Ungir sjómenn ánægðir með vænan steinbít sem fékkst á ungmennaveiðum í Norður-Noregi síðastliðið sumar.
Ungir sjómenn ánægðir með vænan steinbít sem fékkst á ungmennaveiðum í Norður-Noregi síðastliðið sumar. — Ljósmynd/Vadsø kommune
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Noregi hefur um árabil verið starfrækt svokölluð ungmennaveiði (n. ungdomsfiske) yfir sumartímann. Kerfið er leið fyrir ungt fólk að kynnast sjávarútvegi, jafnvel einstaklinga sem aldrei hafa heyrt minnst á sjósókn

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Í Noregi hefur um árabil verið starfrækt svokölluð ungmennaveiði (n. ungdomsfiske) yfir sumartímann. Kerfið er leið fyrir ungt fólk að kynnast sjávarútvegi, jafnvel einstaklinga sem aldrei hafa heyrt minnst á sjósókn. Kerfið er talin ein af mikilvægustu leiðum Norðmanna til þess að auka nýliðun í greininni.

Um er að ræða sérstaka veiði þar sem fólki á aldrinum 12-25 ára gefst kostur á að skrá sig til leiks og var veiðitímabilið síðastliðið sumar 17. júní til 16. ágúst. Tímabilið er þó aðeins breytilegt fyrir ákveðnar tegundir, svo sem grásleppu, en þær veiðar hefjast almennt fyrr. Einnig er um veiðarnar smávægilegur breytileiki í reglum eins og í tilfelli krabbaveiða.

Hver þátttakandi hefur heimild til að landa afla fyrir 50 þúsund norskar krónur á tímabilinu, jafnvirði 626 þúsund íslenskra króna. Má nota hin ýmsu veiðarfæri svo sem stöng, handfæri, línu, net og gildrur.

Segja árangurinn ótvíræðan

Almennt er talið að þetta kerfi hafi skilað árangri hvað nýliðun varðar og hefur þeim sem stunda sjósókn sem aðalstarf og eru yngri en 20 ára fjölgað um 116% á árunum 2016 til 2023, úr 175 í 378. Þeim hefur einnig fjölgað í aldurshópnum 20 til 29 ára á sama tíma úr 1.604 í 1.879. Á síðasta ári voru 9.657 sem skráðir voru sjómenn í Noregir í fullu starfi. Þar af voru 2.257 eða 23% yngri en 30 ára.

„Bæði sjávarútvegur og sjávarplássin þurfa á ungu, snjöllu fólki að halda. Sumarstarfið er fyrir margt ungt fólk þeirra fyrstu kynni af atvinnulífinu og sú reynsla sem þú tekur með þér getur opnað augu þín fyrir möguleikum í sjávarútvegi. Ungmennaveiðar eru mikilvægar fyrir nýliðun og ég vil stuðla að því að fleira ungt fólk reyni fyrir sér í fiskveiðum,“ sagði Marianne Sivertsen Næss sjávarútvegsráðherra Noregs á vef norska stjórnarráðsins þegar veiðar sumarsins 2024 voru kynntar.

Góð þátttaka

Síðastliðið sumar var 651 ungmenni skráð til þátttöku í veiðunum, þar af voru 227 stúlkur eða 35% þátttakenda. Væri slíkt kerfi hér á landi myndi þetta vera, miðað við íbúafjölda, um 45 ungir einstaklingar sem gætu látið á veiðar reyna.

Rúmlega hundrað færri tóku þátt síðastliðið sumar en í fyrra þegar 757 ungmenni voru skráð, en það var jafnframt metár. Árið 2022 voru 517 skráðir þátttakendur og 568 árið 2021.

Sem viðbót við hefðbundna ungmennaveiði ákvað norska ríkisstjórnin að veita tvær milljónir norskra króna til sveitarfélaga sem vilja hrinda í framkvæmd verkefni á sviði ungmennaveiðinnar sem veitti 300 öðrum ungmönnum tækifæri til þess að láta reyna á sjósókn.

„Sjávarútvegurinn þarf ávallt á hæfu fólki að halda á öllum aldri og sérstaklega er ungmennaveiðikerfið mikilvægt til að tryggja nýliðun í faginu. Ég er virkilega stolt og ánægð að sjá dugnað og hörku unga fólksins sem notar sumarið til að reyna fyrir sér í veiðinni,“ sagði Sivertsen Næss.

Skóli í boði á Íslandi

Ekki fyrirfinnast sambærileg verkefni hér á landi hvað varðar sérhæft úrræði til að vekja áhuga ungs fólks á sjósókn. Þó hefur verið unnið mikið starf undanfarinn áratug til að kynna sjávarútveginn ungum Íslendingum í gegnum Sjávarútvegsskóla unga fólksins.

Var það Síldarvinnslan sem kom skólanum á laggirnar í Neskaupstað árið 2013 undir merkjum Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Vakti starf skólans áhuga margra og varð hann að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar og síðar Sjávarútvegsskóla Austurlands. Árið 2016 færðist umsjón með skólastarfi til Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fékk skólinn þá það nafn sem hann ber nú, Sjávarútvegsskóli unga fólksins.

Starfsemi skólans má finna víða um landið og er námið samstarf sjávarútvegsfyrirtækja og vinnuskóla sveitarfélaga á þeim stað sem kennsla fer fram. Er 14 ára unglingum boðið að sækja skólann og hefur hann starfað í Neskaupstað, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði, Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði, Snæfellsnesi, Reykjavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði.

Skólinn hefur frætt ótal unga Íslendinga um sjávarútveginn og eflaust vakið áhuga fjölmargra á að sækja í ýmis störf greinarinnar. Þó er vert að velta fyrir sér hvort einnig sé tilefni til að finna leiðir til að auka þekkingu og áhuga ungs fólks á sjósókn.

Strandveiðar eru opnar öllum

Landssamband smábátaeigenda hefur ekki mótað stefnu hvað varðar að koma á sérstökum veiðum fyrir ungmenni að sögn Arthurs Bogasonar formanns sambandsins. Hann segir þó mikilvægt að nýliðun eigi sér stað og eru þar strandveiðarnar afgerandi þáttur.

„Við höfum ekki haft stefnu um veiðar fyrir ákveðinn aldurshóp, en við höfum hins vegar svipaða stefnu hvað varðar að við teljum að strandveiðikerfið eigi að vera inngönguleið fyrir fólk sem hefur áhuga á að feta sig inn í sjávarútveginn. Skiptir þar engu máli hvort það sé ungur maður eða gömul kona ef áhuginn er fyrir hendi.

Við höfum verið að berjast fyrir því að fastsettur verði ákveðinn dagafjöldi [sem strandveiðibátar fá að veiða] og heimild Fiskistofu til að stöðva veiðarnar fjarlægð. Þá er maður kominn með eitthvað öruggt sem fólk gengur að. Þá er opinn vegur fyrir unga karla og konur inn í greinina. Þá er þetta nokkuð sambærilegt þessu kerfi í Noregi, nema án aldurstakmarkana.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson