„Þessi gögn eru úti um allt, á mismunandi formi og í mismunandi gæðum, en við snyrtum þau, stöðlum og sníðum að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Anna Björk.
„Þessi gögn eru úti um allt, á mismunandi formi og í mismunandi gæðum, en við snyrtum þau, stöðlum og sníðum að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Anna Björk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það á við um sjávarútveginn eins og aðrar atvinnugreinar að gott aðgengi að vönduðum upplýsingum skiptir sköpum fyrir alla ákvarðanatöku. Anna Björk Theodórsdóttir er stofnandi íslenska tæknisprotans Oceans of Data en þar hefur verið þróuð sérhæfð gagnaveita fyrir sjávarútveginn

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það á við um sjávarútveginn eins og aðrar atvinnugreinar að gott aðgengi að vönduðum upplýsingum skiptir sköpum fyrir alla ákvarðanatöku.

Anna Björk Theodórsdóttir er stofnandi íslenska tæknisprotans Oceans of Data en þar hefur verið þróuð sérhæfð gagnaveita fyrir sjávarútveginn. Félagið býr að stóru og umfangsmiklu gagnasafni sem fer sístækkandi en hjá Oceans of Data eru gögnin hreinsuð, stöðluð og undirbúin til frekari greiningar.

Anna Björk líkir áhrifum Oceans of Data við þau áhrif sem markaðsgagnagátt Bloomberg hafði á kauphallarviðskipti á sínum tíma. „Almenningur þekkir Bloomberg einkum sem viðskiptafréttastöð en það markaði kaflaskil árið 1982 þegar Bloomberg kynnti til sögunnar upplýsingaþjónustu, Bloomberg Terminal, sem miðlaði gögnum og greiningum í rauntíma í gegnum miðlæga gagnagátt. Fram að því höfðu fjárfestar reynt eftir fremsta megni að sanka að sér upplýsingum handvirkt, héðan og þaðan, og þurftu oft að byggja ákvarðanir sínar á gömlum gögnum en það breyttist með gagnagátt Bloomberg sem jók um leið skilvirkni markaðarins, jók tekjur og dró úr áhættu.“

Öll þau gögn sem máli skipta

Þau gögn sem Oceans of Data hefur viðað að sér eru af öllum mögulegum toga. „Þetta eru ýmis markaðsgögn, s.s. um fiskverð á uppboðsmörkuðum, og nýjustu tölur um kvóta, landanir fiskiskipa og lífmassa í kvíum fiskeldisstöðva. Olíuverð, gengi gjaldmiðla, og meira að segja verð á sjávarfangi hjá verslunarkeðjum erlendis er líka í gagnabankanum og raunar allt sem máli skiptir fyrir félög sem framleiða og selja fisk,“ útskýrir Anna Björk, en um er að ræða blöndu af opinberum gögnum og einkagögnum sem Oceans of Data kaupir af þriðju aðilum.

„Þessi gögn eru úti um allt, á mismunandi formi og í mismunandi gæðum, en við snyrtum þau, stöðlum og sníðum að þörfum viðskiptavina okkar svo að þeir hafi þá heildarmynd af markaðinum sem þeir þurfa til að koma auga á tækifærin og hámarka verðmætasköpun,“ segir Anna Björk og bætir við að fyrir meðalstórt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki jafnist aðgangur gagnaveitu Oceans of Data á við að vera með nokkurra manna teymi sérfræðinga að störfum við gagnaöflun og -greiningu.

Geta áttað sig betur á stöðunni

Sem dæmi um hvernig gögnin geta nýst fyrirtækjum í greininni nefnir Anna Björk að Oceans of Data auðveldi útgerðum að átta sig á hvað keppinautar þeirra aðhafast. „Segjum t.d. að útgerðarfélag sé að veiða karfa, en sjái það í gagnasafni okkar að skip eru að landa miklu magni af karfa þá stundina svo að stefnir í mjög mikið framboð. Það gæti verið vísbending um að best væri að draga úr karfaveiðunum þangað til aðstæður verða þannig að meiri líkur séu á að fá betra verð fyrir aflann.“

Anna Björk segir seljendum heldur ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað þyki eðlilegt verð fyrir sjávarafurðir. „Kaupandinn fullyrðir kannski að verðið sé svona frekar en hinsegin, og ekki að því hlaupið að sjá það strax hvert meðalverðið er á markaðinum frá degi til dags sem setur seljendur í slæma stöðu. Jafnvel lítils háttar frávik í verði geta safnast upp og ef við t.d. ímyndum okkur félag sem selur 100 tonn af fiski á viku og selur hann á 10 dollara kílóið þegar væri hægt að fá 10 dollara og 30 sent, þá er félagið að fara á mis við hálfa aðra milljón dala á ársgrundvelli.“

Loks nefnir Anna Björk dæmi af sölufyrirtæki sem gæti orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni ef lesið er rangt í markaðinn. „Vanmat á eftirspurn getur þýtt að sölufyrirtækin sitja uppi með miklar birgðir sem er kostnaðarsamt að geyma og þarf á endanum að koma í verð með einhverju móti – og þá yfirleitt með því að selja fiskinn með afslætti. Þessi fyrirtæki byggja rekstur sinn iðulega á örlítilli álagningu og má ekki mikið út af bregða.“

Gervigreind er með svarið

Viðskiptavinir Oceans of Data geta nálgast gögnin með svokölluðum API-kóða sem markaðs- og greiningarhugbúnaður þeirra getur notað og fléttað saman við þeirra eigin gögn. „En einfaldast af öllu er að nota gervigreindarlausn sem við höfum þróað. Gervigreindin, sem við köllum ÖNNU, virkar með svipuðum hætti og fólk á að venjast með Chat GTP og það eina sem notandinn þarf að gera er að slá inn spurningar sínar. ANNA getur lesið, skrifað, reiknað, teiknað, greint og spáð og skilur mörg tungumál, þar á meðal íslensku, ensku, norsku og spænsku.“

Starfsemi Oceans of Data hefur farið vel af stað en félagið var stofnað árið 2021 í samvinnu við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið DataLab Iceland. „Hingað til höfum við fjármagnað okkur að mestu leyti sjálf en erum núna að leggja út netin til að fá fjárfesta að verkefninu til að hjálpa okkur að vaxa hraðar,“ segir Anna Björk en fyrirtækið réð nýlega til sín norskan sérfræðing með mikla reynslu í sölu sjávarútvegshugbúnaðar. „Hún mun keyra söluna í Noregi áfram en við sjáum fram á að tekjur félagsins á þessu ári tvöfaldist frá árinu á undan.“

Viðskiptavinir Oceans of Data eru ánægðir með vöruna. „Sú endurgjöf sem við höfum fengið sýnir okkur m.a. að notendum þykir þægilegt að hafa aðgang að öllum þeim gögnum sem þeir þurfa á einum stað. Það sparar þeim mikinn tíma auk þess sem gagnasafnið hjálpar þeim að fylgjast betur með keppinautum sínum og hjálpar þeim að bera sig saman við markaðinn og verðleggja sig rétt,“ segir Anna Björk. „Gaman verður að sjá hvaða fleiri möguleikar skapast með því að beita gervigreind á gagnasafnið en við höfum t.d. verið að dæla þar inn alls kyns textagögnum, s.s. ársskýrslum skráðra fyrirtækja, sem gervigreindin getur unnið með. Öll þessi gögn hjálpa okkur að setja meira kjöt á beinin þegar gervigreindin svarar spurningum notenda, og er gervigreindin ekki bara að sýna notendum hvernig hinar ýmsu tölur hafa þróast heldur getur hún líka reynt að svara hvað býr að baki þróuninni og freistað þess að spá hvað er líklegast að gerist í framtíðinni.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson