Valur S. Thoroddsen fæddist í Kvígindisdal við Patreksfjörð 5. febrúar 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi, 19. nóvember 2024.
Valur var sonur hjónanna Þórdísar M. Thoroddsen og Snæbjarnar J. Thoroddsen. Systkini Vals voru Jón, f. 8.1. 1924, d. 9.1. 1924, Jón, f. 10.2. 1925, d. 20.2. 1925, Sigurlína, f. 10.2. 1925, d. 24.2. 1925, Atli, f. 14.4. 1926, d. 29.1. 2004, Alda, f. 14.4. 1927, Sigurlína Jóna, f. 3.4. 1929, Elfa, f. 3.11. 1936, d. 11.6. 2009, Frúgit, f. 29.9. 1938, d. 17.4. 2014.
Eiginkona Vals var Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir frá Láganúpi í Rauðasandshreppi, f. 13.12. 1928, d. 28.2. 2008. Hún var dóttir hjónanna Hildar Magnúsdóttur og Guðbjarts Guðbjartssonar. Börn Vals og Henríettu Fríðu eru: 1) Eyrún Jóna Guðmundsdóttir, dóttir Henríettu Fríðu, d. 7.5. 2000. 2) Sigurjón Haukur, maki Ragnhildur Kristín Einarsdóttir. 3) Hildur, maki Hörður Sigurðsson. 4) Snædís, maki Ólafur Elfar Sigurðsson. 5) Anna Guðbjört, maki Árni Magnússon. 6) Magnús, maki Guðrún Margrét Ásgeirsdóttir.
Valur ólst upp hjá foreldrum sínum í Kvígindisdal. Hann keypti búið af þeim og var bóndi í Kvígindisdal þar til að hann flutti í Borgarnes árið 2004. Samhliða búrekstrinum vann hann einnig ýmis önnur störf, m.a. var hann um tíma umsjónarmaður Patreksfjarðarflugvallar. Á búskaparárunum tók Valur þátt í margskonar félagsstarfi í sveitinni og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Eftir að hann flutti í Borgarnes tók hann virkan þátt í ýmsu félagsstarfi þar.
Útför hans verður gerð frá Háteigskirkju í Reykjavík í dag, 10. desember 2024, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni.
Stytt slóð:
https://mbl.is/go/fsmep
Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
(Tómas Guðmundsson)
Elsku pabbi, nú er komið að leiðarlokum. Við kveðjum þig með söknuði og trega, en um leið þökkum við allar þær dýrmætu stundir sem við áttum með þér. Þú vildir ekki lofræður og langar sögur um hvað þú hefðir gert um ævina, þú varst sá sem vann verk sín í hljóði og varst ævinlega trúr því sem þér var falið að sinna eða þú hafðir tekið að þér að sjá um. Þú varst ekki maður margra orða, vildir heldur láta verkin tala.
Við kveðjum þig með þessum orðum:
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Valdimar Briem)
Haukur, Hildur,
Snædís, Anna, Magnús og fjölskyldur.
Elsku afi okkar. Það er erfitt að sætta sig við að þú sért farinn frá okkur en það yljar um hjartarætur að vita að nú séuð þið amma sameinuð aftur. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar ömmu í sveitina og fá að verja tíma með ykkur þar, og seinna meir í Borgarnesi eftir að þið fluttuð þangað. Þú fylgdist alltaf svo vel með okkur og vildir fá að vita hvað við værum að bralla hverja stund. Það verður skrítið að stoppa ekki í kaffi hjá þér næst þegar við förum í gegnum Borgarnes en minningar um gott spjall yfir kaffibolla og jólaköku munu lifa með okkur um ókomin ár.
Þínar afastelpur,
Þórdís, Herdís og Arndís.
Mig langar með nokkrum orðum að minnast Vals. Hann var ein af stærri persónum í mínu lífi, ásamt konu hans, henni Henriettu Fríðu eða Lillu eins og hún var alltaf kölluð. Ég á þeim gríðarlega mikið að þakka því segja má að þau hafi bjargað lífi mínu á unglingsárum mínum.
