Keflavík Marek Dolezaj sækir að körfu Tindastóls í sigri Keflvíkinga á Sauðkrækingum í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í gærkvöldi.
Keflavík Marek Dolezaj sækir að körfu Tindastóls í sigri Keflvíkinga á Sauðkrækingum í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í gærkvöldi. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóst er hvaða lið leika til átta liða úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta en síðustu fimm leikir sextán liða úrslitanna fóru fram í gærkvöldi. Liðin átta eru bikarmeistarar Keflavíkur, Valur, KR, Njarðvík, Stjarnan, Álftanes, Haukar og Sindri, …

Körfuboltinn

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Ljóst er hvaða lið leika til átta liða úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta en síðustu fimm leikir sextán liða úrslitanna fóru fram í gærkvöldi. Liðin átta eru bikarmeistarar Keflavíkur, Valur, KR, Njarðvík, Stjarnan, Álftanes, Haukar og Sindri, sem er eina liðið í átta liða úrslitum sem leikur ekki í úrvalsdeildinni.

Keflavík vann Tindastóll í annað sinn á þremur dögum í Keflavík en leikar enduðu 81:70 í gær. Keflavík var sterkari aðilinn mestallan leikinn en liðið gekk á lagið í fjórða leikhluta og sigldi sigrinum heim. Ty-Shon Alexander var atkvæðamikill í liði Keflavíkur en hann skoraði 19 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hjá Tindastóli skoraði Dedrick Deon Basile 15 stig.

Sannfærandi sigrar

Álftanes, Haukar og Stjarnan unnu öll sannfærandi sigra á sínum mótherjum. Álftanes pakkaði Snæfelli saman, 106:66, en Grikinn Dimitrios Klonaras átti stórleik fyrir Álftnesinga. Hann skoraði 21 stig, tók 18 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Þá skoraði Andrew Jones 26 stig en David Okeke skoraði 21.

Haukar voru afar sannfærandi í Smáranum en liðið vann Breiðablik með 30 stigum. 109:79. Í liði Hauka skoraði Steven Jr. Verplancken 19 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Topplið úrvalsdeildar karla, Stjarnan, fór þá illa með Þór Þorlákshöfn í Þorlákshöfn en Stjörnumenn unnu 27 stiga sigur, 108:81.

Stjarnan var yfir mestallan leikinn en munurinn var sjö stig fyrir fjórða leikhluta, 78:71,

Stjörnumenn gengu hins vegar almennilega á lagið í fjórða leikhluta, skoruðu 30 stig gegn tíu og unnu sannfærandi sigur.

Í liði Stjörnunnar var Ægir Þór Steinarsson atkvæðamestur með 25 stig, tvö fráköst og ellefu stoðsendingar en Hilmar Smári Henningsson og Jase Febres skoruðu 17 stig hvor.

Sindramenn halda þá heiðri B-deildarinnar uppi en liðið vann KV, 87:77, á Höfn í Hornafirði. Sindri hefur farið vel af stað í B-deildinni og heldur góðu gengi sínu áfram með því að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum. Donovan Fields átti stórleik fyrir Sindra en hann skoraði 24 stig og gaf átta stoðsendingar.

Höf.: Jökull Þorkelsson