Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Markaður fyrir aflaheimildir er ekki samþjappaður samkvæmt greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið Arev hefur unnið á grundvelli fyrstu úthlutunar kvóta vegna fiskveiðiársins 2024/2025. Gætu Síldarvinnslan og Brim runnið saman án þess að markaður aflaheimilda teldist samþjappaður.
Arev hefur verið að þróa hugbúnað til að auka gagnsæi á markaði fyrir samþjöppun aflaheimilda í sjávarútvegi. Stuðst er bæði við söguleg gögn sem og nýjustu gögn til að reikna út samkeppnisstuðla.
Áreiðanlegast
Einn þeirra stuðla sem Arev hefur reiknað út er svokallaður Herfindahl-Hirschman-stuðull sem þekktur er undir skammstöfuninni HHI. „Sá er talinn ein áreiðanlegasta vísbendingin um hve mikil samþjöppun á markaði er,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins. Þá segir að „markaðir þar sem HHI-gildi eru undir 1.000 eru almennt taldir vera virkir samkeppnismarkaðir. Samþjöppun telst í meðallagi þegar HHI-gildi er á bilinu 1.000 til 1.800, en mikil samþjöppun er til staðar þegar gildið fer yfir 1.800 stig.“
Samkvæmt útreikningum Arevs er HHI-gildi fyrir öll þorskígildi aðeins 595. Fyrir þorskkvóta er HHI-gildið 497, 621 í ýsu og 875 í ufsa. Gildið nær síðan 1.239 í karfa, en fyrir því eru skýrar ástæður að mati Arevs.
„Aðalástæðan fyrir meiri samþjöppun í tegundum eins og karfa er sú að það þarf að veiða tiltölulega mikið magn til að veiðarnar verði arðbærar vegna hás upphafskostnaðar. Það þarf töluverða sérhæfingu og fjármuni þegar kemur að því að vinna karfa og því ekki margir aðilar sem hafa burði í það,“ segir í úttektinni.
Fyrir uppsjávartegundir er gildið 1.418, en í því samhengi má benda á að stærðarhagkvæmni er einstaklega mikilvæg í uppsjávarveiðum aðallega vegna þess hvernig þær eru stundaðar. Samþjöppun eignarhalds aflaheimilda í tegundum eins og loðnu, makríl og síld á sér því eðlilegar skýringar.
Lítil samþjöppun
Þá hefur Arev einnig reiknað út markaðshlutdeild þriggja stærstu aðila á markaði (CR3) í hverri tegund fyrir sig og átta stærstu (CR8). Þrír stærstu aðilarnir eru með 27,6% markaðshlutdeild í þorskígildum og átta stærstu með 61,6%.
Til samanburðar má nefna að sex stærstu aðilar á dagvörumarkaði eru með um 97% markaðshlutdeild. Auk þess er HHI-gildi dagvörumarkaðarins 3.195.
Takmarkanir í lögum
Eins og sýnt hefur verið er markaður fyrir aflaheimildir langt innan við þau HHI-viðmið sem Samkeppniseftirlitið styðst við. Má því í úttekt Arevs sjá að enn er töluvert rými fyrir sameiningar félaga og er í úttektinni tekið dæmi um sameiningu Síldarvinnslunnar og Brims.
Við slíka sameiningu yrðu HHI-gildin vel innan marka mikillar samþjöppunar hvað varðar þorsk, ýsu, ufsa og jafnvel karfa. Gildi fyrir uppsjávartegundir færi þó upp í 2.244.
Samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða má hins vegar útgerð ekki fara með meira en 12% af heildarkvóta eða 12% af þorskkvótanum. Auk þess má útgerð ekki fara með meira en 20% af kvótanum í ýsu, ufsa, grálúðu, síld, loðnu eða úthafsrækju, en mörkin eru 35% í karfa. Sameining félaganna myndi því ekki geta átt sér stað vegna þeirra takmarkana sem settar eru á eignarhald aflaheimilda í lögum og tryggja þannig núverandi lög að samþjöppun fari ekki umfram viðmið.
Lítil breyting
Athyglisvert er að í úttekt Arevs má sjá að markaðurinn fyrir aflaheimildir verður minna samþjappaður milli fiskveiðiáranna 2021/2022, 2022/2023 og 2023/2024 í þorskígildum. Það skýrist aðallega af loðnubresti síðustu ár sem vegur þungt hjá þeim fyrirtækjum sem stunda þær veiðar, þar sem þessar útgerðir eru ekki jafn stórar í botnfisktegundum. Sem fyrr segir er dreifðara eignarhald á aflaheimildum í botnfiski en í uppsjávartegundum.
Almennt segir í greiningunni að mjög lítil breyting eigi sér stað milli ára hvað samþjöppun varðar vegna raunverulegra viðskipta þar sem það er orðið sjaldgæft að aflaheimildir skipti um hendur, algengara er að félög leigi frá sér heimildir.