Hulda Björnsdóttir þykir sérlega sparneytið skip með 2.380 KW hæggenga aðalvél, öflugan gír og niðurfærslu niður stóra skrúfu.
Hulda Björnsdóttir þykir sérlega sparneytið skip með 2.380 KW hæggenga aðalvél, öflugan gír og niðurfærslu niður stóra skrúfu. — Ljósmynd/Roberto Tolin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er svo sem lítið búið að gerast. Hulda er búin að vera þrjá daga á veiðum síðan skipið kom. Þegar hún átti að fara á veiðar núna síðast kom upp leki í ofnakerfinu uppi í brú. Þá var ákveðið að bíða þar til búið væri að lagfæra það.“ Þetta…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Það er svo sem lítið búið að gerast. Hulda er búin að vera þrjá daga á veiðum síðan skipið kom. Þegar hún átti að fara á veiðar núna síðast kom upp leki í ofnakerfinu uppi í brú. Þá var ákveðið að bíða þar til búið væri að lagfæra það.“

Þetta segir Hrannar Jón Emilsson, útgerðarstjóri Þorbjarnar í Grindavík, spurður hvernig hafi gengið eftir að Hulda Björnsdóttir GK-11 hélt til veiða.

Hulda er nýr ísfisktogari sem kom til landsins um miðjan október. Skipið er 58 metra langt og 13,6 breitt og mun vera fyrsta nýsmíðin sem Þorbjörn ræðst í síðan 1967.

Þegar Morgunblaðið náði tali af Hrannari hafði Hulda nýlokið prufutúr þar sem veiðarfæri, spil og millidekk voru prófuð. Hann segir að þrátt fyrir lekann í ofnakerfinu hafi öll helstu kerfi virkað sem skyldi.

Skipið dregur nafni sitt af Huldu Björnsdóttur, sem stofnaði fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum Tómasi Þorvaldssyni, en Þorbjörn gerir þegar út togara sem ber nafn hans, Tómas Þorvaldsson GK-10.

Taki tíma að slípa kerfin til

„Skipið er að skríða af stað, ef svo mætti segja, en í fyrsta túrnum klikkaði allt sem klikkað gat á millidekkinu. Í næsta túr þar á eftir gekk betur en þó brösuglega fyrst en lagaðist þegar leið á prufutúrinn,“ segir Hrannar.

Hann segist aðspurður aldrei hafa búist við öðru en að það tæki tíma að slípa til öll kerfin sem stýra veiðarfærum, spilum og millidekkinu.

„Ég geri ráð fyrir að við myndum teljast heppnir ef allt er farið að virka eftir sex mánuði. Hins vegar, þrátt fyrir þessa þrjá daga á veiðum, eru öll kerfi farin að snúast ágætlega og eftir áramót byrjum við að fínstilla og ég reikna með að það verði eitthvað fram á næsta ár. Hins vegar erum við núna í þessum grófstillingum á skipinu. Það er að segja láta hlutina snúast og fara að virka eðlilega,“ segir Hrannar.

Einstaklega gott sjóskip

Spurður hvort það hafi verið látið reyna almennilega á nýja skipið í sjó svarar hann að bragði að það sé lyginni líkast hvað Hulda sé gott sjóskip.

„Menn verða alltaf gáttaðri og gáttaðri á hvað Hulda er gott sjóskip. Stýrimaðurinn sem fór í síðustu veiðiferð og fer núna í þessa sem skipstjóri áttaði sig allt í einu á því í síðasta túr að Hulda var á stíminu með 20 m/s í andlitið á sér. Engu að síður sigldi skipið á 11 og hálfri sjómílu og sló samt ekki af. Stýrimaðurinn sagðist ekki finna fyrir því þrátt fyrir að vera að keyra skipið í mikilli ölduhæð og mótvindi. Það sem meira er: skipið lét ekkert vita þrátt fyrir þessar aðstæður,“ segir Hrannar léttur í bragði.

Hann segir alla sem hafa farið túr með Huldu á einu máli um að skipið sé einstaklega gott í sjóinn sama hvernig viðrar.

„Þeir segjast alls ekki finna fyrir neinu veðri í skipinu, en þeir verða samt að passa sig á henni því skipið ber svo vel af sér í sjónum. Það verður að gæta að því að fara ekki með skipið á of mikla ferð í vondu veðri,“ segir Hrannar.

Spurður nánar um aflabrögð fyrstu túranna segir hann að karfi hafi verið keyrður í gegnum millidekkið og stefnan sé sett vestur í bolfiskblöndu.

„Við höfum ekkert verið að fara langt út fyrstu túrana. Það hefur aðallega karfi farið enn sem komið er í gegnum millidekkið. Næst er hugmyndin að fá góða blöndu af bolfiski svo hægt sé að fara að prófa kerfið, sem hefur fram til þessa verið keyrt með einni tegund. Við ætlum að reyna að veiða þá aðallega þorsk, ýsu og annan bolfisk,“ segir Hrannar.

Einstaklega sparneytið skip

Hann segir að það verði nóg að gera hjá áhöfninni næstu túra að stilla öll nýju kerfin, enda státar skipið af nýjustu tækni í meðhöndlun sjávarafurða.

„Þegar Hulda byrjar að veiða meira af bolfiski þarf að stilla kælitímann á þorski, ýsu og ufsa og svo framvegis. Í næstu veiðiferðum ætlum við að fiska meira af svona blöndu sem er eiginlega næsta skref hjá okkur,“ segir Hrannar.

Hann segir að meginkerfi skipsins hafi virkað mjög vel hingað til sem skiptir mestu máli þegar verið er að prófa ný skip.

„Það sem skiptir mestu máli í þessu er að öll helstu kerfin hafa fyrstu túrana virkað einstaklega vel. Til að mynda svínvirkaði strax í fyrstu veiðiferðinni tveggja trolla kerfið. Þá virkuðu öll spil, það er að segja grandaraspil og hjálparspil, án vandræða,“ segir Hrannar.

Aðspurður segir hann olíueyðsluna mjög litla á skipinu þrátt fyrir að vera með tvö troll aftan í sér.

„Í fyrstu veiðiferðunum höfum við séð að Hulda eyðir 250-300 lítrum á klukkustund, á skipi sem getur dregið tvö stór troll. Það er svipuð eyðsla og á hinum togara okkar, Tómasi Þorvaldssyni GK-10, og það verður að segjast að það er ansi góð eyðsla,“ segir Hrannar að lokum.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson