Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Vísindamenn hins virta háskóla Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Bandaríkjunum og Háskólans í Bergen í Noregi segjast hafa fylgst með samspili þorsks og loðnu þegar loðnan á suðurleið til hrygningar mætir þorskinum úti af Noregi.
Með því að nýta bergmálsmælingar og sérstaka myndgreiningartækni gátu þeir séð hvernig loðnur byrjuðu að hópast saman og mynduðu risavaxna torfu sem spannaði tugi kílómetra. Þorskurinn á svæðinu speglaði þessa hegðun og myndaði eigin torfu. Þorskarnir réðust síðan á loðnuna og áætla vísindamennirnir að hann hafi á stuttum tíma lagt sér til munns um helming loðnutorfunnar, um 10 milljónir loðna.
Fjallað er um rannsóknina í greininni „Rapid predator-prey balance shift follows critical-population-density transmission between cod (Gadus morhua) and capelin (Mallotus villosus)“ sem birt var nýverið í vísindatímaritinu Nature Communications Biology.
Viðkvæmari loðna
Í færslu um rannsóknina á vef MIT er fullyrt að um sé að ræða stærsta afránsatburð sem mældur hefur verið, bæði hvað varðar fjölda einstaklinga (fiska) og með tilliti til þess svæðis þar sem atburðurinn átti sér stað.
Talið er ólíklegt að þessi atburður hafi haft mikil áhrif á loðnustofninn þar sem torfan sem fylgst var með hafi aðeins verið um 0,1 prósent af loðnustofninum í Barentshafi. „Hins vegar, þar sem loftslagsbreytingar valda því að norðurskautsísinn minnkar, verður loðnan að synda lengra til að hrygna. Þetta veldur loðnunni streitu og gerir hana viðkvæmari fyrir náttúrulegum afránsatburðum eins og þeim sem hópurinn fylgdist með,“ að því er segir í færslunni.
Bent er á að loðnan er mikilvæg fæðutegund fyrir fjölda fiskistofna, þar á meðal þorsk. Það sé því mikilvægt að halda úti virkum mælingum og þá með gögn í slíkri upplausn að hægt sé að greina staka fiska á stórum svæðum.
„Við sjáum að stór náttúrulegur afránsatburður getur breytt jafnvæginu milli rándýrs og bráðar á nokkrum klukkustundum. Þetta er ekki vandamál fyrir heilbrigða stofna með marga dreifða undirstofna eða með fleiri vistfræðilega heita reiti. En þar sem þessum heitu reitum fækkar vegna loftslagsbreytinga og álags af mannavöldum gæti náttúrulegur afránsatburður – eins og sá sem við urðum vitni að – af undirstöðutegund haft gríðarmiklar afleiðingar fyrir tegundir sem eru háðar henni,“ er haft eftir Nicholas Makris, prófessor í véla- og hafverkfræði við MIT.
Samverkandi þættir
Á grundvelli þessara nýju upplýsinga um það hvernig þorskurinn tekur á móti loðnunni á miðunum út af Noregi má ætla að svipaðir atburðir eigi sér stað á Íslandsmiðum. Ósvarað er þó spurningunni um hvort svona atburðir valdi hinum miklu sveiflum í loðnustofninum hér við land.
Eitt er þó víst, loðnan verður fyrir bæði afráni þorsks, manna og hvala. Óljóst er þó hvernig þessir þættir spila saman og líklega ómögulegt að meta með nákvæmum hætti hvaða þáttur vegur mest.