæmdastjórinn.