Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Tilhugsunin um fjögur íslensk landslið á stórmótum í þremur stóru boltaíþróttunum á næsta ári er ansi spennandi.
Karlalandsliðið í handknattleik tekur þátt á HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi og kvennalandsliðið í knattspyrnu fer á EM 2025 í Sviss.
Í körfunni er karlalandsliðið komið í góða stöðu þar sem liðið þarf einn, jafnvel engan, sigur til þess að komast á EM 2025 á Kýpur, í Finnlandi, Póllandi og Lettlandi.
Þá vonast maður til þess að kvennalandsliðið í handknattleik fylgi eftir þátttöku á tveimur stórmótum í röð með því að komast á það þriðja á HM 2025.
Möguleikarnir á því eru ansi góðir þó ekki liggi fyrir hverjum Ísland mætir í tveimur leikjum í apríl í umspili um sæti á HM. Það kemur í ljós þegar dregið verður næstkomandi sunnudag að yfirstandandi Evrópumóti loknu.
Ísland er í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn og gefur það auga leið að það hjálpar mikið til enda sleppur liðið við að mæta nokkrum af sterkustu þjóðum Evrópu.
Bakvörður hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja íslenskum keppendum á tvö stórmót á undanförnum mánuðum; fyrst á Ólympíumóti fatlaðra í París og svo EM 2024 í handknattleik kvenna í Innsbruck í Austurríki.
Hjá íþróttafréttamönnum er fátt skemmtilegra en að fylgja íþróttafólki eftir á stórmótum, þegar erfiðið er búið að bera ávöxt og möguleiki á því að gera enn betur á stærsta sviðinu.
Tvö stórmót staðfest, vonandi bætast tvö við. Á þeim líður litlu þjóðinni með stóra íþróttahjartað best.