Pétur Traustason fæddist 6. mars 1959 í Reykjavík. Hann lést á sjúkrahúsi í Danmörku 23. október 2024.
Hann var annar í röð sjö systkina sammæðra. Foreldrar hans eru Þórunn Jónsdóttir, f. í Þykkvabæ 15. janúar 1939, og Trausti Pétursson, f. í Reykjavík 28. apríl 1937, þau skildu. Alsystkini: Sigurbjörg Jóna hómópati, f. 21. janúar 1958, maki Ágúst Friðgeirsson húsasmíðameistari, f. 24. janúar 1956, Jón Þór bifreiðasmíðameistari, f. 13. maí 1960, d. 21. apríl 2013, maki Díana Særún Sveinbjörnsdóttir, f. 8. júlí 1961. Systkini sammæðra: Guðmundur, f. 18. febrúar 1966, d. 7. apríl 1967, Elín Valdís lögfræðingur, f. 5. janúar 1968, maki Rögnvaldur Guðmundsson verktaki, f. 25. janúar 1966, Gróa Guðbjörg geislafræðingur, f. 18. mars 1969, maki Óttar Már Ellingsen iðnrekstrarfræðingur, f. 21. mars 1969, og Steinþór Darri, húsasmíðameistari og slökkviliðsmaður, f. 18. júlí 1970, maki Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur, f. 5. júní 1971. Systkini samfeðra: Alda María, f. 21. október 1964, maki Karl Haraldur Gunnlaugsson, f. 26. júlí 1959, og Einar Steinþór, f. 1. janúar 1966, maki Sigrún Hjartardóttir, f. 11. september 1958.
Fósturfaðir Péturs var Þorsteinn Guðbjörnsson málari, f. 5. júlí 1941, hann lést af slysförum 5. júlí 1982 á Sandskeiði.
Synir Péturs eru: 1) Þorsteinn Fannberg, f. 26. maí 1983, börn hans eru Victoría, f. 17. maí 2011, Benjamín, f. 20. september 2012, og Ragnar, f. 13. janúar 2024. 2) Snorri Þór, f. 15. nóvember 1990. 3) David, f. 26. maí 1995.
Pétur vann ýmis störf til sjávar og sveita. Hann fór í Iðnskólann í húsasmíði eftir hefðbundna skólagöngu og lauk síðar meistaranámi í húsasmíði. Árið 1994 flutti hann til Danmerkur og bjó þar til æviloka.
Minningarathöfn verður haldin í Lindakirkju í dag, 10. desember 2024, klukkan 15.
Elsku Pésinn minn.
Fallegi brúneygði bróðir minn og vinur. Númer tvö í röðinni af okkur sjö systkinum. Nú ertu farinn á betri stað, laus við allar þjáningar og hefur sameinast bræðrum okkar, Nonna og Guðmundi. Hvað er hægt að skrifa við þessar aðstæður? Það kemur margt upp í hugann. Margar góðar minningar og öll hlátursköstin. Þú varst svo ótrúlega fyndinn, sást alltaf broslegu hliðarnar á öllu, alveg sama hvað var. Ef ég var fúl þá horfðir þú á mig og sagðir: „Bara heimskautanótt núna.“ Svo þegar það leið hjá þá var komin „grenjandi hamingja“. Þú áttir það líka til að vera stríðinn. Ég var ekki alltaf sátt við það þegar þú varst að stríða mér. Ég man sérstaklega eftir einu skipti. Þá bjuggum við saman í risinu hjá ömmu og afa. Þú áttir bíl en ég ekki. Ég var ólétt og hafði platað þig til að keyra mig í búðina. Þegar ég kom út með pokana og gekk að bílnum og var að teygja mig í bílhurðina til að opna, þá keyrðir þú af stað svo ég varð að hálfhlaupa á eftir bílnum. Þetta gerðir þú nokkrum sinnum þar til ég var orðin alveg sjóðandi. Þá stoppaðir þú loks og hleyptir mér inn í bílinn og þú auðvitað skellihlæjandi. Þú varst ótrúlega hæfileikaríkur. Flinkur að teikna og skera út. Fljótur að læra alla söngtexta þurftir bara að heyra lag einu sinni þá kunnir þú textann. Oftar en ekki varstu búinn að snara enska textanum yfir á íslensku. Þú varst líka snyrtipinni. Þurftir að láta pússa skó og strauja skyrtur áður en þú fórst á djammið. Eftir að þú fluttir til Danmerkur voru samskiptin að mestu í símtölum. Þá talaðir þú oft um strákana þína sem þú kallaðir alltaf gullin þín. Ég stríddi þér á þessu og sagði þig vera væminn. Þú hlóst bara og sagðir að þú hefðir orðið væminn með aldrinum. Þú varst barngóður og hafðir líka alltaf gott lag á dýrum, hvort sem það voru hestar eða kindur, hundar eða kettir. Mamma sagði mér frá einu atviki þegar þú varst hjá henni fyrir norðan í sauðburðinum. Þá tókstu eftir kind sem virtist vera eitthvað óróleg. Þú fórst að athuga með hana og sást að hún var að bera og stóð löpp á lambinu út úr henni og sást aðeins í höfuðið. Þú reyndir að ná henni en það gekk ekki. Þá hættir þú að elta hana, settist bara niður og beiðst. Það leið ekki að löngu þar til kindin kom til þín og lagðist hjá þér. Þá gastu hjálpað henni og náðir lambinu úr henni.
Núna eruð þið sameinaðir bræðurnir, þú og Nonni. Þið voruð miklir vinir og áttuð margar góðar stundir saman, að veiða og skjóta. Og ekki má gleyma jeppaferðum upp um fjöll og firnindi.
En lífið þitt var ekki alltaf dans á rósum. Áföllin sem þú upplifðir settu mark sitt á líf þitt og voru sum erfiðari en önnur. Þessi áföll settu sár á sálina þína sem aldrei greru. Sumt talaðir þú um og annað ekki. Ég mun alltaf sakna þín elsku Pétur minn, en veit að núna ertu laus við allar þjáningar og frjáls að öllu leyti.
Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til mömmu, sona þinna og systkina okkar.
Hvíl í friði, elsku Pétur bróðir.
Þín systir
Sigurbjörg Jóna.