Við störf Margir sem taka út lífeyri vilja vera virkir á vinnumarkaði.
Við störf Margir sem taka út lífeyri vilja vera virkir á vinnumarkaði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Íslendingar eru í hópi þeirra Evrópuþjóða þar sem stór hluti íbúa sem komist hafa á eftirlaun heldur áfram að vinna samhliða því að fá greiddan eftirlaunalífeyri. Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt samanburð þar sem kannað var á…

Íslendingar eru í hópi þeirra Evrópuþjóða þar sem stór hluti íbúa sem komist hafa á eftirlaun heldur áfram að vinna samhliða því að fá greiddan eftirlaunalífeyri. Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt samanburð þar sem kannað var á síðasta ári hversu stór hluti íbúa í Evrópulöndum á aldrinum 50 til 74 ára hélt áfram störfum á vinnumarkaði á fyrstu sex mánuðunum eftir að þeir hófu að taka út lífeyri. Í ljós kemur að í löndum Evrópusambandsins héldu að meðaltali 13% fólks á þessum aldri áfram að vinna eftir að greiðsla eftirlauna hófst. 64,7% hættu að vinna en 22,4% voru ekki á vinnumarkaði þegar þeir byrjuðu að fá eftirlaun.

Á Íslandi héldu 42,3% íbúa á þessum aldri áfram að vinna eftir að þeir hófu að taka úr eftirlaunalífeyri. 33% ákváðu á hinn bóginn að láta af störfum. 24.2% héldu óbreyttu starfi sínu og starfshlutfalli á vinnumarkaði og þáðu jafnframt lífeyrisgreiðslur en 18,1% minnkaði við sig vinnu eða gerði aðrar breytingar á störfum sínum.

Aðeins þrjú lönd eru fyrir ofan Ísland í þessum samanburði á fjölda þeirra sem halda áfram að vinna samhliða töku eftirlauna en það eru Eystrasaltslöndin þrjú. Er Eistland þar efst á lista en þar í landi héldu 54,9% íbúa á þessum aldri áfram að vinna eftir að þeir fóru að fá greiddan lífeyri. Í Lettlandi er hlutfallið 44,2% og 43,7% í Litháen.

Fæstir halda hins vegar áfram störfum á vinnumarkaði eftir að þeir komast á eftirlaun í Rúmeníu eða 1,7%, í Grikklandi er hlutfallið 4,2% og 4,9% á Spáni samkvæmt samanburði Eurostat.

Í öðrum norrænum löndum leiðir samanburðurinn í ljós að 37,3% Norðmanna 50 til 74 ára sem hófu töku eftirlauna hættu störfum á vinnumarkaði en 20,9% héldu áfram í fullri vinnu samhliða eftirlaunagreiðslunum. Í Svíþjóð er hlutfall þeirra sem hættu að vinna 47% og í Danmörku 67,2%.

Eftirlaunaaldur er mjög mismunandi eftir löndum í Evrópu. Ekki eru birtar upplýsingar um á hvaða aldri íbúar landanna geta byrjað að þiggja eftirlaunalífeyrisgreiðslur. Hins vegar er leitað svara við því af hverju íbúar ákváðu að halda áfram að vinna eftir að eftirlaunaaldri var náð. Stærsti hópurinn eða 36,3% að meðaltali í löndunum sagði ástæðuna vera þá að þeir nytu þess að vera í vinnu eða vildu halda áfram að leggja sitt af mörkum, 28,6% héldu áfram á vinnumarkaði af fjárhagsástæðum. Á Íslandi sagði um helmingur þeirra sem héldu áfram að vinna að meginástæðan væri ánægja sem þeir hefðu af starfinu eða þeir vildu leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði. omfr@mbl.is