Sýrland Stórtækar vinnuvélar, auk handafls, voru notaðar til þess að brjóta múra og gólf í Saydnaya-fangelsinu í grennd við Damaskus í Sýrlandi í gær.
Sýrland Stórtækar vinnuvélar, auk handafls, voru notaðar til þess að brjóta múra og gólf í Saydnaya-fangelsinu í grennd við Damaskus í Sýrlandi í gær. — AFP/Adbulaziz Ketaz
Fangar tóku að streyma út úr Saydnaya-fangelsinu í grennd við Damaskus í Sýrlandi í gær er ljóst var að einræðisherra landsins, Bashar al-Assad, væri flúinn til Moskvu í Rússlandi. Vopnaðir menn brutu upp lása á fangelsinu, sem sagt er eitt það…

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Fangar tóku að streyma út úr Saydnaya-fangelsinu í grennd við Damaskus í Sýrlandi í gær er ljóst var að einræðisherra landsins, Bashar al-Assad, væri flúinn til Moskvu í Rússlandi. Vopnaðir menn brutu upp lása á fangelsinu, sem sagt er eitt það alræmdasta um þessar slóðir, og hefur stundum verið kallað sláturhús.

„Hvað er að gerast?“ spurði hver fanginn á fætur öðrum er þeir losnuðu út úr fangelsinu. Í myndskeiði sem tekið var upp þegar fangelsið var opnað má heyra mann segja: „Þú ert frjáls. Komdu út. Þetta er búið. Bashar er farinn. Við unnum hann,“ heyrist einn segja.

Á myndum af fangaklefum í Saydnaya-fangelsinu sjást engin húsgögn.

Saydnaya-fangelsið er ekki eitt sinnar tegundar í Sýrlandi. Að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar (SHOR) hafa meira en 100 þúsund manns látist í fangelsum Assads síðan stríð braust út árið 2011 og hafa mannréttindasamtökin Amnesty International kallað fangelsið sláturhús fyrir fólk. Um götur Damaskusborgar ráfar nú fjöldinn allur af fólki sem dvalið hafði í Saydnaya-fangelsinu og leitar fjölskyldna sinna og ástvina, en borgin er um 30 kílómetra frá fangelsinu.

Ekki er einfalt að brjóta fangelsisveggina og hófust menn handa strax á sunnudag við að reyna að komast inn. Talið er að fangelsið nái nokkrar hæðir niður í jörðina, þannig taki hver kjallarinn við af öðrum. Og óvíst er hvort allir séu þegar lausir úr fangelsinu.

„Það eru hundruð, jafnvel þúsundir fanga, sem eru enn á annarri og þriðju hæð undir húsinu. Á bak við rafmagnslása og rammlæstar dyr,“ sagði Charles Lister hjá Mið-Austurlandastofnuninni í Washington DC við AFP-fréttastofuna.

Hvítu hjálmarnir, sýrlensk björgunarsveit, segjast enn vera að leita að neðanjarðarklefum í fangelsinu. „Við reynum eins og við getum en við finnum ekki enn merki um fanga í kjöllurum og völundarhúsum,“ sagði Raed Saleh leiðtogi björgunarsveitanna í færslu á X. Sveitin býður þrjú þúsund dala laun þeim sem geta hjálpað við að finna leynilega klefa í fangelsinu.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir