Skatturinn Heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar var framlengd.
Skatturinn Heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar var framlengd. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fjölmargar nýjar umsóknir hafa að undanförnu borist á vefnum leidretting.is um skattfrjálsa ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaláns og til úttektar á uppsöfnuðum séreignarsparnaði við kaup og öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota

Fjölmargar nýjar umsóknir hafa að undanförnu borist á vefnum leidretting.is um skattfrjálsa ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaláns og til úttektar á uppsöfnuðum séreignarsparnaði við kaup og öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Alþingi samþykkti á dögunum framlengingu á þessu úrræði til ársloka á næsta ári en það átti að óbreyttu að renna út um næstkomandi áramót.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Skattinum voru nýjar umsóknir um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu inn á lán sem tekin hafa verið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, síðustu dagana í nóvember á bilinu 14 til 29 á dag. Fyrstu dagana í desember, þ.e. frá 1.-5. dags mánaðarins, hafa umsóknir verið á bilinu 4-62 á dag.

Samtals bárust 280 umsóknir um nýtingu séreignarsparnaðarins á ellefu dögum frá 25. nóvember til 5. desember sl. Þetta úrræði var upphaflega lögfest á sínum tíma vegna leiðréttingar á fasteignalánum.

Í svari frá Skattinum er bent á að þeir sem þegar eru að nýta sér umrætt úrræði og eru þannig með virka umsókn á leidretting.is þurfa ekki að aðhafast neitt ef þeir vilja halda nýtingunni áfram á árinu 2025. Vilji viðkomandi á hinn bóginn hætta ráðstöfuninni þá þarf að láta vita af því á leidretting.is. Að öðrum kosti heldur ráðstöfun inn á höfuðstól fasteignalánsins áfram.

Viðmiðunarfjárhæðir eru áfram þær sömu og verið hefur. Í báðum tilvikum getur árleg hámarksfjárhæð einstaklings numið 500 þúsund kr. á almanaksári. Hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, takmarkast heimildin við að hámarki alls 750 þúsund kr. á almanaksári. omfr@mbl.is