Norska kvennalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar, er komið í undanúrslit á Evrópumótinu eftir sigur á Þýskalandi, 32:27, í Vínarborg í gærkvöldi.
Norska liðið er með fullt hús stiga eða átta í milliriðli tvö eftir sigurinn en Þjóðverjar eru með aðeins tvö stig og mæta Sviss í síðasta leik sínum á morgun. Þá mætir Noregur Slóveníu í síðasta leik sínum í riðlinum, en þrátt fyrir það er norska liðið búið að vinna riðilinn. Henny Ella Reistad var markahæst í liði Noregs með níu mörk.
Baráttan um annað sætið er á milli Hollands og Danmerkur en bæði lið unnu sína leiki í gær. Holland hafði betur gegn Sviss, 37:29, en Danmörk vann Slóveníu, 33:26.
Bæði lið hafa verið sannfærandi í sínum leikjum það sem af er móti og voru sigrar þeirra í gær aldrei í hættu. Hjá Hollandi skoraði Zoë Sprengers mest eða sjö mörk en í liði Danmerkur skoraði Elma Halilcevic mest eða sex mörk.
Bæði lið eru með sex stig í öðru og þriðja sæti milliriðils tvö en þau mætast einmitt í úrslitaleik á morgun um hvort liðið fylgir Noregi í undanúrslitin. Sigurliðið mun enda í öðru sæti riðilsins. Tapliðið mun enda í þriðja sæti og keppa um fimmta sætið við liðið sem endar í þriðja sæti í milliriðli 1.
Í dag er lokaumferðin í milliriðli eitt en bæði Ungverjar og Frakkar hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum og munu mætast. Tapliðið úr þeim leik mætir stöllum Þóris í öðrum undanúrslitaleiknum.