Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Til stendur að undirrita nú í janúar samninga um samstarf Skipstjórnar- og Véltækniskóla Tækniskólans og SIMAC – Svendborg International Maritime Academy í Danmörku. Samningur þessi og innihald hans munu leiða af sér breytingar í þróun náms í skipstjórn og vélstjórn hér á landi enda er litið svo á að SIMAC sé meðal fremstu skóla á sínu sviði í Evrópu.
„Með þessu samstarfi færumst við enn nær því besta á þessu sviði. Segja má að við hoppum beint í meistaradeildina án milliriðla ef við líkjum þessu við íþróttir. Að bjóða upp á gott nám í skipstjórn og vélstjórn felur í sér margar áskoranir. Nemendahópurinn er tiltölulega lítill í ekki fjölmennara landi en Ísland er. Alþjóðlegar kröfur til námsins eru miklar, sem og kröfur til tækjabúnaðar og endurnýjunar hans,“ segir Víglundur Laxdal Sverrisson skólastjóri og heldur áfram:
„Nám í þessum greinum er skemmtilegt og áhugavert, og býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika að námi loknu. Síðast en ekki síst er námið mikilvægt fyrir íslenskt samfélag, til að tryggja fiskveiðar, vöruflutninga, samgöngur og ferðaþjónustu til sjós. Þá sinna vélfræðingar mjög mikilvægum störfum í iðnaðar- og orkugeiranum. Því er mjög mikilvægt að vanda til verka og tryggja stöðuga þróun námsins.“
Kennt er undir stífum alþjóðlegum kröfum
Skipstjórnar- og vélstjórnargreinarnar eru kenndar undir stífum kröfum IMO – Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og undir eftirliti EMSA – Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og Samgöngustofu. Þessar stofnanir gera reglulegar úttektir á starfi skólans til þess að ganga úr skugga um að verið sé að uppfylla þá staðla sem IMO setur.
Í dag býðst við Skipstjórnar- og Véltækniskólann nám í vél- og skipstjórn sem skiptist í stig, það er A til D. A-stig gefur minnstu réttindin og D-stig gefur ótakmörkuð réttindi. Lengd eða vélarstærð skipa segir til um hvaða stigi einstaklingur þarf að hafa lokið til að mega starfa við sitt fag á viðkomandi skipi, tiltekur Víglundur.
„Svo verður að halda því til haga að nám í skólunum einskorðast ekki eingöngu við skip. Atvinnutækifæri í landi eru síst færri og þá sérstaklega í vélstjórn. Nemendur á C-stigi ljúka stúdentsprófi samhliða fagnámi skipstjórnar og vélstjórnar. Eftir það tekur svo við lokaár sem gefur D-stig en það nám er á 4. þrepi menntunar og flokkast því sem háskólastig. En þó svo sé, gefur 4. þreps-hlutinn einungis framhaldsskólaeiningar í dag. Þær telja því alla jafna ekki til eininga í háskólum hyggi nemendur á frekara nám þar.“
Faggreinar færast á háskólastig
Víglundur segir nágrannalöndin bjóða upp á nám í skipstjórn og vélstjórn sem fellur undir sömu alþjóðlegu kröfur og námið hér heima. Nám ytra sé þó alla jafna kennt á háskólastigi og ljúka nemendur því bachelor-gráðu samhliða alþjóðlegu réttindanámi í vélstjórn og skipstjórn. Til margra ára hefur verið rætt um það hér heima að fylgja þessu fordæmi nágrannalandanna og færa að minnsta kosti efsta stig þessara faggreina á háskólastig. Og nú stendur til að hefja undirbúning þess með vegferð sem hafin er. Fulltrúar Tækniskólans hafa átt samtöl við háskóla innanlands sem enn eru í þróun. Þar að auki hafa átt sér stað viðræður við SIMAC-háskólann í Danmörku um leiðsögn og aðstoð við að færa fagnámið og starfið upp á háskólastig.
SIMAC, sem er staðsettur í Svendborg, menntar nemendur í skipstjórn og vélstjórn. Um 900 nemendur eru í skólanum og rétt um 100 starfsmenn. Þar fer fram mikil rannsóknarvinna sem Tækniskólinn mun njóta góðs af til framtíðar.
„Eins hef ég grun um að rannsóknir þeirra muni teygja sig á norðlægar slóðir. Slíkt væri ávinningur Dananna af gagnkvæmu samstarfi að þeirra sögn,“ segir Víglundur. „Þær rannsóknir munu væntanlega skapa tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk Tækniskólans. SIMAC aðgreinir sig frá öðrum háskólum á þessu sviði með mikilli áherslu á verklega kennslu samhliða bóknámi. Slíkt samræmist vel stefnu Tækniskólans um nám í greinunum.“
Vænta mikils af samvinnu
Síðastliðin ár hefur Tækniskólinn átt samstarf við SIMAC í formi námskeiða. Samningur sá sem nú liggur tilbúinn til undirritunar felur í sér fimm ára samkomulag um leiðsögn og aðstoð við að lyfta náminu á háskólastig.
„Þetta er tímamótasamningur fyrir kennslu í skipstjórn og vélstjórn. Væntur ávinningur Tækniskólans er mikill og mikilvægur í ljósi hraðrar þróunar í faggreinunum tveimur. En fyrir utan áðurnefnd markmið er ávinningurinn síst minni af samstarfi um þróun námsefnis, þjálfun kennara, þjálfun kennaranema sem og að möguleiki opnast fyrir nemendur að sækja skiptinám til Svendborgar. Þetta samstarf við SIMAC er risastórt framfaraskref. Framtíð vélstjórnar- og skipstjórnarnáms hér á landi er björt í höndum Tækniskólans með stuðningi SIMAC-háskólans og í góðri samvinnu við háskóla hér heima,“ segir Víglundur Laxdal Sverrisson.