Daníel Leó Grétarsson
Daníel Leó Grétarsson — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Segja má að það sé tákn um breytta tíma að miðvarðastöðurnar tvær skuli þykja einna helsta vandamálið í karlalandsliði Íslands í dag. Í gullaldarliði síðasta áratugar, þegar Ísland komst bæði á EM 2016 og HM 2018, voru það Kári Árnason og Ragnar…

Vörnin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Segja má að það sé tákn um breytta tíma að miðvarðastöðurnar tvær skuli þykja einna helsta vandamálið í karlalandsliði Íslands í dag.

Í gullaldarliði síðasta áratugar, þegar Ísland komst bæði á EM 2016 og HM 2018, voru það Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson sem stóðu vaktina í hjarta varnarinnar í langflestum mótsleikjum liðsins. Þeir mynduðu magnað miðvarðapar, voru ekki endilega sem einstaklingar bestu miðverðirnir sem hafa leikið fyrir Íslands hönd en samvinna þeirra og tenging við liðið í heild var einstök.

Í kringum aldamótin mynduðu Eyjólfur Sverrisson og Hermann Hreiðarsson um tíma magnað miðvarðapar, enda lykilmenn í sínum liðum í efstu deildum Þýskalands og Englands. Guðni Bergsson var lengi í lykilhlutverki í íslensku vörninni og var á sínum yngri árum með Atla Eðvaldssyni og Sævari Jónssyni í firnasterkri miðvarðaþrennu í þriggja manna vörn landsliðsins. Þar á undan má nefna til sögunnar leiðtoga eins og Martein Geirsson og Guðna Kjartansson.

Nú er spurningin hvaða miðvarðapar nær næst að koma sér í sögubækurnar. Á árinu 2024 voru Sverrir Ingi Ingason og Daníel Leó Grétarsson langoftast í stöðunni, áttu góða leiki inn á milli en ansi oft brást varnarleikurinn, ekki bara hjá þeim heldur hjá liðinu í heild.

En skoðum hverjir spiluðu sem miðverðir í ár og hverjir geta helst slegist við þá um stöðurnar tvær um þessar mundir.

Sverrir Ingi Ingason lék sem miðvörður í níu af tólf landsleikjum ársins 2024, alltaf í byrjunarliðinu, og var fyrirliði í tveimur þeirra en missti af tveimur leikjum í Þjóðadeildinni vegna meiðsla.

Sverrir er 31 árs gamall og hefur spilað 55 landsleiki en hann var í íslenska hópnum bæði á EM 2016 og HM 2018 og hann kom við sögu í tveimur leikjum á hvoru móti. Sverrir leikur í vetur með Panathinaikos í Grikklandi, hefur spilað síðustu 11 deildarleiki í byrjunarliði eftir að hafa misst af fyrstu þremur vegna meiðsla. Þá hefur Sverrir spilað níu Evrópuleiki á tímabilinu, átta þeirra í byrjunarliði. Hann var danskur meistari með Midtjylland síðasta vor.

Daníel Leó Grétarsson festi sig í sessi sem miðvörður í landsliðinu á þessu ári og lék líka níu af tólf leikjum liðsins, alla í byrjunarliðinu. Hann og Sverrir voru miðvarðapar liðsins í sex leikjanna.

Daníel er 29 ára gamall og hefur spilað 22 landsleiki. Hann leikur nú sitt annað tímabil með Sönderjyske í Danmörku. Þar er hann fastamaður, hefur spilað 15 af 17 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni í vetur, alla í byrjunarliði.

Hjörtur Hermannsson lék tvo landsleiki á árinu, tvo fyrstu leiki Íslands í Þjóðadeildinni í haust, gegn Svartfjallalandi og Tyrklandi, og fyllti skarð Sverris í þeim báðum sem miðvörður.

Hjörtur er 29 ára gamall og hefur spilað 29 landsleiki en hann var í hópi Íslands á EM 2016 í Frakklandi. Hann leikur nú sitt fjórða tímabil í ítölsku B-deildinni en það fyrsta með Carrarese. Hann hefur misst mikið úr vegna meiðsla og aðeins náð að spila þrjá af fyrstu sextán leikjum tímabilsins.

Brynjar Ingi Bjarnason lék þrjá landsleiki á árinu, allt vináttuleiki, alla sem miðvörður og einn þeirra í byrjunarliði.

Brynjar er 25 ára gamall og hefur spilað 17 landsleiki. Hann var að ljúka sínu öðru tímabili með HamKam í norsku úrvalsdeildinni og lék þar 25 leiki af 30, þar af 13 leiki í byrjunarliðinu.

 Aron Einar Gunnarsson lék einn landsleik á árinu, gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni, sem fyrirliði, og fór meiddur af velli eftir aðeins 17 mínútur.

Aron er 35 ára gamall og er næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 104 landsleiki. Hann hefur verið fyrirliði landsliðsins frá 2013, og í algjöru lykilhlutverki sem varnartengiliður, m.a. á EM 2016 og HM 2018. Aron hefur hins vegar misst mikið úr vegna meiðsla og málaferla síðustu árin.

Guðlaugur Victor Pálsson og Valgeir Lunddal Friðriksson komu við sögu sem miðverðir á árinu, Guðlaugur Victor í tveimur og Valgeir í einum, en um þá var fjallað sem bakverði í fyrri greinum um liðið.

Hörður Björgvin Magnússon lék síðast með landsliðinu í september 2023 en slasaðist illa stuttu síðar og hefur verið frá keppni síðan. Hann er leikmaður Panathinaikos í Grikklandi og getur byrjað aftur að spila undir vorið. Hörður er 31 árs og hefur leikið 49 landsleiki en hann lék alla þrjá leiki Íslands á HM 2018 í Rússlandi og var í hópnum á EM 2016.

Logi Hrafn Róbertsson lék einn landsleik á árinu, sem varamaður. Hann er tvítugur leikmaður FH og var fastamaður sem miðvörður í 21-árs landsliðinu og í stóru hlutverki hjá FH-ingum í Bestu deildinni þar sem hann lék 24 af 27 leikjum liðsins.

Róbert Orri Þorkelsson hefur verið miðvörður og fyrirliði í 21-árs liðinu síðustu árin, en hann lék fjóra A-landsleiki á árunum 2022 og 2023. Hann lék allt þetta ár með Kongsvinger í norsku B-deildinni og spilaði 21 af 33 leikjum liðsins, 19 þeirra í byrjunarliði.

Ólafur Guðmundsson var fastamaður í 21-árs landsliðinu sem miðvörður. Hann er 22 ára leikmaður FH og spilaði þar 22 leiki í Bestu deildinni í ár.

 Ari Leifsson leikur með Kolding í dönsku B-deildinni og hefur spilað 15 af 18 leikjum liðsins á tímabilinu. Ari er 26 ára og hefur leikið fjóra landsleiki.

Nóel Atli Arnórsson er 19 ára leikmaður AaB í Danmörku og U19 ára landsliðsins. Hann var í byrjunarliði AaB í fjórum fyrstu leikjum liðsins í dönsku úrvalsdeildinni í haust en hefur síðan verið frá keppni vegna meiðsla.

Hverjir slást um stöðurnar?

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu á spennandi ár fyrir höndum, undir stjórn nýs þjálfara, hver sem það svo verður.

Í mars 2025 leikur liðið tvo umspilsleiki um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar, gegn Kósóvó, og síðan taka við sex eða átta leikir í undankeppni heimsmeistaramótsins 2026.

Miklar breytingar hafa orðið á íslenska landsliðinu á síðustu árum og margir ungir og efnilegir leikmenn gera tilkall til sætis. Breiddin virðist vera að aukast, sérstaklega hvað varðar miðjumenn og sóknarmenn, en áhyggjur hafa helst beint að því hvort við eigum nægilega sterka varnarmenn til að byggja upp eins öflugt landslið og sló svo eftirminnilega í gegn á síðasta áratug.

Morgunblaðið varpar þessa dagana ljósi á þá leikmenn sem nú berjast um sæti í landsliði Íslands í hverri stöðu fyrir sig. Áður hefur verið farið yfir markverðina og bakverðina, hægri og vinstri, og í dag er sjónum beint að miðvarðastöðunum tveimur þar sem margir lykilmenn landsliðsins hafa leikið í gegnum tíðina.

Höf.: Víðir Sigurðsson