Elías Elíasson
Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku og orkuskipti standa yfir. Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar. „Ekki er öll vitleysan eins,“ var stundum haft á orði fyrir vestan. Er ekki betra að ræða hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin?
Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun. Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns sem er ríkið meðan framkvæmdir eru litlar. Það er þó ekki svo að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti þegar þeim lýkur, við taka viðhaldsfjárfestingar sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir.
Orkugeirinn
Orkugeirinn var markaðsvæddur fyrir áratugum og má mikla reynslu lesa úr þeirri sögu. Þar riðu Bretar á vaðið og var þá sagt að Margaret Thatcher væri að knésetja kolanámumennina en sannleikurinn mun hafa verið sá að verið var að losa um bundið fé í orkugeiranum, en fyrir dyrum stóðu mikil orkuskipti frá kolum yfir í gas. Árangurinn lét ekki á sér standa, fjárfestingar í gasveitum og -orkuverum uxu verulega. Einkavæðing þessi breiddi hratt úr sér en sams konar orkuskipta var ekki alls staðar þörf svo orkufyrirtæki þeirra landa, t.d. Svíþjóðar og Frakklands, fóru að fjárfesta út um alla Evrópu og allt til Austurlanda fjær.
Hér á landi standa yfir orkuskipti sem eru afar mikilvægt verkefni. Það tryggir aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun sem við getum ráðist í hér á landi. En orkuverin sem við þurfum að reisa verða dýrari en þau sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug og eina hagkvæma orkugeymslan sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna. Til að nýta þau þannig þurfum við jafn mikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram. Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafn stórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi. Það getur orðið dýr orka. Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.
Þetta segir okkur að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda. Nú þarf að athuga hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði best varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn? Hvernig væri að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf
Sjávarútvegur
Hvað sjávarútveginn varðar þá greiðir hann nú þegar auðlindagjald sem mörgum þykir smátt í sniðum. Það er erfitt að tryggja að háar greiðslur af þessu gjaldi fari saman við hátt markaðsverð afurðanna. Því vilja margir fremur afkomutengja gjöldin eins og skatt af hagnaði.
Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt hagrætt gífurlega. Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir og bætti það um betur. Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála. Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum sem allt bar ávöxt. Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki eins og Marel og Kerecis. Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna.
Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni. Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum. Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira?
Að lokum
Sumum finnst það mikið réttlætismál að auðlindagjöld séu innheimt af nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Réttlætið er afar misjafnt frá sjónarhóli einstaklinga og breytilegt með tíma að auki. Það er því ekki góður mælikvarði þegar um er að ræða tilfærslur fjármagns milli hinna ýmsu geira þjóðfélagsins með eða án milligöngu hins opinbera. Árangur þessara tilfærslna kemur hins vegar fram í velsæld landsmanna og samkeppnisstöðu þjóðarinnar út á við og þar höfum við fjárhagslega mælikvarða til að leggja mat á hlutina. Er ekki rétt að kíkja á hvernig best er að haga þessum tilfærslum áður en auðlindagjöld er gerð að viðamikilli tekjulind ríkissjóðs?
Höfundur er verkfræðingur.