[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nauðsynlegt er að tjónþolum í líkamstjónamálum verði aftur í fyrstu atrennu heimilt að afla álits örorkunefndar eða annars stjórnvalds um varanlegar afleiðingar líkamstjóns síns.

Steingrímur Þormóðsson, Þormóður Skorri Steingrímsson og Fjölnir Vilhjálmsson

Allt frá innreið amerískra glæsifáka og rússajeppa hér til landsins á síðustu öld hafa Íslendingar verið mikil bílaþjóð. Í áraraðir hefur bílaeign mælst hér á landi með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Einn
af fylgifiskum einkabílsins er sá mikli fjöldi slysa sem verða í umferðinni ár hvert. Samkvæmt
opinberum tölum á vefsíðu Samgöngustofu hafa á þessu ári yfir fimm hundruð manns hlotið
meiðsli í slysum í umferðinni.
Þar af hafa átta manns látið lífið.

Sá sem verður fyrir því óláni að slasast í umferðinni stendur frammi fyrir því viðfangsefni að sækja sér bætur úr hendi vátryggingafélags. Sem skilyrði fyrir greiðslu bóta þarf tjónþoli að sanna líkamstjón sitt í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Óhætt er að fullyrða að afar mikilvægt er fyrir tjónþola að afla réttra og nægra gagna til sönnunar á tjóni sínu, að öðrum kosti kann tjónþoli að bera skarðan hlut frá borði.

Árið 1999 var sú grundvallarbreyting gerð á framkvæmd líkamstjónamála hér á landi að tjónþolum var gert heimilt að afla einhliða mats á afleiðingum líkamstjóna sinna samkvæmt bótaþáttum skaðabótalaga með svokölluðu „utanréttarmati“, í stað þess að snúa sér beint til örorkunefndar eða dómstóla. Var þessi breyting gerð á skaðabótalögum sökum þess gífurlega málafjölda sem hvíldi á herðum örorkunefndar sem matsaðila á „fyrsta stigi“.

Þrátt fyrir þessa skýru heimild í ákvæðum skaðabótalaga hefur framkvæmdin verið sú hér á landi að við uppgjör skaðabóta eru 90% af líkamstjónamálum hér á landi afgreidd með svokölluðum „sameiginlegum utanréttarmötum“ þar sem tjónþoli og vátryggingafélag standa sameiginlega að mati á afleiðingum slyss tjónþola.

Sú ástæða sem ef til vill skýrir þessa framkvæmd er að það getur reynst verulega kostnaðarsamt fyrir tjónþola að biðja einhliða um slík mat. Koma sérfræðilæknar og lögfræðingar að slíkum mötum sem hafa mikla reynslu af gerð slíkra matsgerða. Getur því kostnaður við öflun slíkra matsgerða verið á bilinu 700.000 krónur til ein milljón.

Kann það að varða tjónþola miklu að fá vátryggingarfélag „með sér í lið“ við öflun matsins enda greiðist þá matskostnaður strax úr hendi vátryggingarfélagsins. Kemst tjónþoli hjá stórum fjárútlátum í tilefni mats sem oftar en ekki býr við skertar tekjur vegna slysáverka sinna.

Gagnstætt því þegar hin „löglega leið“ er farin þar sem tjónþoli sjálfur hlutast til um að afla mats á varanlegum afleiðingum slyss síns, er í yfirgnæfandi tilvikum svo að viðkomandi vátryggingarfélag mótmælir því að tjónþoli færi sönnur á tjón sitt með þeim hætti. Leggur vátryggingafélagið til að sú leið verði farin að standa í sameiningu að mati með tilteknum matsmönnum sem félagið telur sér þóknanlega. Að öðrum kosti verði kostnaður vegna matsins ekki greiddur.

Hvað sem líður mikilli andstöðu tryggingarfélaga hafa Lögmenn Árbæ slf. alla jafnan farið þá leið að biðja einhliða um mat á afleiðingum líkamstjóns hjá hlutlausum matsmönnum en ekki þeim matsmönnum sem helst hafa talist þóknanlegir vátryggingarfélögunum. Með það að augnamiði að tjónþolar fái líkamstjón sitt að fullu bætt.

Það er einnig svo að dómstólar hafa dæmt á þá leið að verði einhliða mati tjónþola ekki hnekkt með áliti örorkunefndar eða mati dómkvaddra matsmanna, beri viðkomandi vátryggingarfélagi að greiða bætur á grundvelli hins einhliða sótta mats. Þá mynda slík möt mikilvægan grundvöll fyrir áframhaldi slíkra mála og geta jafnvel skipt sköpun um hver verði útkoma síðari matsgerða sem kann að vera aflað í máli viðkomandi tjónþola.

Við teljum að þetta fyrirkomulag, að afgreiða líkamstjónamál, s.s. vegna umferðarslysa, með sameiginlegri „utanréttarmatsgerð“ tjónþola og vátryggingarfélags, þjóni ekki fyllilega hagsmunum tjónþola. Stjórnar þá vátryggingarfélag að miklu leyti hvernig sönnun sé færð fyrir líkamstjóni sem samræmist ekki sönnunarbyrði tjónþola í líkamstjónamálum.

Að mati okkar kann það ekki góðri lukku að stýra fyrir tjónþola að sami aðili og skyldur er til að greiða bætur stjórni því að verulegu leyti hvernig tjónþoli færir sönnur á tjón sitt. Það blasir við að hagsmunir tjónþola og tryggingarfélags fara ekki saman.

Í ljósi þeirrar röksemda sem hér hafa verið raktar teljum við að nauðsynlegt sé að tjónþolum í líkamstjónamálum verði aftur í fyrstu atrennu heimilt að afla álits örorkunefndar eða annars stjórnvalds um varanlegar afleiðingar líkamstjóns síns, án viðhlutamikils kostnaðar. Í þeim efnum ber að skýra laga- og starfsgrundvöll örorkunefndar með setningu
nýrra laga og reglugerðar. Að
sama skapi kann það að vera nauðsynlegt að fjölga nefndarmönnum til að varna því að óhóflegur dráttur verði á afgreiðslu þeirra mála berast nefndinni. Enn fremur verði kveðið skýrt á um það í lögum og reglugerð að nefndarmönnum verði gert skylt að rökstyðja í áliti nefndarinnar hvernig líkamstjón tjónþola er fært undir tiltekna liði miskatöflu nefndarinnar. Gerir nefndin það ekki í dag.

Er þessi tillaga ein af þeim l
eiðum sem fær er til þess að
leysa þá pattstöðu sem komin
er upp við framkvæmd líkamstjónamála hér á landi og treysta réttarstöðu tjónþola með því að auka samræmi við mat á líkamstjónum og lækka kostnað fyrir tjónþola.

Höfundar eru lögmenn.