Forsagan af kynnum okkar var sú að þegar ég var á tólfta ári vorið 1958 var ég sendur í Breiðuvík vegna mjög slæmra fjölskylduaðstæðna. Eftir að hafa dvalið í Breiðuvík um allnokkurt skeið við mjög misgóðar aðstæður, þá kom Björn Loftsson forstöðumaður Vistheimilisins í Breiðuvík að að máli við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að fara til hans Vals í Kvígindisdal og vinna hjá þeim hjónum við handlang. Valur var þá að fara að láta múra nýja íbúðar húsið og vantaði handlangara.
Ég komst að því síðar að 17. júní þetta sumar þegar við strákarnir í Breiðuvík vorum á skemmtun sem fram fór í Félagsheimilinu í Örlygshöfn þá hafi Björn komið að máli við Val um það hvort það væri einhver möguleiki á að hann gæti tekið stálpaðan dreng til sín í Kvígindisdal til sumardvalar. Valur tók vel í það og sagði jafnframt að hann vantaði aðstoð við múrara sem unnu við að múra nýja húsið. Björn sagði Vali tveir drengir væru í Breiðuvík sem ættu alls ekki að vera þar, því þeir væru ekki svokallaðir vandræðadrengir, heldur hefðu þeir verið sendir til Breiðuvíkur vegna mjög slæmra fjölskylduaðstæðna. „Vilt þú ekki bara fá þá í sumarvinnu hjá þér?“ Valur sló til og við fórum daginn eftir í Kvígindisdal og þar tóku þessi yndislegu hjón, Valur og Lilla, á móti okkur með hlýjum faðmlögum og ég verð að segja að ég var ekki vanur að vera faðmaður af mínum foreldrum, því miður. Þessar móttökur Vals og Lillu eru enn ljóslifandi í minningunni eftir öll þessi ár.
Við hófum að aðstoða múrarana við múrverkin en er því lauk í júlílok fór hinn drengurinn aftur til Breiðuvíkur en ég varð eftir hjá Val og Lillu og fór ekki til Reykjavíkur fyrr en í byrjun október.
Ég var endalaust að læra hin ýmsu handbrögð þegar við Valur vorum saman, ég elti hann eins og skugginn og fylgdist mjög náið með öllu því sem hann tók sér fyrir hendur.
Um sumarið fórum við Valur á Rauðasand til að heyja flatirnar neðan við húsið í Saurbæ, en mér skilst að Valur hafi leigt þessar túnflatir af þingmanninum Sigurvini Einarssyni sem átti þá Saurbæ. Við fluttum slægjuna heim í Kvígindisdal og dreifðum á heimatúnin. Ég fór einnig með Val í göngur í september og hafði einstaklega gaman af, þar hittum við marga sveitunga Vals.
Valur og Lilla höfðu náð samkomulagi við Björn Loftsson og Barnaverndarnefnd Reykjavíkur um að ég myndi fara aftur til þeirra í Kvígindisdal næsta vor. Þegar Valur og Lilla spurði mig hvort ég væri ekki til í að koma til þeirra aftur að vori, svaraði ég um leið já!! Lilla kom til mín og knúsaði mig og ég man hvernig Valur brosti eins og hann gerði gjarnan þegar honum líkað við eitthvað.
Ég var samtals í þrjú sumur hjá Val og Lillu, kom til þeirra í byrjun maímánaðar og fór alltaf suður í byrjun október. Eftir að ég fót til Reykjavíkur var ég alltaf í sambandi við þau.
Valur og Lilla auðguðu líf mitt á mjög margan hátt þann tíma sem ég var hjá þeim í Kvígindisdal. Ég á mikin fjársjóð af yndislegum minningum sem ég þreytist aldrei á að rifja upp.
Elsku Valur hafðu þökk fyrir allt og allt og hvíldu í Guðsfriði.
Einar D.G. Gunnlaugsson.