Klæðskerinn Hassan rekur klæðaskerastofu á Hverfisgötunni og hefur myndað góð tengsl hérlendis og segist vera orðinn mikill Íslendingur.
Klæðskerinn Hassan rekur klæðaskerastofu á Hverfisgötunni og hefur myndað góð tengsl hérlendis og segist vera orðinn mikill Íslendingur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Bæði pabbi og mamma eru búin að hringja í mig eftir að Assad flúði frá Sýrlandi,“ segir Hassan Shahin, klæðskerinn geðþekki sem hefur skapað sér líf hér á Íslandi ásamt konu sinni og rekur saumastofu á Hverfisgötu í Reykjavík.

„Foreldrar mínir og bróðir eru í Sýrlandi og núna ríkir mikil óvissa í landinu. Þegar foreldrar mínir hringdu sögðu þau að það vissi enginn hvað myndi gerast næst, en þau væru að vonast til að ástandið yrði betra. Eins og staðan er í dag er allt í upplausn.“

Sýrlenskir uppreisnarmenn náðu valdi á höfuðborginni Damaskus á sunnudaginn sem olli því að forsetinn Bashar al-Assad fór í felur og flúði til Rússlands. Á sama tíma og Hassan segir að flestir Sýrlendingar séu ánægðir yfir að Assad hafi verið hrakinn frá völdum sé samt beygur í mörgum yfir hvað taki við, ekki síst í ljósi stríðsátakanna á svæðinu.

„Það er ómögulegt að spá um framhaldið. Allar svona breytingar í stríðshrjáðu landi vekja ótta hjá íbúunum því það er mjög erfitt að búa við algjöra óvissu og vita ekki hvenær lífið getur farið að verða eðlilegt. Stríðið í Sýrlandi er ekkert venjulegt stríð heldur. Inn í þetta stríð tengjast Rússland, Bandaríkin, Tyrkland og Íran og fleiri og enginn veit í rauninni hvernig ástandið verður í Sýrlandi eftir fall Assads.“

Hassan segir að allar fréttir af átökum í Sýrlandi séu sér erfiðar, því þeir sem hafa flúið frá landinu vegna stríðsátaka beri alltaf ör á sálinni sem veki erfiðar tilfinningar. Hann segir þó að staðan veki von hjá mörgum. „Ef þessi nýi her mun koma á betra skipulagi og betri stjórn gæti staðan orðið betri í Sýrlandi, en það er bara rúmur sólarhringur síðan Assad flúði, svo þetta er allt mjög óljóst.“

Hassan, sem flúði frá Sýrlandi árið 2012, hefur búið á Íslandi í sjö ár og samlagast landinu vel. Hann segist vera orðinn mikill Íslendingur, hefur kynnst mörgum hérlendis og gengur vel. „Mér hefur verið vel tekið hérna á Íslandi og ég segi núna að Íslendingar séu fjölskyldan mín.“