Af dansi
Sesselja G. Magnúsdóttir
sesseljagm@gmail.com
Sviðsdans byggist á líkamlegri tjáningu en birtingarmyndir hennar geta verið óendanlega fjölbreyttar, meðal annars vegna þess að hún sprettur upp úr mismunandi menningarheimum og aðstæðum. Í þessum pistli verður fjallað um þrjú verk þar sem djúpar tilfinningar eru tjáðar í gegnum hreyfingu og notkun raddarinnar. Verkin eru ólík, Ólöf Ingólfsdóttir sýndi okkur litróf tilfinninga með samtvinnun barokktónlistar og dans, Omar Rajeh sagði frá „fortíð sem fékk aldrei að verða framtíð“ og sársaukanum sem því fylgdi og Curro Rodriguez tengir tilfinningalega dýpt flamenco-hefðarinnar við ritúalíska ákefð samtímatjáningar í verki þar sem röddin er í aðalhlutverki.
Þær eiga allar rétt á sér
Ólöf Ingólfsdóttir frumsýndi sólódansverkið Sjö ljóð í óskrifaðri ljóðabók í fyrra eftir langa fjarveru frá danssviðinu og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímuverðlaunanna. Nú, ári síðar, mætir hún aftur á svið með nýtt sólóverk, Eitthvað um skýin, og sýnir að tilnefningin var engin tilviljun. Í verkinu skoðar hún mannlegar tilfinningar, erfiðar og gleðilegar, og hvernig þær koma og fara rétt eins og skýin. Þær stoppa mislengi og hafa mismikil áhrif á okkur en allar eiga þær rétt á sér og eru hluti af tilverunni. Ólöf velur að nota nokkrar þekktar barokkaríur sem leiðarstef í gegnum land tilfinninganna, textana má finna í leikskránni, á þeim forsendum að tilfinningar manneskjunnar séu þær sömu óháð tíma.
Eitthvað um skýin er ljúft verk, stílhreint og áferðarfallegt þar sem það sjónræna, hljóðræna og hreyfingarnar flæða áreynslulaust í eina heild. Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir á heiðurinn af leikmynd og búningum, misstórum hvítum skýjahnoðrum og smart bláum buxum og blússu, sem ásamt lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar skapa sýningunni smekklega sjónræna umgjörð. Hljóðheimur sýningarinnar er í grunninn upptaka af barokkaríunum í flutningi hljóðfæraleikaranna Júlíönu Elínar Kjartansdóttur (fiðla), Rósu Hrundar Guðmundsdóttur (fiðla), Sesselju Halldórsdóttur (víóla), Ólafar Sesselju Óskarsdóttur (selló), en um upptökuna, hljóðvinnslu og hljóðinnsetningu sáu Hallur Ingólfsson og Kristín Waage. Hljóðheimurinn er svo fullkomnaður með djúpri og tjáningarríkri rödd Ólafar en hún syngur aríurnar um leið og hún dansar.
Sviðsframkoma Ólafar var hógvær en bjó á sama tíma yfir skýrum blæbrigðum. Gáskinn birtist áhorfendum samt sem sterkasta hlið Ólafar eins og í leik hennar með skýin og í grípandi og skemmtilegri byrjun. Það er líka undravert hvernig henni tekst að láta dansinn, leikinn og sönginn verða eitt í verkinu.
Það sem ekki má
Í dansverkinu Dance is not for Us segir Omar Rajeh áhorfendum í orðum og dansi frá baráttu sinni í Beirút á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar við að byggja upp samtímadanssenu í Líbanon og löndunum í kring. Dansinn var hans leið til að vinna að friðsömum samskiptum innan lands og á milli landa og byggja upp menningarlíf í Beirút eftir borgarastyrjöld og í áframhaldandi skærum á milli hópa innanlands. Baráttan skilaði árangri um skeið. Hann stofnaði dansflokkinn Maqamat, kom á fót danshátíðinni Beirut International Platform for Dance og stofnaði ásamt öðrum Masahat Dance Network sem náði til Líbanon, Sýrlands, Palestínu og Jórdaníu auk þess að opna sviðslistarýmið Citerne Beirut. En baráttan gekk ekki átakalaust og endaði í því að hann flutti með flokkinn sinn til Lyon í Frakklandi í kjölfar þess að Citerne Beirut var lokað til að rýma fyrir byggingu bræðsluofns fyrir rusl á svæðinu.
Omar segir söguna með skrifuðum texta og dansi. Orðin hefja leika. Þau birtast á tjaldi aftast á sviðinu á meðan hann situr við skrifborð með tölvu fyrir framan sig eins og hann sé að skrifa textann jafnóðum. Þau draga síðan framvinduna áfram allt til loka. Fyrir utan stólinn og borðið er litlu grænu blómi og bökkum af litlum basilplöntum er raðað á sviðið. Grænar plönturnar mynda fallega andstæðu við sviðið, búninginn og aðra leikmuni sem eru á skalanum svart og hvítt. Þær voru líf í litlausum heimi. Litla græna blómið var tákn alls gróðursins sem Omar mundi eftir frá því hann var lítill strákur í Líbanon og heimsótti ömmu sína og afa. Fínleg fegurð þess var sérstök ekki síst þegar það bærðist í vindi frá viftu sem var fyrir utan sviðið. Í byrjun verksins voru það orðin og plönturnar sem áttu sviðið. Það var nokkuð liðið á verkið þegar Omar sagði áhorfendum að honum liði eins og hann sæti í myrkri með háværa tónlist þar sem sama stefið var þrálátlega endurtekið. Í kjölfarið brast hann í dans með líkamstjáningu sem einkenndist af litlum, hröðum og kröftugum hreyfingum. Það var eins og hann væri að endurupplifa fangavist þar sem aðbúnaðar væri slæmur, að minnsta kosti tjáðu hreyfingar hans mikla örvæntingu, reiði, vanmátt og hjálparleysi gagnvart eigin þjáningu og þjáningu annarra. Það var átakanlegt að sjá hvernig líkaminn engdist og kipptist til og endaði svo í algjörri kyrrstöðu. Í kjölfarið kom glaðlegri kafli, mögulega tengdur árunum í Lyon, með hreyfingum að því er virtist tengdum upprunanum og fortíðinni. Í lokin sneri Omar sér svo að litlu basilplöntunum og tók að raða þeim um sviðið og bauð áhorfendum þær svo að gjöf. Verkið endaði á að hann stóð og lyfti plöntu upp í loft eins og í von um frið og betri heim. Það var fallegt þegar áhorfendur lyftu líka sínum plöntum og sameinuðust honum í þeirri ósk.
Verkið sagði sögu missis, sorgar og tilgangsleysis stríðs en vakti líka von. Sagan var sterk og hreyfði djúpt við tilfinningum áhorfandans svo finna mátti tár á hvörmum.
Hinn dýpsti harmur
Í dansverkinu Red Obsidian leitar Curro Rodríguez í smiðju flamenco-hefðarinnar að miðli til að tjá þjáningu, sársauka og kaþarsis (hreinsun). Þar horfir hann fram hjá flamenco-dansinum en tileinkar sér í staðinn mátt raddarinnar. Röddinni teflir hann svo fram með líkamlegri tjáningu butoh-dansarans Anto Lopez og sterkri umgjörð.
Umgjörð verksins, stóll, rauð lýsing og búningar sem drógu fram eiginleika eitraðar karlmennsku og kvenleika, minnti meira á innsetningu en umgjörð dansverks. Hún undirstrikaði vel efni verksins og þá stemningu sem því fylgir. Undirrituð skildi ekki textann sem sunginn var en það kom ekki að sök því Curro nýtti röddina á svo skýran hátt að textinn sem slíkur var óþarfur. Líkamleg framsetning Anto, samspil flytjendanna og blæbrigði og beiting raddarinnar gaf sterklega til kynna að hér væri verið að fjalla um harm og dauða. Samskipti flytjendanna endurspegla þetta líka en þau lýstu valdaójafnvægi og kúgun sem endar með dauða og harmi.
Sýningin var sett upp í salnum í Iðnó, á gólfinu við sviðið með áhorfendur standandi eða sitjandi á gólfinu fyrir framan. Því miður var sýningin seint um kvöld svo að stemningin í verkinu fékk ekki að njóta sín sem skyldi auk þess sem betra hefði verið að raða áhorfendum formlega upp og passa að salurinn væri kominn í ró áður en sýningin byrjaði.
Verkin sem hér er fjallað um eru mjög ólík að efni og framsetningu en þau eiga það sameiginlegt að setja tilfinningalegar upplifanir í forgrunn á áhugaverðan hátt.