Árni Gunnarsson
Eins og alkunna er er eitt af grunngildum Rauða krossins hlutleysi. Hlutleysi hreyfingarinnar gerir henni kleift að starfa um víða veröld án þess að taka afstöðu til skoðana og gilda í viðkomandi landi.
Það grunngildi sem Rauði krossinn setur þó ofar öllu er mannúð, án manngreinarálits.
Áhugavert er, á merkum tímamótum í starfi Rauða krossins á Íslandi, að skoða hvaðan þessi þrá til að hjálpa er sprottin og hvaðan þessi grunngildi koma.
Kristinn einstaklingur lítur á sig sem sköpunarverk Guðs. Sem slíkur hefur hann brýna þörf fyrir að láta gott af sér leiða, en sú hugsjón birtist vel í fjallræðu Jesú Krists.
Jean-Henri Dunant, stofnandi Alþjóða Rauða krossins, ólst upp í Genf í Sviss á strangtrúuðu kalvínsku heimili. Efnaðir foreldrar hans ráku m.a. súpueldhús fyrir heimilislausa í borginni og önnuðust munaðarlaus börn í sjálfboðastarfi. Sem unglingur starfaði Dunant m.a. á vettvangi sem síðar varð YMCA (sambærilegt KFUM í dag), en þau samtök voru stofnuð 1855.
Síðar á lífsleiðinni, þegar Dunant er í viðskiptaferð á Ítalíu 1859, verður á leið hans ein blóðugasta orrusta sem háð hafði verið í Evrópu, svonefnd heljarslóðarorrusta eða orrustan um Solferino. Særðir og látnir hermenn úr báðum fylkingum lágu um allt. Það var þá sem hugmyndin um hlutlausa hjálp vaknaði hjá Dunant. Minnugur uppeldis síns í Genf hóf Dunant ásamt fleirum að skipuleggja hjúkrun særðra á vígvellinum. Hann samdi við hershöfðingja og þjóðhöfðingja stríðandi afla um að hann fengi hlutlausan aðgang að vígvelli þeirra. Oftar en ekki naut hann aðkomu eiginkvenna þessara yfirmanna sem var auðfengin, en þær hrifust af hugprýði og hugsjónum þessa manns.
Sú hlið þessara atburða fór ekki hátt. Þetta varð kveikjan að stofnun Rauða krossins 29. október 1863 í Genf. Árið 1901 hlaut Dunant ásamt frönskum friðarsinna fyrstu friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt.
Krossinn er tákn kristinna manna, og Rauði krossinn nýtti sér fána hins hlutlausa Sviss sem fyrirmynd. Hið trúarlega inntak í merki Rauða krossins hlaut síðar viðurkenningu sem slíkt, þegar nauðsynlegt var að viðurkenna Rauða hálfmánann og Rauða stjörnu Davíðs á vettvangi. Tryggja þurfti hlutlausan aðgang að vettvangi óháð trúarlegri afstöðu.
Það er við hæfi að Rauði krossinn á Íslandi fagni 100 ára starfi á Íslandi í jólamánuðinum, þegar kristnir menn fagna komu frelsarans. Er félaginu og öllu starfsfólki og sjálfboðaliðum óskað til hamingju með merk tímamót í starfi þess hérlendis.
Grunngildi Rauða krossins ríma vel við kærleiksboðskap kristinnar trúar.
Höfundur starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum.