Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hafa komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að banna notkun sjálfvirka auðkenniskerfisins AIS til að merkja staðbundin veiðarfæri, eins og gert hefur verið um árabil. Í samræmi við þessa niðurstöðu ákvað fjarskiptanefnd (ECC) póst- og fjarskiptasamtaka Evrópu (CEPT) – sem samræmir regluverk í Evrópu – árið 2022 að AIS-merkingar á veiðarfærum skyldu ekki heimilaðar eftir árslok 2024.
Fjarskiptastofa (FST) segir í svari við fyrirspurn blaðamanns að til skoðunar sé nú að innleiða þessa ákvörðun og að stofnunin eigi í samræðum við söluaðila tækjanna og Vegagerðina vegna málsins.
„Málið snýst um baujur sem notaðar eru á veiðarfæri. Ákvörðunin kveður á um að þessar baujur noti annað tíðnisvið en þær gera í dag. Líftími slíkra bauja er ekki langur svo að við hjá FST lítum ekki á þetta sem stórt vandamál. Þar að auki hefur fáum leyfum verið úthlutað fyrir þessi tæki undanfarið.
Meiri vandi erlendis
Nágrannar okkar Danir, Írar og fleiri lönd hafa nú þegar innleitt þessa ákvörðun og nú síðast eru Norðmenn, Bretar, Frakkar, Þjóðverjar, Hollendingar, Belgar og fleiri að skoða innleiðingu,“ segir í svarinu.
Sjálfvirkt auðkenniskerfi (AIS) er hannað til þess að rekja ferðir skipa og báta og er alþjóðlega viðurkennt staðsetningarkerfi fyrir sjóför. Sendir er um borð í sjóförum og á landi og gerir kerfið sjóförum kleift að fylgjast með umferð í kringum sig sem dregur úr hættu á árekstrum. Einnig fylgjast eftirlitsaðilar með skipaumferð í gegnum AIS-kerfið sem veitir upplýsingar um auðkenni skips, ferð og stefnu.
Um nokkurt skeið hafa sjómenn nýtt sér AIS-merkingar til að merkja staðbundin veiðarfæri sem auðveldar sjómönnum að finna veiðarfærin á ný og dregur úr hættu á því að skip sigli á/yfir þau. Slíkar merkingar hafa líka augljósa kosti þar sem baujur geta verið illsjáanlegar í vondu veðri eða öldugangi.
Notkun senda með þá tíðni sem AIS-kerfið styðst við er hins vegar leyfisskyld í Evrópu og hefur vandinn verið fólginn í því að sjómenn hafa nýtt sér senda án tilskilinna leyfa, þó hafi notkunin ekkki verið bönnuð sem slík. Hefur til að mynda norska siglingamálastofnunin (Kystverket) greint frá því að fleiri hundruð óskráðir AIS-sendar hafi verið í notkun á sama tíma þar í landi.
Hætta á rangtúlkun
Í tilkynningu sem birt var á vef norsku stofnunarinnar í lok nóvember segir að AIS-merkingar á veiðarfærum gefi skipstjórnendum ranga mynd af umferðinni á tilteknu svæði sem getur aukið hættu fremur en að minnka hana. Þess vegna verður í Noregi bannað að merkja veiðarfæri með AIS-merkingum frá áramótum.
„Skip sem nota AIS-kerfið fá skilaboð frá öllum sendum í sínu nánasta umhverfi. AIS-notandi/skipstjóri verður að skynja upplýsingarnar og túlka þær rétt til að njóta góðs af þeim. Á skjánum í dag í AIS-kerfinu birtast AIS-sendar á veiðarfærum sem skip. Slík ranggreining þýðir að ekkert samræmi er á milli stöðumyndarinnar sem sýnd er í gegnum AIS og þess sem hægt er að sjá sjónrænt eða á ratsjá. Þetta getur leitt til misskilnings og rangs skilnings á raunverulegri stöðu. Í versta falli getur það leitt til þess að skipstjórnendur taka rangar ákvarðanir; til dæmis að framkvæma aðgerðir til að víkja undan; eða að raunveruleg skip sjást ekki meðal veiðarfæra,“ segir í skýringu norsku stofnunarinnar.
Lausn Norðmanna á vanda sjómanna er að vísa til staðsetningarbúnaðar sem þegar er til og styðst við 4G- og 5G-farsímakerfin, en auk þess hefur norska fjarskiptastofnunin ákveðið að heimila merkingu veiðarfæra með tíðninni 160.900MHz í stað 161,975 MHz og 162,025 MHz sem AIS-kerfið styðst við.
Ber að merkja staðbundin veiðarfæri
Íslensk yfirvöld gera skýrar kröfur um að staðbundin veiðarfæri skuli merkt, en aðeins með AIS-merkingum sé veiðarfæri lagt á botndýpi sem er meira en 400 metrar og skal þá sækja um leyfi til FST.
„Allar niðurstöður skulu, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar. Baujur skulu vera á báðum endum allra lagna og merktar með flaggi sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Flögg skulu vera greinileg. Auk þessa skulu allir belgir merktir. Flögg eða belgir skulu vera með endurskini. Merkingar á baujuflöggum og belgjum skulu vera greinilegar og skulu stafir stórir og skýrir,“ segir í reglugerð um merkingu veiðarfæra og töpuð veiðarfæri.
Gert er ráð fyrir að merkja skuli hvern blýtein þegar veiðarfæri er samsett úr fleiri einingum og hverja gildru við gildruveiðar.
„Hverja netatrossu skal merkja þannig að á miðju baujustangar á vestari enda hennar skal komið fyrir netahring (floti), sem hæglega má losa og færa milli bauja. Leggi skip net sín á svæði þar sem togveiðar eru heimilar er skylt að auðkenna vestari enda netatrossa með hvítu blikkljósi,“ segir í reglugerðinni.
Þá er skylt að númera netatrossur við veiðar á skötusel og grásleppu frá einum og upp í eins margar trossur og viðkomandi bátur á í sjó. Númerið þarf að vera skráð skýrum stöfum á baujuflagg eða belg á báðum endum trossu.