Jón Guðmundsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl árið 1942. Hann lést 17. nóvember 2024.

Foreldrar Jóns voru Guðmundur Sigfússon, kaupmaður og útgerðarmaður í Neskaupstað, f. 25.8. 1909, d. 10.5. 1980, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 30.10. 1910, d. 27.3. 1975. Systkini Jóns eru Sigfús Ólafur, f. 1940, Ólöf Jóhanna, f. 1946, og Friðrik Jóhann, f. 1949.

Jón kvæntist fyrri eiginkonu sinni, Ásdísi Þórðardóttur, flugfreyju og löggiltum fasteignasala, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, þann 25. ágúst 1973. Foreldrar Ásdísar voru Þórður S. Þórðarson, hárskeri og útgerðarmaður, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, og Theodóra E. Bjarnadóttir, hárgreiðslumeistari, f. 3.1. 1924, d. 13.6. 2011. Börn Jóns og Ásdísar eru: 1) Arnar Þór, lögmaður, f. 2.5. 1971, maki Hrafnhildur Sigurðardóttir. Börn Arnars Þórs og Hrafnhildar eru Kári Þór, f. 1997, Óttar Egill, f. 2001, Ásdís, f. 2004, Theodór Snorri, f. 2007, og Sigrún Linda, f. 2012. 2) Guðmundur Theodór, löggiltur fasteignasali, f. 24.11. 1974, dóttir Guðmundar Theodórs er Klara Rut, f. 2005. 3) Sigríður Ásdís, vöruhönnuður, f. 27.11. 1977. Börn Sigríðar Ásdísar eru Ásdís Theodóra, f. 2001, Tómas Freyr, f. 2004, og Katrín Jóna, f. 2012. Jón eignaðist Thelmu Sif, viðskiptafræðing, f. 17.8. 1999, með Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 1958. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Jóhanna Hreinsdóttir, myndlistarmaður, f. 16.8. 1958. Foreldrar Jóhönnu eru Sigrún Ingibjörg Halldórsdóttir kennari, f. 23.4. 1939, og Hreinn Hjartarson prestur, f. 31.8. 1933, d. 28.3. 2007. Börn Jóhönnu eru: 1) Gyða Bergs, flugstjóri, f. 6.4. 1983, maki Steingrímur Aðalsteinsson. Börn Gyðu og Steingríms eru Auður, f. 2017, Karen, f. 2018, og Nói, f. 2021. 2) Steinunn Bergs, hjúkrunarfræðingur, f. 25.6. 1985, maki Aron Sigurðsson. Börn Steinunnar og Arons eru Helena, f. 2014, Viktor, f. 2016, og Kári, f. 2018. 3) Hreinn Bergs, viðskiptafræðingur, f. 24.6. 1991, maki Fanney Jóhannesdóttir. Börn Hreins og Fanneyjar eru Jóhanna, f. 2020 og Mikael, f. 2023.

Jón ólst upp í Neskaupstað á athafnaheimili. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1963, hóf nám í lögfræði sama ár og lauk forprófum. Hann lauk prófi til löggildingar í fasteigna- og skipasölu árið 1989 en á námsárum sínum var hann m.a. verkstjóri hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað og framkvæmdastjóri við byggingu nýrrar síldarbræðslu 1965-67. Jón starfaði við fasteignasölu og eignaumsýslu frá árinu 1972. Hann stofnaði og rak eigið fyrirtæki, Fasteignamarkaðinn ehf., frá árinu 1982, var formaður Félags fasteignasala um sex ára skeið og naut virðingar og trausts allan sinn starfsferil. Jón sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áratugi, var formaður húsnæðisnefndar Garðabæjar um tíma og sat í ýmsum nefndum á vegum bæjarins. Hann gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 1983 og var mikill Rótarýmaður. Jón sat í stjórn Viðlagasjóðs 1973-76, í stjórn Íþrótta- og ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ 1984-1990, var formaður byggingarnefndar félagsheimilis Stjörnunnar frá 1989 og var sæmdur lárviðarsveig félagsins.

Útför Jóns fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 10. desember 2024, klukkan 15.

„Kysstu börnin frá mér,“ sagði pabbi með hlýju í röddinni í hvert sinn sem við kvöddumst í síma sem var nánast á hverjum degi. Pabbi sagði alltaf að lífið væri kaflaskipt. Við pabbi gengum saman í gegnum súra og sæta kafla, bara eins og lífið er. Pabbi var bara 49 ára þegar mamma féll frá langt fyrir aldur fram en mér, þá þrettán ára, fannst hann nú samt dálítið gamall. Á þessum árum var ég með mjög sítt hár og mamma ekki lengur þarna til að greiða mér en þá tók pabbi sig til og fléttaði mig á hverjum einasta morgni áður en ég fór í skólann. Honum fannst þetta nú ekkert tiltökumál og sagði að þetta minnti hann bara á gamla daga þegar hann fléttaði kaðla fyrir austan. Á laugardögum réðum við pabbi alltaf saman krossgátuna í Mogganum heima í Hegranesinu. Unglingurinn ég lærði mörg ný og framandi orð og átti þarna gæðastundir með pabba. Við feðginin vorum líka mjög framúrstefnuleg og skráðum okkur í uppskriftaklúbb þegar ég var fjórtán að verða fimmtán, fengum uppskriftirnar sendar í pósti einu sinni í mánuði og töfruðum svo fram dýrindisrétti eftir nákvæmum leiðbeiningum. Pabbi var mikill smekkmaður og vildi hafa allt í stíl eða „sétteringu“ eins og hann kallaði það. Pabbi var líka mjög atorkusamur og mikill baráttujaxl. Honum féll aldrei verk úr hendi. Yfirleitt þegar ég hringdi þá var hann eitthvað að bardúsa, þrífa bílinn, þurrka af og ryksuga, skrúbba svalirnar eða umpotta blómum. Garðurinn í Hegranesinu og lóðin í Skorradalnum voru hans líkamsrækt og hugleiðsla. Pabbi var heppinn að finna ástina tvisvar sinnum í lífinu, fyrst þegar hann kynntist mömmu og svo þegar hann kynntist Jóhönnu. Pabbi og Jóhanna kunnu svo sannarlega að njóta lífsins saman eins og hann og mamma, ferðast um heiminn og hafa gaman. Pabbi var töffari, alltaf svo glæsilegur og flottur í tauinu. Pabbi var mikill veislukall og kunni svo sannarlega að halda góðar og eftirminnilegar veislur. Það var því aldrei neitt mál að fá að halda partí í Hegranesinu, pabba fannst svo gaman að hitta alla vini okkar systkina en iðulega voru vinirnir horfnir úr partíinu okkar því það var svo miklu skemmtilegra að fara upp í stofu og spjalla við pabba sem tók alltaf vel á móti þeim og til í að ræða um heima og geima. Pabbi var líka mikill húmoristi og dálítið stríðinn. Þegar hann var lítill var hann meira að segja í leynifélaginu Rauðu loppunni en æskuvinirnir í Neskaupstað brölluðu ýmislegt saman og áttu það til að hrekkja íbúa á staðnum við misjafnar undirtektir.

Daginn áður en pabbi lést réðum við saman okkar síðustu krossgátu í laugardagsmogganum, í þetta sinn á Líknardeildinni í Kópavogi, það var mjög dýrmæt stund. Ég vildi óska þess að við hefðum átt meiri tíma saman.

Elsku pabbi, þú varst kletturinn minn og kenndir mér svo margt, meðal annars að iðka þakklæti, hafa húmorinn að leiðarljósi, láta rödd mína heyrast og til mín taka. Vera þolinmóð en drífandi og sýna frumkvæði en ekki bíða eftir að aðrir framkvæmi hlutina. Ég er mjög stolt af því og þakklát fyrir að hafa átt svona góðan, hjartahlýjan og flottan pabba eins og þig. Takk elsku pabbi minn fyrir allt og kysstu mömmu frá mér. Við börnin munum sakna þín sárt. Ástarkveðjur, þín Sigga.

Sigríður.

Við systkinin vorum öll á skólaaldri þegar við kynntumst Jóni fyrir 24 árum sem síðar varð eiginmaður móður okkar. Jón var Norðfirðingur í húð og hár, honum þótti alltaf mjög vænt um heimabæ sinn og hafði gaman af að segja okkur sögur af uppvextinum.

Hann var einstakur maður, trúfastur, vitur og viljasterkur. Hann var ofboðslega vinnusamur og fylginn sér, hann efldi og styrkti allt sem hann kom nálægt og uppskar alltaf heiður og lof fyrir öll sín störf. Það var ávallt gott að leita til Jóns enda greiðvikinn, bóngóður með eindæmum og traustur vinur.

Jón var höfðingi heim að sækja og eru okkur minnisstæð áramótaboðin í Hegranesinu þar sem allir voru velkomnir. Þar fylltist húsið iðulega af fólki og var hann hrókur alls fagnaðar og naut sín vel.

Jón og mamma voru samhent hjón og nutu lífsins saman. Það var gaman að fylgjast með þeim þegar þau fluttu í fallegu íbúðina sína í Naustavör. Þau nutu þess sérstaklega að ferðast bæði innanlands og utanlands og var Skorradalurinn í miklu uppáhaldi. Þar naut Jón sín við garðyrkjustörf og skógarhögg. Við systkinin fórum eitt sinn í vinnuferð í Skorradalinn með Jóni og mömmu og þar komu taktar verkstjórans greinilega í ljós og var Jón fljótur að úthluta verkefnum. Grasið var slegið, stígurinn snyrtur, pallurinn lakkaður, hekkið klippt og ekkert gefið eftir. Að loknum vinnudegi bauð hann til veislu með góðum grillmat og huggulegri samverustund því að Jón okkar kunni svo sannarlega að njóta stundarinnar eftir vel heppnaðan vinnudag.

Jón var að okkar mati í sérflokki og við systkinin duttum í lukkupottinn að fá hann inn í líf okkar. Við minnumst Jóns með ást og þakklæti og geymum allar minningarnar í hjörtum okkar. Guð blessi minningu Jóns. Við sendum elsku mömmu og börnum Jóns og barnabörnum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Gyða, Steinunn og Hreinn.

Elsku afi Jón.

Það er erfitt að trúa því að þú sért ekki lengur hjá okkur en minningar um þig mun ég varðveita í mínu hjarta alla ævi. Ég man þegar ég keppti í upplestrarkeppninni og þú hjálpaðir mér að velja ljóð og æfa mig, þú valdir ljóðið Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson sem þér fannst eiga svo vel við. Ég man eftir öllum góðu stundunum í Hegranesinu hjá þér og Jóhönnu. Ég man hvað mér fannst mikið sport þegar ég fékk að sitja með þér í Range Rovernum. Ég man allar skemmtilegu sögurnar sem þú sagðir okkur systkinunum. Ég man eftir stóru hlýju höndunum þínum og hvað það var gott að fá faðmlag frá þér. Ég man þig og mun gera alla ævi. Takk elsku afi minn fyrir að reynast okkur systkinunum og mömmu svona vel. Það mun enginn vera eins og þú. Ég hugsa hlýtt til þín alla daga og veit að þér líður betur núna. Ég sé þig fyrir mér í Skorradalnum á sólríkum sumardegi þar sem þér leið alltaf svo vel. Megir þú hvíla í friði að eilífu. Ég elska þig.

Urð og grjót.

Upp í mót.

Ekkert nema urð og grjót.

Klífa skriður.

Skríða kletta.

Velta niður.

Vera að detta.

Hrufla sig á hverjum steini.

Halda, að sárið nái beini.

Finna, hvernig hjartað berst,

holdið merst

og tungan skerst.

Ráma allt í einu í Drottinn:

„Elsku Drottinn,

núna var ég nærri dottinn!

Þér ég lofa því að fara

þvílíkt aldrei framar, bara

ef þú heldur í mig núna!“

Öðlast lítinn styrk við trúna.

Vera að missa vit og ráð,

þegar hæsta hjalla er náð.

(Tómas Guðmundsson)

Þín

Ásdís Theodóra.

Elsku mágur minn Jón og góður vinur okkar hjóna kvaddi á fallegum haustdegi 17. nóvember sl. Hann var sáttur, æðrulaus og gekk óhræddur til móts við hið ókomna. Það var yndislegt að geta kvatt Jón á líknardeildinni, rifjað upp góðar stundir og okkur var ljóst að hann yfirgæfi þennan heim fullur þakklætis fyrir allt það sem jarðnesk tilvera hafði fært honum.

Jón átti dásamlegt líf með Jóhönnu systur minni en þau gengu í hjónaband árið 2011 og bjuggu fyrstu árin í Hegranesi þar til þau fluttu í glæsiíbúð í Naustavör þar sem þau hreiðruðu fallega um sig eins og þeim einum er lagið með einkar glæsilegu útsýni til sjávar. Þau voru afar samhent, fagurkerar á líf og menningu og ferðuðust víða síðustu ár, oftar en ekki með viðkomu á fallegu heimili sínu á Spáni.

Jón var siðprúður maður, léttur í lundu, ákveðinn og fylginn sér. Hann var snaggaralegur í fasi og það hreinlega sópaði að honum þegar gesti bar að garði, en hann var einstaklega gestrisinn og höfðingi heim að sækja. Ég minnist heimsóknar okkar í Naustavör nú á haustkvöldi þegar hann skyndilega spratt á fætur, þrátt fyrir veikindin, og tók að spila smá lagbút á flygilinn. Það var alltaf stutt í gleðina og mikil reisn yfir Jóni, allt til dauðadags. Jón var ættfróður og talaði vel um fólkið sitt sem hann unni svo mjög. Einnig var hann áhugasamur um þjóðmál og stjórnmál og lét hvergi sitt eftir liggja í þeim efnum. Jón var fagmaður út í fingurgóma og hafði næmt auga fyrir hönnun, list, náttúru og góðri tónlist. Þá var hann mikill grillari og naut sín við þá eldamennsku og þá skipti engu hvort reitt var fram fiskmeti eða glóðaðar stórsteikur. Við hjónin ferðuðumst nokkuð með Jóni og Jóhönnu, bæði hérlendis og erlendis, fórum m.a. til Akureyrar, í veiði við Mývatn, til Þýskalands og oftar en ekki lá leiðin til Kaupmannahafnar á æskuslóðir okkar systra, en þar var sérstaklega gaman að gleðjast þegar rökkva tók á kvöldin í blómlegu mannlífi borgarinnar.

Af hlýhug og virðingu kveðjum við mikinn sómadreng með þakklæti fyrir dygga vináttu og tryggð alla tíð. Megi Guð blessa minningu Jóns og styrkja og umvefja elsku Jóhönnu systur mína og börn þeirra hjóna og barnabörn.

Steinunn Hreinsdóttir.

Við andlát Jóns Guðmundssonar minnumst við bræðurnir góðs vinar og granna á æskuslóðum okkar. Þau Ásdís Þórðardóttir, fyrri kona Jóns, eignuðust börn á svipuðu reki og við. Í gegnum þau kynntust við skemmtilegri og samhentri fjölskyldu. Andlát Ásdísar í blóma lífsins eftir erfið veikindi var reiðarslag. Þau Jón og Margrét móðir okkar gátu þá deilt reynslu af sárum makamissi.

Við þekktum Jón líka sem traustan vin og ráðgjafa í stóru sem smáu, ekki síst í fasteignaviðskiptum þar sem hann haslaði sér völl svo um munaði. Alltaf var hann haukur í horni. Einn okkar getur sagt sögu af leigubílsferð sem Jón borgaði brosmildur eftir að hafa spurt hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir drenginn á þessum tíma nætur; annar minnist stuðnings í framboði og skemmtilegra samræðna um stjórnmál á Norðfirði eða á landsvísu. Alltaf var stutt í glettni og gaman hjá Jóni.

Undir lokin vissi hann í hvað stefndi. Hann var sáttur og mátti vera það. Á seinni hluta lífsleiðarinnar var það lán hans að eignast nýjan lífsförunaut, sjá börnin spjara sig og fylgjast með nýrri kynslóð vaxa úr grasi. Drjúgu dagsverki var skilað og minning lifir um mætan mann. Við færum Jóhönnu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Guðni, Patrekur og
Jóhannes Jóhannessynir.

Andlát vinar míns Jóns Guðmundssonar kom mér á óvart en þó ekki, þar sem hann hafði barist við óvæginn gest árum saman. Nokkrum dögum fyrir andlátið ræddum við saman en þá var ég staddur á Barbados. Jón hafði á orði að honum liði nokkuð vel og bað mig að hafa samband þegar ég kæmi til Miami. Í stað þess að hringja í hann biðu mín þau skilaboð að Jón hefði látist þá um morguninn.

Ég kynntist Jóni fyrst að ráði þegar ég hóf störf hjá Síldarvinnslunni hf. sumarið 1965, þá 16 ára og Jón fimm árum eldri og var hann þá þegar útiverkstjóri á annarri vaktinni. Það eitt sýndi hversu mikils menn mátu Jón fyrir dugnað og atorku. Það má segja um hann að honum féll aldrei verk úr hendi.

Eftir að Jón settist að á suðvesturhorninu og gerðist umsvifamikill fasteignasali hittumst við oft, en sjaldnar eftir að við stofnuðum fjölskyldu. Ásdís kona Jóns lést 1991 aðeins 43 ára gömul. Saman eiga þau þrjú börn sem nú sjá á eftir föður sínum.

Um tíma þegar ég bjó erlendis var samband ekki mikið við þau hjón en stundum var hringt og tekið stutt spjall.

Jón kynntist eftirlifandi konu sinni, Jóhönnu Hreinsdóttur, nokkuð mörgum árum eftir að hann varð ekkill og á svipuðum tíma hóf ég búskap með Stefaníu Júlíusdóttur. Á þessum tíma ákváðum við Jón að hittast að minnsta kosti einu sinni á mánuði og borða saman. Fljótlega bættist í hópinn sem samanstendur af mönnum tengdum Norðfirði og hefur þessi hópur hist um tæplega 20 ára skeið fyrsta þriðjudag í hvers mánaðar. Nú hefur kvarnast úr hópnum við fráfall Jóns en minningu hans verður haldið á lofti.

Á sl. 20 árum höfum við Stefanía notið þess að eiga yndislegar stundir með Jóni og Jóhönnu hvort sem er á Spáni, Tenerife, í Hegranesinu eða í bústað þeirra við Skorradalsvatn.

Á síðasta ári fórum við tíu manna hópur tengdur Norðfirði í siglingu um Miðjarðarhafið. Jón og Jóhanna voru í þessum hópi og þrátt fyrir að öll vissum við að sjúkdómurinn væri farinn að bíta Jón illilega þá naut hann ferðarinnar á allan hátt og var manna kátastur.

Við Stefanía vottum Jóhönnu, börnum og barnabörnum Jóns og hennar og dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Jóns Guðmundssonar.

Þórleifur Ólafsson

Í dag kveðjum við sjálfstæðismenn einn okkar traustasta félaga, Jón Guðmundsson. Með Jóni er fallinn frá einn af kraftmeiri atorkumönnum okkar samtíðar. Jón var farsæll í sínu lífi. Hann hafði sterkar skoðanir og var viljafastur. Jóni voru falin umfangsmikil og vandasöm trúnaðarstörf á ýmsum vettvangi. Öll sín verk vann hann vel og af þess konar myndarskap og festu að eftir því var tekið. Jón var hreinn og beinn í afstöðu sinni til manna og málefna, fylginn sér en þægilegur í öllu viðmóti og lausnamiðaður þegar þess þurfti.

Frá unga aldri var Jón virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var fyrsti varabæjarfulltrúi í Neskaupstað, sat í stjórn SUS og var í framboði fyrir flokkinn á Austurlandi 1971 og 1974. Hann var jafnframt ötull liðsmaður sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ eftir að hann flutti suður; gegndi formennsku í fulltrúaráðinu um árabil auk ýmissa annarra trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Ég hitti Jón í síðasta skipti á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í haust. Hann var sjálfum sér líkur, mættur til að hafa áhrif og leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang flokksins. Það var vinafundur að vanda. Ég minnist þess þegar Jón hringdi í mig árið 2003 og spurði hvort ég fengist til að taka sjötta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Ég kvaðst tilbúinn til þess ef slíkt stæði til boða og vissi ekki fyrr en síðar að Jón hafði tekið nokkurn slag við kollega sína í uppstillingarnefndinni í því skyni að tryggja mér sætið. Fyrir það er ég Jóni afar þakklátur. Reyndist þetta vendipunktur í mínu lífi og hefur það verið mín gæfa æ síðan að vinna á vettvangi stjórnmálanna. Jón var traustur stuðningsmaður og ætíð ráðagóður er ég leitaði til hans.

Við minnumst í dag kærs vinar. Á kveðjustund vil ég þakka Jóni fórnfúst framlag hans í þágu sjálfstæðisstefnunnar og samfélagsins alls. Ég sendi Jóhönnu og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Bjarni Benediktsson.

Fallinn er frá góður vinur, Jón Guðmundsson fasteignasali. Þó svo við Jón værum báðir Norðfirðingar þá kynntumst við ekki fyrr en við vorum báðir farnir að búa á höfuðborgarsvæðinu sem fullorðnir menn. Sem unglingur á Norðfirði vissi ég samt vel af Jóni. Hann var á þeim tíma tengdur pólitíkinni fyrir austan og mikil vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins. Gott orð fór af Jóni og gustaði af honum hvar sem hann fór. Hann var áræðinn, fylginn sér og allra manna duglegastur. Samt fór það nú svo að þegar hann fór til Reykjavíkur til að stunda nám í lögfræði tók lífið aðra stefnu og hann hóf að selja fasteignir sem varð hans ævistarf. Hann stofnaði Fasteignamarkaðinn við Óðinsgötu og starfaði þar til dauðadags. Jón var einstaklega farsæll fasteignasali og vann sér traust ótal umbjóðenda á ferlinum. Norðfirðingar og margir Austfirðingar leituðu til hans, ekki aðeins varðandi fasteignaviðskipti heldur líka til að fá holl ráð um margvísleg efni. Jón hafði alla tíð mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum og var sérlega virkur í félagsmálum í sínu nærsamfélagi, Garðabæ, þar sem hann bjó lengst af.

Jón var höfðingi í lund og og bóngóður með afbrigðum. Minnist undirritaður þess ávallt með þakklæti þegar hann hjálpaði ungum og blönkum hljómsveitarstjóra að halda sína fyrstu tónleika með kammersveit sem hann hafði stofnað. Það var í raun upphafið að langri og góðri vináttu milli okkar Jóns.

Ekki verður skilið við Jón án þess að tala um áhuga hans á listaverkum. Hann eignaðist með tímanum einstakt málverkasafn og sögðum við vinirnir í gamni að hann mældi Kjarvalsverkin í fermetrum.

Í mörg ár höfum við nokkrir gamlir Norðfirðingar hist einu sinni í mánuði á veturna og borðað saman hádegisverð. Þessar samverustundir hafa verið einstaklega gefandi og hefur Jón oftast verið hrókur alls fagnaðar. Að ræða þjóðfélagsmál við Jón var einstaklega áhugavert. Hann var í raun íhaldsmaður af bestu gerð, víðsýnn og stálminnugur. Jóns verður sárt saknað í okkar hópi en minning um góðan vin lifir. Jón var mikill fjölskyldumaður og farsæll í lífi og starfi.

Að ferðalokum sendum við Ólöf Jóhönnu, börnum hans og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Örn Óskarsson.