60 ára Zsuzsanna er frá Szeged, sem er þriðja stærsta borg Ungverjalands. Hún fór að læra á píanó sex ára gömul, fór til framhaldsnáms til Búdapest 18 ára og lauk þar meistaranámi við tónlistarakademíuna Ferencs Liszt

60 ára Zsuzsanna er frá Szeged, sem er þriðja stærsta borg Ungverjalands. Hún fór að læra á píanó sex ára gömul, fór til framhaldsnáms til Búdapest 18 ára og lauk þar meistaranámi við tónlistarakademíuna Ferencs Liszt. Síðan kenndi hún bæði við tónlistarskóla og háskóla þar. Árið 1991 fluttist hún til Ísafjarðar, fór að kenna í tónlistarskólanum þar og stjórnaði kirkjukórnum í Súðavík. „Vinkona mín, Beata Joó, sem er núna búin að eiga heima á Íslandi í 40 ár, benti mér á þetta starf og þess vegna kom ég hingað. Við maðurinn minn og eins árs gamall sonur okkar áttum síðan heima í Súðavík en lentum í snjóflóðinu þar. Við fluttum þá í Borgarnes og ég kenndi þar í meira en 20 ár síðan 2020 höfum við búið í Kópavogi.“

Hún kennir núna við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og einn dag í viku á Akranesi. Svo er hún kórstjóri og organisti í Saurbæjarprestakalli í Hvalfirði. „Við önnumst þrjár kirkjur, í Innra-Hólmi, Leirá og Hallgrímskirkju í Saurbæ.“

Zsuzsanna fylgist mikið með stjórnmálum, sérstaklega í Ungverjalandi. „Ég fylgist með á hverjum einasta degi, það eru alltaf einhverjar uppákomur þar. Victor Orban stjórnar þar með harðri hendi en er að gera alla vitlausa og við erum búin að fá nóg af honum.“

Zsuzsanna hefur líka mikinn áhuga á eldamennsku. „Ég elda mest ungverska rétti en er líka opin fyrir íslenskri matargerð og hvaðanæva úr heiminum.“

Fjölskylda Eiginmaður Zsuzsönnu er Einar Kristján Magnússon, f. 1962, frá Súðavík, vinnur í íþróttahúsunum í Kópavogi. Þau eru búin að vera saman frá 1993. Börn þeirra eru Magnús Daníel, f. 1993, Einar Gilbert, f. 1998, og Alexandra Freyja, f. 2004. Foreldrar Zsuzsönnu voru Alexander Budai leigubílstjóri og Helena Balog, hjúkrunarfræðingur og starfaði alla tíð á dvalarheimili. Þau eru bæði látin.