Strandir Verzlunarfjelag Árneshrepps meðal þeirra sem fá styrk.
Strandir Verzlunarfjelag Árneshrepps meðal þeirra sem fá styrk. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Innviðaráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Að þessu sinni var úthlutað 17 milljónum króna til sex verslana í dreifbýli fyrir árið 2025

Innviðaráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Að þessu sinni var úthlutað 17 milljónum króna til sex verslana í dreifbýli fyrir árið 2025. Alls sóttu þær um styrki að andvirði 42 milljóna króna.

Markmiðið með styrkjunum er að styðja við dagvöruverslanir í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Ýmist eru veittir rekstrarstyrkir eða styrkir til endurbóta eða sjálfvirknivæðingar. Verslanirnar sex eru Bakka-Búðin ehf. á Reykhólum, sem fékk fimm milljóna rekstrarstyrk, Verzlunarfjelag Árneshrepps fékk þriggja milljóna rekstrarstyrk, Hríseyjarbúðin fékk tveggja og hálfrar milljónar styrk til endurbóta og sjálfvirknivæðingar, North East Travel ehf. á Bakkafirði fékk eina og hálfa milljón í rekstrarstyrk, Gunnubúð ehf. á Raufarhöfn fékk þrjár milljónir til endurbóta og Verslunarfélag Drangsness fékk tvær milljónir króna í rekstrarstyrk fyrir komandi ár.