Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Mikið var gaman að fá kveðju frá Birgi Guðjónssyni vegna kveðskapar sem varð til hjá Geir H. Haarde og Halldóri Blöndal á kosningafundi í Grímsey um hafnargarðinn þar og birtist í Vísnahorninu á föstudaginn var. „Í eynni réði lengi lögum og lofum Alfreð Jónsson, f. 1919, d. 2015. Hann var t.d. oddviti, flugvallarstjóri og barnakennari. Margir kölluðu hann Jarlinn,“ skrifar Birgir.
„Ég var lengi starfandi í ráðuneyti samgöngumála og var Alfreð í nánum tengslum við ráðuneytismenn eðli málsins samkvæmt. Við vildum aðstoða í grjótleysinu og setti þáverandi ráðuneytisstjóri Ólafur Steinar Valdimarsson því saman hugmynd að breytingu á hafnarreglugerðinni:
Sérhvert fljótandi far,
sem fer til Grímseyjar í var,
skal sem skatt í einn brjót
skaffa Jarlinum grjót.
Það hefði e.t.v. orðið sú hafnarbót sem Halldór Blöndal taldi þörf á.“
Einnig barst kveðja frá Ingólfi Ómari Ármannssyni, sem gaukar að Vísnahorninu tveimur vísum. Tilefnið er að það hefur snjóað syðra og styttist í jólin.
Hvítur máni silfrar sund
sveipar töfrum fjöllin.
Fellur rótt á freðna grund
fannhvít jólamjöllin.
Emja hnípin ýlustrá
orpin klakahjúpi.
Stjörnublikið stafar frá
stirndu himindjúpi.
Jón Jens Kristjánsson reiðir fram hátíðarbrag:
Nálgast hátíðin ný og forn
nú þarf að ryksuga sérhvert horn
og skara í gömlum glæðum
loga í gluggum ljós um kvöld
líka á himninum stjarna fjöld
blikar í hæstu hæðum
Besta æti á borð er reitt
brasað og hitað, salt og feitt
framleitt í fyllstu gæðum
fylgir með ýmist þarfaþing
þá græða sumir blóðþrýsting
mældan í hæstu hæðum
Heldur versnandi heimur fer
hollt er að geyma í muna sér
kunnáttu í kristnum fræðum
laufgast að nýju lífsins tré
lakast að Nóa konfekt sé
á verði í hæstu hæðum