Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Tvær vikur eru þar til fjölskyldur þessa lands safnast saman í stofum sínum og skiptast á gjöfum í tilefni jóla. Gjarnan er það gert í kringum eða nærri jólatrjám.
Mjög algengt er að fólk kjósi að hafa gervijólatré uppi við um jólin en ef marka má niðurstöður úr könnun Maskínu frá því í desember á síðasta ári setja 55% heimila upp slík fjölnota tré, tæp 29% lifandi jólatré og rúm 16% setja ekki upp jólatré yfir hátíðirnar.
Jólatré komu fyrst til sögunnar í Þýskalandi á seinni hluta 16. aldar í kjölfar siðaskiptanna og breiddist siðurinn að hafa jólatré á heimilum fyrst út meðal mótmælenda.
Um miðja 19. öld sáust fyrstu jólatrén á Íslandi, heimasmíðuð því þá uxu grenitré ekki villt hér á landi, en um miðja 20. öld fóru lifandi grenitré að verða almenn á Íslandi, í fyrstu innflutt en í kringum 1970 komu íslensk grenitré á markað.
Mjög stöðug framleiðsla
Jón Ásgeir Jónsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, segir markaðinn af lifandi jólatrjám á Íslandi telja um 40 þúsund grenitré og að innlend tré séu um fjórðungur markaðarins. Segir Jón Ásgeir íslenska framleiðslu hafa verið mjög stöðuga í grunninn og svipað magn hafi verið framleitt síðustu tvo til þrjá áratugina af íslenskum jólatrjám.
„Þetta hefur verið að rokka á milli 8 til 10 þúsund trjáa. Framleiðslan jókst aðeins eftir hrun og þá fórum við hæst í rúm 11 þúsund tré,“ segir Jón en bætir við að síðan hafi framleiðslan dregist saman áður en hún hafi svo aftur risið á allra síðustu árum.
Stafafura vinsælust
Stafafura er langvinsælasta íslenska tréð og er 70-80% íslenskra jólatrjáa. Stafafura tók við af rauðgreni, þessu klassíska sem Þjóðverjar og svo aðrir Evrópubúar notuðu mest, að sögn Jóns, en á milli 60 og 70% íslenskra jólatrjáa á 10. áratug síðustu aldar voru rauðgreni. Aðrar íslenskar tegundir á jólatrjáamarkaðnum í dag eru blágreni og sitkagreni.
„Svo er reyndar alltaf einn og einn sem finnur sér fjallaþin og jafnvel lindifuru ef hann er heppinn.“
Stöðugt verðlag
Jón segir stafafuru halda barri hvað best, næstum fram að páskum, eins og hann orðar það, og hún sé frábær að því leytinu til og sé ef til vill ástæðan fyrir vinsældum hennar. Verðlag á íslensku grenitrjánum segir hann hafa verið stöðugt og segir aðspurður að líklega hafi verðhækkanir á þeim ekki haldið í við verðlag á undanförnum árum.
Nær öll jólatré sem flutt eru inn til landsins í dag eru normannsþinur og þá er eitthvað flutt inn af eðalþin að sögn Jóns en ekki er heimilt að flytja tegundir inn sem verið er að nota í skógrækt í miklum mæli hér á landi. Segir Jón hagkvæmt fyrir stóra aðila að flytja inn normannsþin þar sem hann sé frekar ódýr en einnig sé fallegt lag á trjánum, sem eru frekar barrheldin.
Varla samanburðarhæf
Hann segir þó íslensk jólatré og erlend varla vera samanburðarhæf. Þau erlendu séu fjöldaframleidd á ökrum en þau íslensku vaxi villt í skógunum. Vill hann ekki tala niður innfluttu trén og segist frekar vilja að fólk kaupi innflutt lifandi tré en gervijólatré, kaupi það ekki íslenskt grenitré.
