Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Allt að 40% meiri tími heilbrigðisstarfsfólks og stoðþjónustu fer í meðferð og umönnun sjúklinga af erlendum uppruna en íslenskra sjúklinga og með vaxandi fjölda hinna erlendu er hugsanlegt að það auki álag á deildum Landspítalans. Þetta kemur fram í svari spítalans við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Segir þar að ýmsar orsakir geti legið þarna að baki, svo sem mismunandi menning, tungumálaörðugleikar, annars konar heilbrigðisumhverfi í þeim löndum sem fólkið kemur frá, túlkaþjónusta og þýðingar og aukin pappírsvinna, svo nokkuð sé nefnt.
Ekki segir spítalinn að komur erlendra ríkisborgara vegna vægari vandamála auki álag á starfsemi Barnaspítala Hringsins umfram komur íslenskra borgara. Hins vegar hafa starfsmenn spítalans orðið varir við almenna fjölgun í komum á bráðamóttöku Barnaspítalans. Hluta af þeirri þjónustu væri hægt að sinna á heilsugæslu, en þetta segir spítalinn að eigi við um alla, óháð ríkisfangi.
Ef litið er á komur barna með erlent ríkisfang á Barnaspítala Hringsins sést að þeim hefur fjölgað um 29% á milli áranna 2021 og 2023. Mesta fjölgunin er á legudeildum spítalans, 68%, 33% fjölgun varð á bráðamóttöku barna en 21% á dag- og göngudeild Barnaspítalans. Árið 2023 komu 5.857 börn af erlendum uppruna á spítalann en þau voru 4.529 árið 2021. Segir spítalinn að hlutfall erlendra barna í komum á spítalann hafi verið 14,2% af heildinni árið 2023.
Landspítalinn bendir á í svari sínu að börnum með erlent ríkisfang á Íslandi hafi fjölgað um 26% milli áranna 2021 og 2023, sem er aðeins minna en sem nemur komum erlendra barna á spítalann í heild. Segir spítalinn að komur barna með erlent ríkisfang endurspegli þá fjölgun sem orðið hefur og séu ekki úr takt við samsetningu aldurshópsins í samfélaginu og hópurinn leiti ekki oftar til spítalans en aðrir hópar.
Þegar kemur að börnum sem ekki eru sjúkratryggð hér á landi og leita til Barnaspítalans sést að fjöldi þeirra hefur nær tvöfaldast á milli áranna 2021 og 2023. Árið 2021 komu 1.179 ósjúkratryggð börn á spítalann, en árið 2023 voru þau 2.092 talsins. Hlutfall ósjúkratryggðra var 5% af heildarkomum á spítalann árið 2023.
Ótryggðir eru einkum erlendir ferðamenn sem hingað koma sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd.