Laugalækjarskóli Í Laugalækjarskóla eiga börn í 5.-7. bekk að stunda nám, en unglingarnir verða í nýjum skóla.
Laugalækjarskóli Í Laugalækjarskóla eiga börn í 5.-7. bekk að stunda nám, en unglingarnir verða í nýjum skóla. — Morgunblaðið/sisi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að byggja nýjan unglingaskóla í Laugardal og falla þar með frá fyrri ákvörðun um að byggja við skólana þrjá sem í hverfinu eru; Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Þetta var samþykkt með atkvæðum fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn, gegn atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.

Mikill kurr hefur verið meðal foreldra skólabarna í hverfinu vegna þessara áforma borgaryfirvalda sem nú hafa raungerst og hafa á annað þúsund íbúar í hverfinu mótmælt þeim. Ætlunin er að 1.-4. bekkur verði í Laugarnesskóla, 5.-7. bekkur í Laugalækjarskóla, 1.-7. bekkur í Langholtsskóla og að byggður verði nýr unglingaskóli í dalnum.

Á fundinum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, þau Marta Guðjónsdóttir og Helgi Áss Grétarsson, fram bókun þar sem framangreindri niðurstöðu meirihlutans var harðlega mótmælt.

„Um langt skeið hefur framganga meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur gagnvart starfsfólki, foreldrum og nemendum í skólasamfélaginu í Laugardal litast af svikum. Þetta eru stór orð en því miður sönn,“ segir í bókuninni.

„Tilkoma Framsóknarflokksins í meirihlutasamstarfið vorið 2022 hefur ekki breytt mynstri aðgerðarleysis og vanefndra loforða. Eftir undirskriftasöfnunina Stöndum vörð um skólana í Dalnum, ákvað borgarstjórn í október 2022 að byggja við grunnskólana þrjá í stað þess að nýr unglingaskóli yrði reistur í hverfinu. Þessi leið, að byggja við Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla, var valin til að mæta langvarandi þörf. Svikum meirihlutans við að útfæra þá leið hefur víða verið lýst,“ segir í bókun þeirra Mörtu og Helga Áss.

Rifjað er upp að þegar upplýst var um áform borgaryfirvalda um byggingu eins framhaldsskóla í hverfinu hafi íbúar í Laugardalnum efnt til undirskriftasöfnunar á nýjan leik undir yfirskriftinni „Verndum skólaumhverfi í Laugardal“. Á annað þúsund manns skrifuðu undir þá áskorun, líkt og hina fyrri, þar sem krafist var að verðmætum sem felast í farsælli menningu skólanna og mannauði þeirra yrði mætt af virðingu og íbúalýðræði yrði virt við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu skólanna í Laugardal.

Segja þau Marta og Helgi Áss að með samþykkt tillögunnar sé borgarstjórnarmeirihlutinn „að halda áfram að skora pólitísk sjálfsmörk í Laugardalnum“.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson