Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta er einstaklega gott tækifæri fyrir einhvern sem hefur kraft og þor – og á einhvern aur,“ segir Gísli Pálmason, einn eigenda Heydals í Súðavíkurhreppi. Jörðin og vinsæl ferðaþjónusta sem þar hefur verið rekin í rúma tvo áratugi hefur verið auglýst til sölu. Verðmiðinn er 600 milljónir króna.
Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Leopoldssyni, fasteignasala hjá Fasteignamiðstöðinni, fylgir tilheyrandi eignarland og sameignarréttindi með í kaupunum sem og allur búnaðar og annað tilheyrandi. Segir Magnús að um mjög áhugaverða eign sé að ræða sem eflaust eigi eftir að vekja athygli margra.
Stella hefur staðið í brúnni
Stella Guðmundsdóttir hefur rekið ferðaþjónustuna ásamt Gísla syni sínum og tengdadótturinni Lóu Hrönn. Margir kannast við Stellu enda hefur hún verið andlit staðarins og margoft komið fram í viðtölum. Gísli segir við Morgunblaðið að komið sé að tímamótum hjá fjölskyldunni, mikil vinna sé að halda úti þessum rekstri og þau séu að eldast. „Þetta er draumastaðurinn minn en það kemur alltaf að því að menn þurfa að segja þetta gott. Kannski er betra að gera það áður en maður neyðist til þess,“ segir hann.
Alltaf fullt á sumrin
Umfangsmikil ferðaþjónusta hefur verið rekin í Heydal. Gamla fjósinu var breytt í hótelherbergi og síðar var byggð ný álma með fleiri herbergjum, jógarými og fleiru. Veitingastaður var byggður úr gömlu hlöðunni. „Boðið er upp á bæði hesta- og kajakleigu, veiði í vötnum, leiksvæði fyrir börn og unglinga, gönguleiðir, fugla- og náttúruskoðun, laug hlaðna úr náttúrugrjóti og sundlaug sem er inni í gróðurhúsi. Í Heydal er einnig talandi páfagaukur og vinalegir hundar,“ segir í auglýsingu.
„Það er alltaf fullt hjá okkur á sumrin. Ekkert mál er að bæta í hérna, það eru miklir möguleikar,“ segir Gísli. Hann segir jafnframt að samkomulagsatriði sé hvað fylgi með í kaupunum en lagt er upp með að allt sé falt. Meira að segja Kobbi, páfagaukurinn talandi sem gleður jafnan gesti af yngri kynslóðinni. „Já, já, hann getur örugglega fylgt með ef fólk vill hann,“ segir Gísli og hlær við.
Sjálfbærni höfð að leiðarljósi
Eigendur ferðaþjónustunnar hafa haft sjálfbærni að leiðarljósi við reksturinn, svo sem með grænmetisrækt, fiskeldi, rafmagnsframleiðslu með vindi, vatni og sól auk trjáræktar. Húsin eru hituð upp með heitu vatni af jörðinni. Þá hefur hráefni á veitingastaðinn í Heydölum verið sótt eftir því sem unnt er af jörðinni eða úr nærumhverfinu.