Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfangsmikilli fræðilegri úttekt á norska laxeldisstjórnunarkerfinu sem birt var í vísindatímaritinu Reviews in Aquaculture.
Í fréttatilkynningu vegna greinarinnar segir að „ónákvæmni í núverandi regluverki um framleiðslu á atlantshafslaxi í Noregi leiðir líklega til ofmats á áhrifum laxalúsar á villtan atlantshafslax. Enn fremur er ályktað að hægt væri að bæta nákvæmni og notagildi kerfisins sem leiðarvísis við ákvarðanatöku um verndun villtra laxa með því að nýta betur þegar tiltækar rannsóknarniðurstöður og tryggja að gögnin og forsendurnar endurspegli best núverandi stöðu vísindalegrar þekkingar.“
Ófullnægjandi gögn
Nýtt eftirlitskerfi, svokallað umferðarljósakerfi (TLS), var innleitt í Noregi árið 2017 og var markmiðið að stjórna vexti laxeldis út frá áætluðum áhrifum laxalúsar úr fiskeldi á lifun villtra atlantshafslaxa.
Laxalús er sníkjudýr sem lifir í sjó og nærist á roði, slími og blóði og hefur lifað saman með villtum laxfiskum í milljónir ára. Laxalús hefur fengið aukna athygli á undanförnum áratugum þar sem fiskeldisstöðvar veita sníkjudýrinu hagstæð skilyrði til að fjölga sér.
Í vísindagreininni eftir Solveig van Nes, Albert Kjartan Dagbjartarson Imsland og Simon R.M. Jones kemur fram að ekki sé hægt að mæla áhrif laxalúsar sem rekja má til eldis og að það sé erfitt að greina þann þátt frá öðrum sem kunna að hafa áhrif á villta laxastofna. Þess vegna byggist TLS-kerfið á athugunargögnum sem miðar við lús skráða á fiski á sama landsvæði og líkanagögnum sem eiga að gefa mynd af lúsaálagi á sýndargöngu ungra laxa, til að leggja mat á neikvæðum áhrifum á villta laxastofna.
Úttekt fræðimannanna sýnir mikla ónákvæmni í TLS-kerfinu sem þeir telja líklegt að valdi því að áhrif laxalúsar á villtan lax séu ofmetin.
Mikilvægar breytur
„Til stuðnings þessum niðurstöðum var framkvæmd rýni á birtum rannsóknarniðurstöðum í vísindatímaritum sem sýna fram á ósamræmi í tengslum milli lúsamagns á fiski í fiskeldisstöðvum og sýkingar villtra fiska á nærliggjandi svæðum, sem og takmörkuð eða engin tengsl við stofnvirkni villtra laxastofna,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að „ofmat á neikvæðum áhrifum laxalúsar frá fiskeldisstöðvum gæti haft öfug áhrif á verndun villtra laxa þar sem aðrar mikilvægar breytur í lifun laxa gætu því verið vanmetnar.“ Telja vísindamennirnir mikilvægt að unnið verði að úrbótum á TLS-kerfinu norska svo hægt verði að vernda villta laxastofna og tryggja bætta stjórnun fiskeldisins í Noregi.