Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Hljómur kórorgelsins er einstakur og blæbrigðin ótalmörg eftir endurbygginguna. Þegar hljóðfæri er nærri altari kirkju þar sem kórinn stendur skapast gott samband við söfnuðinn sem þannig fær hvatningu til þess að syngja. Slíkt auðgar og gefur helgihaldi vídd,“ segir Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Höfuðkirkja Evrópu
Nýlega var Frobenius-kórorgel kirkjunnar helgað eftir miklar breytingar sem á því voru gerðar. Hljóðfæri þetta var í aðalhlutverki í kirkjunni frá árinu 1985 og fram til 1992 þegar stóra Klais-pípuorgelið var tekið í notkun. „Í flestum höfuðkirkjum Evrópu, eins og Hallgrímskirkja sannarlega er, eru tvö orgel. Stórt konsertorgel í vesturenda og kórorgel í austurenda við altarið – eins og nú er orðið hjá okkur. Frobenius-kórorgelið er fallega hljómandi – og nú betur en nokkru sinni fyrr þegar röddum þess hefur verið fjölgað úr 10 í 20 og hentar einstaklega vel sem meðleikshljóðfæri,“ segir organistinn.
Endurgerð og stækkun kórorgelsins er helguð minningu sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar en 350 ára ártíð hans var í ár, 2024. Gripurinn var sendur til smiðju Frobenius í Birkeröd í Danmörku. Völundar þar bættu við gripinn því sem þurfti og þótti takast vel upp. Allt hefur þetta líka eflt tónlistarlíf í kirkjunni.
„Nú um helgina var Karlakór Reykjavíkur með árlega aðventutónleika hér. Þar heyrðist vel hve miklu skiptir að hafa stórt kórorgel í kirkjuskipinu. Kirkjan ómar öll, eins og Stefán frá Hvítadal orti í jólasálmi,“ segir Björn Steinar. Hann er organisti og tónlistarstjóri við Hallgrímskirkju; skipuleggur viðburði með Steinari Loga Helgasyni kórstjóra og starfsfólki kirkjunnar, auk þess að vera sjálfur gjarnan við hljóðfærið.
Umfangsmikið starf
„Starfið hér er umfangsmikið. Messa alla helga daga ársins og alls eru um 40 tónleikar á ári og þar nefni ég auk aðventu- og jólatónleika kirkjunnar meðal annars Orgelsumar í Hallgrímskirkju og má nefna að tónleikagestir í fyrra voru um 10.000. Þetta eru ótrúlegar tölur,“ segir Björn Steinar.
Á aðventu er eitthvað um að vera í Hallgrímskirkju flesta daga. Í tónleikadagskrá fram að jólum ber hátt viðburðinn Syngjum jólin inn sem verður kl. 17 þann 22. desember. Þar koma fram kórar Hallgrímskirkju og Langholtskirkju og Graduale Nobili. Auk þess gefst kirkjugestum kostur á að syngja jólasálmana með kórunum. Biskup Íslands og prestar kirknanna lesa úr ritningunni.
Hátíðarstemning í loftinu
Á annan dag jóla flytur Björn Steinar eitt af mögnuðustu orgelverkum 20. aldarinnar, La Nativité du Seigneur eða Fæðingu Frelsarans eftir franska tónskáldið Olivier Messiaen. Tónleikadagskrá kirkjunnar lýkur svo með einum af vinsælustu tónleikum ársins, Hátíðarhljómum við áramót.
„Messurnar eru fjölsóttar og þá sérstaklega á hátíðum. Að vera við hljóðfærið á aðfangadagskvöld er einstök tilfinning, það er við aftansöng og svo miðnæturmessu þegar hvert sæti í kirkjunni er skipað. Hátíðarstemningin liggur í loftinu – og raunar er hún alltaf ríkjandi í þessari einstöku kirkju þangað sem koma hundruð þúsunda gesta á ári hverju,“ segir Björn Steinar að síðustu.