Jón segir færast í vöxt að fólk hér á Íslandi sé ekki með tré og ástæðan gæti verið að nýbúar hér á landi þekki ekki þessa hefð frá sínu heimalandi, „en það er náttúrulega bara okkar að kynna þeim þessa skemmtilegu hefð,“ segir hann.
Jón segir íslensku trén ótrúlega merkilega vöru. „Þarna ertu með tvo til þrjá karla að ganga upp um fjöll á einhvers konar jólatrjáaveiðum. Allan daginn að finna góðan lund og sigta út falleg tré,“ segir hann og hlær. Segir hann vinnuna hefjast seint í október eða snemma í nóvember og þannig fari um tveir mánuðir í að sækja tré fyrir jólin.
„Skógræktin gamla, sem heitir nú Land og skógur, er að selja tré úr þjóðskógunum. Svo eru náttúrulega skógræktarfélög um allt land sem höggva og selja tré.“ Þá segir Jón að skógarbændur eigi einhverja skóga og hafi verið að fella tré til sölu. Talsverð aukning er á því að fólk fari sjálft út í skóg að höggva sér tré að mati Jóns. Hann segir slíkt í boði í dag um nær allt land.
Föst hefð hjá mörgum
„Að fara út í skóg og fá sér kakó og piparkökur. Þetta er orðin föst hefð hjá fullt af fólki.“ Þá segir hann að margir af þeim skógum sem skógræktarfélögin noti séu útivistarskógar landsins og sala úr þeim hvetji til umhirðu og aðstöðusköpunar í skógunum.
„Þú ert að fara að kaupa jólatré í þínum eigin útivistarskógi. Þannig er þetta í raun alveg einstök vara.“
Jón telur ekki of metnaðarfullt að segja að Íslendingar gætu orðið sjálfbærir þegar kemur að lifandi jólatrjám. „Það eru að koma upp talsvert stórar kynslóðir af trjám. Þetta snýst líka um framboð og eftirspurn og samkeppni í verði og öðru en við gætum held ég framleitt allt hérna heima á næstu árum eða áratugum.“
Gömlu ráðin eru best
Meðhöndlun lifandi jólatrjáa skiptir miklu og segir Jón Ásgeir sumar tegundir þurfa meiri natni en aðrar. En hvernig á að meðhöndla lifandi tré? Er nauðsynlegt að sjóða fótinn?
Skógfræðingurinn segir gömlu ráðin best. Að hafa tréð úti eins lengi og hægt er eða þar til það er sett upp, saga flís neðst af fætinum til að opna viðaræðarnar áður en tréð er sett í vatn en sumir geyma tréð hreinlega úti í vatnsfötu, setja heitt vatn í fótinn en óþarfi er að sjóða vatnið. Slysin gera ekki boð á undan sér og óþarfi að fólk brenni sig við verkið.
Fyrsti dagurinn mikilvægastur
„Svo er fyrsti dagurinn mikilvægastur. Tréð kemur inn í hitann og klárar vanalega vatnið í fætinum bara á nokkrum klukkutímum, þá þarf að passa að fylla á hann aftur og svo auðvitað bara halda vatni á fætinum.“
Skógræktarfélög
Íslensk jólatré að finna um allt land
Fólk getur sótt stofustássið í jólatrjáasölu og jólaskóga eftirfarandi skógræktarfélaga:
Skógræktarfélög Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps, Skógræktarfélag Árnesinga og Rangæinga, Skógræktarfélagið Mörk og Skógræktarfélag Djúpavogs, Skógræktarfélag Eyfirðinga og Austur-Húnvetninga, Skógræktarfélag Ísafjarðar og Stykkishólms, Skógræktarfélag Akraness og Borgarfjarðar og Skógræktarfélag Skilmannahrepps. Skógræktarfélag Íslands tekur á móti fyrirfram bókuðum hópum á Ingunnarstöðum í Brynjudal.
Frekari upplýsingar er að finna á jólatrjáavef Skógræktarfélagsins á skog.is.